40-Félagslíf

Eyrarbakkaverzluninni hefur einatt verið fundið það til foráttu, að hún hafi gert fullmikið að því að flytja brennivín til landsins og þannig beinlínis stuðlað að miklum og almennum drykkjuskap.

Sízt af öllu ber mér að neita þessu eða bera í bætifláka fyrir hana í þessum efnum, en þó uggir mig, að það hafi engu síður verið sök landsmanna sjálfra. Um þá mátti segja hið sama, sem Jón gamli ríki Þórðarson sagði við elztu dóttur sína, er hún ávítaði hann fyrir það, hversu lítið far hann hefði gert sér um að láta hana og systur hennar menntast, en í þess stað leyft þeim að leika sér að því að renna sér á hrossleggjum eða klakatorfum á ísilögðum flóðum og tjörnum: ,,Þetta vilduð þið!“ sagði hann. Já, Íslendingar vildu vín! Hefði svo eigi verið, hefði eigi verið unnt að selja þeim einn einasta dropa.

En nú varð drykkjuskapurinn almennari og afleiðingaríkari til ills en góðu hófi gegndi, og sáu þá ýmsir góðir mannvinir, að við svo búið mætti ekki lengur standa. Hér hlaut að verða breyting á.

Því var það, að hinn 4. október 1885 voru stofnuð bindindisfélög á Stokkseyri og Eyrarbakka. Var það Bjarni sál. bróðir minn, sem gekkst fyrir þessu, og nefndi hann þau ,,Bræðrafélög“. Síðar, hinn 13. júní 1886, var þeim breytt í Goodtemplarastúkur, sína á hvorum stað. Gengu þá margir ungir og efnilegir menn undan merkjum Bakkusar, enda lagðist drykkjuskapurinn þá að mestu leyti niður um langt skeið.

Drykkjuskaparöldin var liðin, en upprunnin ný öld ýmissa framfara, heilbrigðrar gleði og félagsskapar. Má þar fyrst til nefna ágæt söngfélög á báðum stöðum, er oft létu til sín heyra opinberlega „fyrir fullu húsi“, enda var mörgum ágætum söngmönnum á að skipa.

Leiklist dafnaði þar og mjög vel, því fyrir henni var einnig mikill áhugi og almenn aðdáun. Leikin voru ýmis innlend og erlend leikrit við góðan orðstír. Leikendur voru flestir góðir og sumir ágætir. Væri margt skemmtilegt hægt. að segja frá þeirri starfsemi, og hef ég vikið að henni á mörgum stöðum öðrum, þar sem um Bakkamenn og starfsemi þeirra var að ræða.

Hér vil ég aðeins geta um eitt leikrit, er kallaðist „Eitt kvöld í klúbbnum“. Var það leikið hvern veturinn eftir annan og jafnvel kvöld eftir kvöld við mikla aðsókn, en einkum þó þau árin, sem höfundar þess, Bjarna sál. Pálssonar, naut við. Þótt eigi væri það ýkja efnisríkt, var það sprenghlægilegt, fjörugt og fyndið og gleymist víst seint þeim, er sáu það og heyrðu. Ekki veit ég, hvort leikrit þetta er enn til, fremur en margt annað, sem Bjarni samdi af leikritum og sönglögum, en þau voru mörg. Annars er mér málið of skylt til þess, að ég megi fjölyrða um hann og hin fjölþættu störf hans.

En það er mér óhætt að fullyrða, að hann var lífið og sálin í hvers konar góðum félagsskap og átti frumkvæði að mörgu því, er til framfara horfði þar eystra á þeim tímum. Hugir manna hneigðust mjög að honum, því glaðlyndari mann og gunnreifari er naumast unnt að hugsa sér.

Um leikendurna austur þar er mér óhætt að segja, að enginn þeirra hefði fengizt til þess að leika níð og svívirðingar um mæta menn og góð málefni eins og „revýur“ þær, er leikendur hér eru sólgnir í að sýna, né heldur klámfengin leikrit eins og t. d. ,,Stundum og stundum ekki“, er hér var sýnt um eitt skeið allt að 60 sinnum fyrir fullu húsi illa uppalinna höfuðstaðarbúa og við innilega aðdáun þeirra á svo göfugri og ágætri skemmtun, er enn verr innrættir og uppaldir unglingar báru á borð fyrir þá þrátt fyrir yfirlýsingu merkrar stjórnskipaðrar nefndar, er taldi leikinn „nauðaómerkilegan og ekki samboðinn Leikfélaginu að sýna hann“.

Jú, leikendurnir og stjórn leikhússins vissu vel um smekkvísi áhorf endanna og höfðu reynt þá að staðgóðri þekkingu á fögrum listum! Nema hvað?

Leave a Reply