19-Verzlunareigendur og verzlunarstjórar

I. R. B.  Lefolii

Eigandi Eyrarbakkaverzlunar, I. R. B. Lefolii, var aldraður maður, en kom þó árlega til Eyrarbakka nokkru fyrir lestirnar og dvaldist þar um tíma. Hann var vel menntaður maður, söngvinn og alþýðlegur í viðmóti við alla, æðri sem lægri, en fáskiptinn nokkuð. Sat hann oftast heima í „Húsi“ eða niðri í skrifstofu verzlunarinnar, en var sjaldan á almannafæri. Væri hann úti við, gaf hann sig á tal við hvern sem var og var þá jafnan kurteis og kumpánlegur. Hann var í daglegu tali ýmist nefndur „Reiðarinn“, en þó oftar „Gróssérinn“, og var talið til tíðinda, þegar hann kom, enda breyttist þá oft verðlag innlendrar og erlendrar vöru til batnaðar, vinnukaup hækkaði og ýmislegt annað breyttist til hins betra.

Einu sinni sem oftar lá seglskipið Elbo Fredericia á höfninni og beið þess, að skipað væri út í það saltfiski, sem lá tilbúinn til útflutnings, en brim og sjávargangur hafði hamlað því um marga daga, að fiskurinn kæmist út í skipið. Þegar menn komu til vinnu sinnar í bráðabíti um morguninn, var Lefolii gamli þar fyrir og ræddi við verkstjórann, sem að viðtalinu loknu lét það boð út ganga, að svo væri um samninga búið, að farmur skipsins seldist miklu hærra verði en Lefolii hafði gert sér vonir um, ef skipið væri fullfermt þennan dag; hafði hann þá fengið bréf um það kvöldinu áður, að vátryggingargjald fiskjarins og skipsins hækkaði ekki, ef skipið væri tilbúið til siglingar og kæmist út af höfninni daginn eftir. Fyrir því héti hann nú á alla að gjöra sitt til að þetta gæti orðið, og til þess að sýna, að honum væri alvara, hét hann hverjum manni tveggja króna kauphækkun daginn þann og tíu króna verðhækkun á hvert skippund fiskjar þess, er þá væri kominn til verzlunarinnar, hvort sem hann færi allur eða að eins nokkur hluti hans með þessu skipi, því að allur óseldur fiskur mundi lækka í verði eftir þennan tiltekna dag. Fiskur sá, er nú átti að fara, var síðasti slattinn, sem enn var ófarinn. Komst hver fiskuggi út í skipið um daginn eða fyrir kl. 10 um kvöldið. Skjöl öll og skírteini voru undirrituð nokkru fyrir miðnætti og skipið komst út úr sundinu með morgunflóðinu daginn eftir.

Allir þeir, sem að þessu unnu, fengu það, sem þeim var lofað, og fiskur allur, sem inn hafði verið lagður, hækkaði um 10 krónur skippundið.

Sýndist mörgum eftir á, að óþarfi hefði verið fyrir Lefolii að gefa nein fyrirheit í þessa átt, heldur hirða ágóðann sjálfur, því að fiskurinn hefði komizt út í skipið hvort eð var um daginn. Hins vegar þekktu menn Lefolii og verzlunarstjóra hans svo vel, að loforð um launabætur, verðhækkun, sem og allt annað, stóð sem stafur á bók, svo og, að allir, jafnt fátækir sem ríkir nutu fullkomins réttlætis í þessu sem öðru. Það var margra ára ófrávíkjanleg regla, sem enginn leyfði sér að bera brigður á, að gefin loforð væru haldin. Af þessum ástæðum hlaut verzlunin það sæmdarorð, að hún væri „áreiðanlegasta verzlun landsins“, en hún var einnig og eigi síður alkunn fyrir að flytja inn beztu vöru, og með tilliti til þess, hve góð hún var og vönduð, var hún ódýr.

Andreas Lefolii

Þessi sonur I. R. B. Lefoliis gamla varð eftirmaður hans sem eigandi Eyrarbakkaverzlunar eða forstjóri hennar, hafi hún verið hlutafélag, sem mér þykir ólíklegt, að verið hafi, en um það veit ég svo lítið, að ég get enga fullvissu um það gefið. Svo mikið er víst, að það var ekki auglýst opinberlega hér á landi, að verzlunin væri hlutafélag.

Andreas Lefolii var næsta ólíkur föður sínum bæði í sjón og reynd. Hann var meðalmaður að vexti, ljósleitur í andliti, með hátt og stórt nef, grá augu og hátt enni. Hann var fáskiptinn mjög og þurr á manninn, en kurteis og kumpánlegur í sinn hóp. Enginn gleðimaður var hann, og þess varð eigi vart, að hann væri söngelskur sem faðir hans. Hann lét sig íslenzk stjórnmál miklu skipta og fylgdi mjög Valtýskunni og stofnun Íslandsbanka.

Kona hans var oft í fylgd með honum; hét hún Oline, nett kona og myndarleg. Meðan hún dvaldist á Eyrarbakka, fékkst hún mikið við ljósmyndatöku. Með þeim var og gömul kona ein, er nefndist fröken Möller, móðursystir Knúts Möller, eiganda hinnar heimsfrægu píanóverksmiðju Hornung & Möller. Fröken Möller var öllum stundum alls staðar þar, sem margir hestar voru saman komnir, til þess að taka af þeim steypumót. Var hún snillingur í þessu efni. Hún mótaði hesta, ýmist berbakaða eða með reiðtygjum öllum, og það var engu líkara en að þeir væri bráðlifandi. Því miður mun ekkert til vera eftir hana hér á landi, en 19~6 sá ég fjölda myndamóta þessara heima hjá Knúti Möller í Kaupmannahöfn. Þar sá ég og gömlu konuna, fröken Möller og margt skyldmenna hennar. Hún var smávaxin kona, höfðingleg að vallarsýn og virtist hafa verið fríð sýnum á yngri árum. En nú hafði ellin rist rúnir sínar á enni hennar og kinnar.

Margt gott mátti af fólki þessu læra, feðgunum báðum og konum þeim, er ég hef hér nefnt. Það var danskt, en meðal Dana er mikill fjöldi manna siðaður vel, kurteis og vingjarnlegur. Þeir eru, a. m. k. hér, álitnir að vera „stoltir“. Þetta var einnig sagt um Thorgrimsen gamla, en lýsingarorð þetta hefur verið og er enn misskilið mjög. Það er meðal vor Íslendinga oftast talið vera sömu þýðingar sem hrokafullur eða þóttafullur og því niðrandi, en í raun og veru þýðir það ekkert af þessu, heldur hitt, að stoltur maður lætur ekki neinn vaða ofan í sig eða nálgast sig um of, er fáskiptinn um annarra hagi og orðvar; hann er strangur siðvendnismaður við sjálfan sig og ætlast til þess, að aðrir séu það einnig. Þetta hefur mér virzt vera þjóðareinkenni Dana, og það voru einkenni þessi, sem áður nefndir menn og konur báru með sér, en engan uppskafningshátt eða hégómlegt tildur, enda vel menntað fólk og virðulegt. Heimilisbragurinn í „Húsinu“ á Eyrarbakka sannaði þetta og sýndi, að þar sat góðgirnin og göfugmennskan ávallt í öndvegi, og máttu Eyrbekkingar mikið af því læra, enda held ég, að margir þeirra hafi búið að því alla ævi síðan.

Guðmundur Thorgrimsen

Þótt ég á öðrum stöðum hafi vikið að ýmsu verzlunarstjórunum viðkomandi, vil ég bæta við það nokkrum orðum, áður en ég lýk við Eyrbekkingana mína. Guðmundur Thorgrimsen var verzlunarstjóri á Eyrarbakka samfleytt í 45 ár, frá 1841-1886. Fyrstu árin var hann hjá F. J. Johannessen kaupmanni, en 1847 gerizt hann verzlunarstjóri I. R. B. Lefoliisverzlunar. Af þessu vandasama starfi lét hann um áramótin 1885-1886, en þá var það fengið í hendur tengdasyni hans, P. Nielsen.

Thorgrimsen var af almenningi hér sunnanlands talinn vera einn hinn höfðinglegasti maður landsins og glæsilegasti.

Meðal vildarvina Thorgrimsens-hjónanna og tíður gestur á heimili þeirra var séra Jóhann Briem í Hruna. Minnist ég þess eigi, að hafa séð þrjá menn saman jafn-tígulega og vel á sig komna sem þá tvo og I. R. B. Lofelii, þáverandi eiganda verzlunarinnar. Varð mörgum starsýnt á þá, er þeir gengu saman á förnum vegi. Menn gátu hugsað sér, að þar færi gamlir og góðir hershöfðingjar eða herragarðsmenn erlendir.

Kona Thorgrimsens, frú Sylvia (f Nielsen), var orðlögð fyrir iðjusemi, nýtni og myndarskap í einu og öllu. Heimili þeirra hjóna og síðar frú Eugeniu Nielsen, dóttur þeirra, og. manns hennar, P. Nielsens, var rómað mjög fyrir fegurð alla og reglusemi, enda voru mæðgur þessar framúrskarandi stjórnsamar og reglusamar húsmæður, og því var það, að margar efnilegar unglingsstúlkur þar eystra voru þangað sendar til dvalar um lengri eða skemmri tíma, og nutu þær mikillar fræðslu í hannyrðum og heimilisstjórn. Bjuggu margar þeirra að því alla ævi upp frá því og sýndu, að þær hefði verið undir handleiðslu og stjórn góðra og göfugra kvenna og mikið af þeim lært – og allt gott.

Mér hefur oft komið til hugar, við hvað maður gæti líkt heimili þeirra Thorgrimsenshjóna og Nielsens, og virzt þau hljóti að hafa verið einna líkust því, sem sagt hefur verið um stórhöfðingja og heimili þeirra erlendis í gamla daga. Þeirra, sem ávallt létu opnar dyr sínar fyrir listelskandi ungmennum, námfúsum iðkendum söngs og sígildra lista, þar sem gleði og góðleikur skipa æðsta öndvegið.

Skömmu eftir að Thorgrimsen kom á Bakkann, varð hann einna helzti brautryðjandi þess, að barnaskóli var þar á  stofn settur. Hef ég getið þess á öðrum stað.

Thorgrimsen átti frumkvæðið að því, að orgel-harmonium var fengið í Stokkseyrarkirkju. Efndi hann til samskota í þessu skyni. Samskotalistarnir, dags. 27. janúar 1876 og hvatningarbréf Thorgrimsen og sóknarnefndarinnar, þar sem farið er fram á, að allir, yngri sem eldri, styrki málefnið með samskotum, eru enn til og í mínum vörzlum.

Þess er enn fremur getið í bréfinu, að Thorgrimsen – en rithönd hans er á bréfinu, – bjóðist til að láta dóttur sína, Sylviu (sem síðar varð Lunge í Kaupmannahöfn), kenna Bjarna Pálssyni (bróður mínum) að leika á hljóðfæri algjörlega ókeypis, enda sé til þess ætlazt, að hann verði organisti við kirkjuna. Ungfrú Sylvia var eins og þær systur allar ágætis slaghörpuleikari og söngkona góð. Naut Bjarni kennslu hennar allan þann vetur, einu sinni eða tvisvar í viku hverri, og varð hanna að ganga á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka fram og aftur, en það er einnar stundar vegur fyrir fótgangandi mann hvora leið. Þvílík varð aðstaða ungra manna sem vildu fræðslu og kennslu í einhverjum efnum, ef ástæður þeirra leyfðu þeim það, en það var fátítt mjög á þeim tímum: Kennslukraftana óvíða að finna og annríkið við dagleg störf til lands og sjávar svo mikið, að menn máttu ekki missa sig til þess að stunda neitt nám.

Bjarni varð góður og ötull söngkennari, sem örvaði marga aðra menn, jafnvel úr fjarlægum sveitum, til þess að nema söng og að leika a harmoníum. Þann hafði hann 11 unga menn hjá sér um tíma veturinn 1885-1886, alla úr Gnúpverja-, Hrunamanna- og Biskupstungnahreppi til þess að  kenna þeim að syngja lögin við alla sálmana, sem þá voru að koma út í nýju sálmabókinni.

Það mundi naumast verða talið til stórtíðinda nú, þótt fengið væri orgel-harmoníum í einhverja kirkjuna hér á landi, en mér er óhætt að fullyrða, að það þóttu mikil tíðindi á þeim tímum og hafði mjög mikla þýðingu. Að fá orgel í kirkjuna var að dómi sumra manna eitt hið argasta guðlast og til þess gert, að „skemmta skrattanum“. Gekk mótþróinn svo langt, að menn urðu að vitna í biblíuna máli sínu til stuðnings. Var áköfustu andstæðingum þessa máls hent á að lesa a. m. k. síðasta sálminn í Davíðssálmum til þess að fá þar sönnun fyrir því, að Davíð konungur lofaði guð í hans helgidómi „með hörpu, gígju og hljómandi skálabumbum“.

Það voru helzt gamlar og guðræknar konur, sem taka þurftu til sannanagagna þessara gegn stallsystrum sínum.

Mér er ekki kunnugt um allar þær umbætur, er Thorgrímsen var frumkvöðull að eða studdi flestum öðrum mönnum fremur hér að sín vegna og verzlunarinnar, en vil þó geta þess, að árið 1882 breytti hann flókinni bókfærslu í miklu einfaldara form og sparaði það margra manna vinnu og verzluninni margar þúsundir króna árlega. Var það þó um leið miklu tryggilegra fyrir báða aðilja, viðskiptamennina og verzlunina en áður var. Guðm. Thorgrímsen andaðist í Reykjavík 2. marz 1895, 74 ára að aldri. Kona hans. frú Sylvia, andaðist 20. júní 1904, 85 ára að aldri.

Hinn 16. marz 1895 var minningarguðsþjónusta haldin í Eyrarbakkakirkju í tilefni af fráfalli Thorgrimsens gamla.

Börn þeirra hjóna voru Sólveig, Eugenia (Nielsen), Jörgína (Sveinbjörnsson), Ásta (Hallgrímsson), Sylvía (Ljunge) og Hans Baagöe prestur í Ameríku. Hjá þeim ólust upp Lovísa (Nielsen?), Magnea Ísaksdóttir, er síðar giftist Magnúsi Ásgeirssyni lækni, og loks Kolbeinn Þorleifsson frá Háeyri, enda var Thorgrímsen fjárhaldsmaður Kolbeins að Þorleifi, föður hans, látnum (1882), og byggði hann húsið nr. 13 við Pósthússtræti fyrir fjármuni Kolbeins og mun hafa séð það betur henta en að hann hefði þá á lausum kili, enda var Kolbeinn óvenjulega ör á fé við sjálfan sig og aðra og hneigðist brátt að óreglu, einkum eftir að hann komst í Latínuskólann.

Að nokkru leyti má og segja, að Guðmundur Oddgeirsson, Gudmundsens prests í Vestmannaeyjum, hafi alizt upp hjá þeim Thorgrimsenshjónum. Um önnur börn þeirra og fósturbörn veit ég ekki.

P. Nielsen

P. Nielsen var fæddur í Danmörku 27. febrúar 1844. Til Eyrarbakka kom hann fyrsta sinni 11. júní 1872. Gerðist hann þar bókari og gegndi því starfi um 15 ára skeið, unz hann tók við forstjórastarfinu af tengdaföður sínum, Guðm. Thorgrímsen, 1. janúar 1886, eins og áður er sagt. Því starfi gegndi Nielsen í samfleytt 23 ár (1886-1909).

Nielsen var á síðari árum ávallt nefndur „Gamli Nielsen“ til aðgreiningar frá tengdasyni hans, J. P. Nielsen, sem tók við forstöðu verzlunarinnar af honum 1910.

Gamli Nielsen var viðkvæmur maður mjög og óvenjulega viðbrigðinn, ef eitthvað óvænt eða óvenjulegt bar að höndum. Hann var t. d. mjög eldhræddur og alveg á nálum, ef hann vissi, að menn voru á sjó í vondu veðri eða brimi. Lét hann sér mjög annt um að koma á ýmsum umbótum og öryggisráðum á öllu því, er að sjósókninni laut.

Lét hann sýna merki frá landi til þeirra, er á sjónum voru um það, hvað sjónum leið, hafði ávallt menn og skip við höndina til björgunar, ef eitthvað yrði að. Á ýmsum stöðum í landi var flaggað til þess að sýna, hvort sundin væri fær eða að mönnum var ráðið til að snúa frá þeim og leita lands annars staðar, t. d. í Þorlákshöfn.

Í þessu sambandi má geta þess, að einn hinna mörgu og góðu vinnumanna, er í „Húsinu“ voru hjá þeim Thorgrimsen og Nielsen, var Magnús Magnússon frá Sölkutóft. Hann var og talinn einn hinna fræknustu formanna austur þar og sá, er flestum eða nær öllum bjargaði frá drukknun, sem lentu í sjávarháska þar í veiðistöðinni og bjargað varð, ef skipi barst á. Hann var nefndur „Hús-Mangi“ og var víða kunnur undir því nafni. Þeir voru margir kappsamir og kræfir til sjómennskunnar formennirnir á Bakkanum, þ. e. á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Þorlákshöfn, á þessum árum sem jafnan fyrr og síðar.

Á Eyrarbakka má nefna þessa menn sem sjóhetjur hinar mestu:

Jón Sigurðsson lóðs, Jóhann Gíslason fiskimatsmann hér, Jón Jónsson „Eyvindarbróður“, Guðna Jónsson (Stóra Guðna), Ólaf Sigurðsson, bróður Jóns lóðs, Magnús Magnússon í Nýjabæ og marga fleiri, auk Hús-Manga, sem áður er talinn. Guðmundur Ísleifsson var og dugandi sjómaður og með afbrigðum veðurglöggur maður. ,,Foringi“ var hann enginn.

Á Stokkseyri má nefna þessa helzta:

Pál Eyjólfsson í Íragerði, Sigurð, bróður hans, á Kaðlastöðum, Benedikt Benediktsson í Íragerði, Sturlaug Jónsson í Starkaðarhúsum, Adólf Adólfsson á Stokkseyri, Jón Þorkelsson í Vestari-Móhúsum, Bernharð Jónsson í Keldnakoti, Þorkel Magnússon í Móhúsum, Ingvar Karelsson í Hvíld, Jón Einarsson í Dvergasteinum, Sels-bræðurna fjóra: Bjarna Pálsson í Götu, Pálmar Pálsson á Stokkseyri, Júníus Pálsson og Ísólf Pálsson, Hannes Jónsson í Roðgúl, Einar Gíslason í Borgarholti, Jón Sturlaugsson í Starkaðarhúsum, Bjarna Jónsson í Símonarhúsum, Hannes Hannesson á Skipum, Jón Guðmundsson í Gamla-Hrauni, Hallgrím Jóhannesson á Borg, Jóhannes Árnason á Stéttum, Sigurð Árnason í Hafliðakoti, Sigurð Hinriksson í Ranakoti, Hinrik Jónsson (föður hans), Jón Adólfsson á Stokkseyri og Jón gamla Adólfsson í Grímsfjósum, Þórð Grímsson á Stokkseyri og marga fleiri.

En í Þorlákshöfn þessa:

Jón Jónsson í Hlíðarenda (á lífi 1943, á 94. ári), Grím Gíslason í Óseyrarnesi og sonu hans tvo, Bjarna og Pál, Litlu-Háeyrarbræður þá Helga, Sigurð á Akri og Guðjón á Litlu-Háeyri, Jónssonu, Guðm. Þorkelsson á Velli, Ólaf Jóhannesson á Dísastöðum, er fórst 29. marz 1883, Þorlákshafnarbræður, Grím, Helga og Halldór, sonu Jóns Árnasonar þar, Þorbjörn Guðmundsson frá Nesi í Selvogi, Gísla Gíslason silfursmið í Reykjavík, Jóhann Guðmundsson frá Gamla-Hrauni, Guðm. Guðmundsson, bróður hans, og marga fleiri. –

Gamli Nielsen var fáskiptinn mjög um almenn mál nema þá eftir beinni fyrirskipun húsbónda síns (A. Lefolii). Trúmennska hans og samvizkusemi í einu og öllu, er að heimili hans og starfi laut, var honum sannkallaður matur og drykkur. Húsbóndahollustu hans og jafnframt góðvild í garð viðskiptamanna verzlunarinnar var við brugðið, og aldrei sá ég hann bregða skapi nema þá, er hann varð var við einhver óheilindi· í viðskiptum manna. Áminnti hann þá jafnan með hógværð og stillingu og sýndi það bezt, hversu vel hann kunni að stjórna öðrum og jafnframt geði sínu, enda vissi ég eigi til þess, að nokkur maður óhlýðnaðist boði hans eða banni. Hann var jafnan fátalaður og alvarlegur, svo að hann var jafnvel þungbúinn á svipinn, þegar hann var í skrifstofunni eða í búðinni, en þó ávallt kyrrlátur og kurteis. Aftur á móti virtist brá af honum og glaðna yfir honum, þegar hann var kominn út fyrir búðarþröskuldinn, þegar hann var heima hjá sér eða að dunda við náttúrugripasafn sitt, eggin og fuglana, var hann í essinu sínu. Svo var einnig, er hann sat að spilum, enda spilaði hann lomber, hvenær sem hann hafði tíma til, og nú á síðustu árum spilaði hann t. d. 156 spilakvöld eitt árið. Var hann þá glaður í anda, fyndinn og skemmtilegur.

Enda þótt Nielsen gamli dveldi hér á landi um nálægt 60 ára skeið, var honum jafnan ósýnt mjög um íslenzkuna. Bar tvennt til þess, í fyrsta lagi var dönsk tunga jafnan töluð á heimili hans, allt sem skrifað var og talað við verzlunina fór fram á því máli, og svo hitt, að hann hafði aldrei gefið sig neitt við íslenzkri málfræði. Vildu því beygingar hans allar og kyn ruglast mjög í meðferðinni hjá honum. Móðurmál sitt talaði hann og ritaði vel til hinzta dags. Rithönd hans var bæði áferðarfögur og lipur.

Í æviágripi Guðmundar Guðmundssonar bóksala, að mestu rituðu 1911, segir m. a. svo:

„Sú breyting varð á Lefoliisverzlun árið 1910, að Lefolii breytti henni í hlutafélagsverzlun, er nefndist „Einarshafnarverzlun“, og að hinn 1. janúar sama ár lét P. Nielsen af verzlunarstjórastörfum, er hann hafði gegnt síðan 1886, en tengdasonur hans, J. D. Nielsen, gerðist verzlunarstjóri Einarshafnarverzlunar“.

Hafði heilsa gamla Nielsens bilað svo skyndilega (heilablæðing), að hann varð að láta af stöðu sinni.

Frá Eyrarbakka fluttist Nielsen gamli alfari hinn 18. sept. 1928 hingað til Reykjavíkur. Dvaldist hann á Elliheimilinu Grund upp frá því, og þar andaðist hann hinn maí 1931, 87 ára að aldri. Kona hans, frú Eugenia, andaðist 9. júlí 1916, 65 ára að aldri, og dóttir þeirra, Guðmunda Nielsen, andaðist 12. des. 1937, 52 ára að aldri.

Gamli Nielsen átti við mikla vanheilsu að búa hin síðustu 20 æviár sín; hann var jafnan fátækur og margt hafði á daga hans drifið: Missir konu og barna og erfið kjör að ýmsu leyti.

Þegar ég sá og þó um seinan, að Nielsen gamli var til byrði fyrir Guðmundu, dóttur sína, þannig, að hún gat eigi notið starfskrafta sinna, sem voru góðir og miklir, var ég svo lánsamur að koma honum fyrir á Elliheimilinu Grund, og sótti ég hann því austur 18. sept. 1928, eins og áður segir. Frá Lefolii hafði hann rúmar 120 krónur á ári sem ævinlegan styrk frá Lefolii og skylduliði hans. Þetta nægði honum vitanlega eigi, þegar hann var kominn hingað suður, og fékk ég því 12-14 vini hans og mína hér til þess að leggja honum 10 – tíu – krónur á mánuði hver, meðan hann þyrfti þess við. Var þetta í samráði við vin okkar beggja, gæðamanninn og góðklerkinn, séra Ólaf Ólafsson fríkirkjuprest. Ég hafði svo fjárreiður þessar á hendi, er urðu svo góðar, að við gátum eigi einungis séð Nielsen gamla fyrir nauðsynjum hans öllum, meðan hann lifði, heldur og kostað útför hans alla og minningarlegstein yfir hann og konu hans. Samskotalistar þessir eiga að vera enn til í mínum vörzlum, mörg bréf frá Nielsen gamla og kvittanir.

Dóttir þeirra, Karen, kona J. D. Nielsens, býr í Kaupmannahöfn, sennilega við þröngan kost, en son áttu þau Karen og J. D. Nielsen, er Pétur hét, og mun hann nú vera stoð þeirra og stytta, enda voru þau hjónin bæði heilsutæp og höfðu litla atvinnu.

Þrátt fyrir hin erfiðu kjör Nielsens gamla, sem áður er lýst, var hann venjulegast glaður í anda og æðrulaus með öllu, fylgdist vel með í daglegum atburðum og ritaði mikið, einkum um fugla og lifnaðarháttu þeirra, því að þeir voru hin mesta ánægja hans til hinztu stundar Einkum var hann óþreytandi við að benda á það, hver hætta þjóðinni stafar af óþörfu fugladrápi, einkanlega rjúpunnar og arnanna. Má með sanni segja, að fuglarnir hafi átt þar tryggan vin og góðan talsmann, sem Nielsen gamli var.

Kona Nielsens, frú Eugenia, var ein hin mesta gæða- og mannkostakona, sem verið gat. Var það einróma álit allra þeirra, er henni kynntust bæði nær og fjær, að þar færi ein hin gagnmerkasta kona landsins, sem hún var, vel menntuð, göfuglynd og góðgjörn öllum þeim, er bágt áttu og hjálparvana, enda var hún frumkvöðull og fremst allra kvenna að Hjúkrunarfélagsstofnuninni á Eyrarbakka og sívakandi yfir velferð hennar og starfsemi öðrum til góðs. Hún var söngvin kona og síglöð, hafði bjarta og fagra söngrödd og mikinn áhuga fyrir góðum kirkjusöng og starfsemi söngfélagsins „Báru“ á Eyrarbakka.

Hvar sem frú E. Nielsen var stödd, hvort heldur á heimili sjálfrar hennar, í samkvæmi hjá öðrum eða meðal fátækra og veikra í hrörlegustu hreysum þorpsins, var sem hún færði með sér líf, fjör og yl yfir alla menn og málleysingja, því að hún var einnig eins og maður hennar dýravinur hinn bezti. Það var því eigi að undra, þótt heimili þeirra hjóna væri aðlaðandi og ástúðlegt, enda var þar margt um manninn, gesti og gangandi, erlenda sem innlenda. Hélzt þar ávallt sama gestrisnin og höfðingjabragurinn, sem alla tíð einkenndi svo mjög heimili foreldra hennar, Thorgrimsens-hjónanna gömlu. Frú Eugenía Nielsen hafði alizt upp á heimili Jóns landlæknis Hjaltalín hér í Reykjavík og því notið góðs uppeldis og menntunar. Hún var ávallt sjálfkjörinn foringi alls fagnaðar og góðs félagsskapar, eigi sízt bindindismálsins, sem hún unni mjög og vann mikið fyrir. Get ég eigi hugsað mér neitt annað byggðarlag hér á landi, sem eigi einni konu meira gott upp að unna eða meira að þakka en Eyrarbakki henni og raunar þeim hjónum báðum. Náttúrugripasafn sitt, fuglana og eggin gaf Nielsen barnaskólanum á Eyrarbakka, en hvernig um það fer eða það er hirt, veit ég ekki.

Nú er allt þetta góða og merka fólk horfið. Mun þess jafnan minnzt með þakklæti og virðingu af öllum þeim, er þess áttu kost að kynnast því. Endurminningin um Eyrarbakka frá þessum tímum, háttu manna og siði, mun seint eða aldrei gleymast þeim, er þá lifðu austur þar, en nú dveljast hér eða annars staðar. Munu nú sumir þeirra vafalaust áhyggjufullir um það, hvað nú tekur við og hvernig nú horfir þar við og víða annars staðar um margt á landi hér.

Leave a Reply