Bókhaldið
Eins og áður segir, var ég við Eyrarbakkaverzlun frá 1886 til 1902. Þeir, sem þá höfðu föst viðskipti við verzlunina, voru nærri 4000 – fjögur þúsund – að tölu. Voru þeir allir nákvæmlega skrásettir, og hlaut hver þeirra sína töluröð eða númer. Þannig átti ég nr. 1925. Gæti menn eigi sagt rétt til um sitt eigið númer eða annarra þeirra, er þeir áttu að verzla fyrir, fengu þeir enga afgreiðslu, nema því aðeins að þeir hefði heimildarskjal í höndum frá þeim, sem reikninginn átti. Undantekningar voru þó fyrir þessu, ef þekktir menn áttu hlut að máli. Voru skírteini þessi nefnd „Bevis“, og varð að taka það fram, hvaða vörur handhafi skjalsins ætti að fá eða fyrir hve mikla fjárhæð í vörum eða peningum mætti afhenda honum. Þegar búið var að afgreiða manninn samkvæmt heimildarskjalinu, var nafn hans ritað á það, dagsetning o. s. frv., og það síðan dregið á band og vandlega geymt. Jafnframt þessu var þess getið í viðskiptabók manns þess, er reikninginn átti, hvort úttektin hefði átt sér stað gegn „Bevis“ eða hann hefði sjálfur staðið að henni.
Væri ösin mikil og sendimaður mundi eigi númer sitt eða þess, er hann átti að verzla fyrir, varð hann oft að bíða þess alllengi að fá afgreiðslu, vegna þess að þá var enginn tími til að leita að númerinu í númerabókinni. Því var það nauðsynlegt mjög að muna þau sem bezt. Orsökin til þess, að svo stranglega var eftir þessu gengið, var sú, að áður fyrrum höfðu menn hnuplað úr reikningum manna með því að segjast eiga að taka eitt eða annað út úr reikningi þeirra, án þess að nein heimild væri til fyrir því. Var það oft miklum erfiðleikum bundið að rannsaka slíkar falsanir og að hafa hendur í hári sökudólgsins.
Heimildarskjöl þau og skírteini (,,Bevis“), er að ofan getur, lágu fyrir, svo tugum þúsunda skipti, í árslokin. Að 10 árum liðnum voru þau brennd, en fróðlegt væri nú að eiga sum þeirra eða sjá þau, því að þar var sumt einkennilegt og skrítið. Hef ég eignazt nokkur hundruð þeirra og m. a. 67 skírteini með eiginhandar rithönd séra Eggerts Sigfússonar að Vogsósum. Eru þau ærið einkennileg og efnisrík og lýsa honum betur en margt annað, sem um hann hefur verið sagt og ritað.
Viðskiptabækurnar voru á stærð við venjulegar sparisjóðsbækur, og var nafn og töluröð (númer) eigandans skrifað framan á hana. Inn í bækur þessar voru allar vörur skráðar, sem viðskiptamaðurinn lagði inn eða tók út á árinu. Við árslok voru allar bækur þessar gerðar upp og eftirrit af hverri þeirra sent viðkomandi viðskiptamanni í marz eða aprílmánuði næsta ár, en niðurstöðutölur þeirra: innlagt á árinu, úttekið á sama tíma og innieignar- eða skuldarupphæð færðar inn í höfuðbækurnar. Annað var þar eigi neitt innfært, og var að þessu mikill sparnaður í vinnu við svo umfangsmikil viðskipti og skriftir. Fyrirkomulag þetta komst á fyrir atbeina Thorgrímsens gamla árið 1882. Áður höfðu ýmsir hinar svonefndu „Kontrabækur“, og var fært inn í þær jafnóðum og inn var lagt og út var tekið, enda fengu menn þær bækur heim með sér, og þurftu þeir því enga sérstaka reikninga að fá, eins og hinir nú, er fengu reikninga sína senda með pósti eða fyrstu ferðum, sem féllu. Biðu menn með óþreyju mikilli eftir afritum þessum, því að þeir vildu „sjá hvernig reikningurinn þeirra liti út“. Eftirvæntingin var engu minni í þessu efni þá en þeirra nú, er leita hamingju sinnar í einhverju happdrættinu, enda höfðu þeir oft beinlínis áhyggjur út af þessu.
Viðskiptabækurnar voru bundnar saman í knippi með togleðursbandi utan um, tuttugu í hverju knippi. Á daginn voru þær geymdar í marghólfaðri hillu eða skápi, en í eldtraustum járnskápi á nóttum og um helgar inni í skrifstofu verzlunarstjórans. Með þessu fyrirkomulagi og tilhöguninni á notkun viðskiptabókanna annars vegar, en höfuðbókanna hins vegar á þá lund, er nú var lýst, var bókfærslan auðveld mjög og einföld. Veit ég eigi til, að fyrirkomulag þetta hafi verið notað neins staðar við aðrar verzlanir, heldur hinir svonefndu „kladdar“, en þeir voru aldrei notaðir á Eyrarbakka og eigi heldur tvíritunarbækur eða „nótur“.
Mál og vigt varningsins var fært inn í fisk- eða ullarbækurnar eftir því, sem við átti, og þær síðan sendar inn í búð. Þar var svo fært inn úr þeim í viðskiptamannabækurnar litlu í þeirri röð, sem nöfnin stóðu í fisk- eða ullarbókunum, og viðskiptamennirnir síðan afgreiddir. Var. þá kallað upp nafn mannsins eða hann leitaður uppi, og hófst þá afgreiðslan tafarlaust. Væri hann ekki viðlátinn eða kæmi hann stundarkorni síðar, komst hann ekki að, fyrr en bókfærslumaðurinn hafði afgreitt þann, sem fyrir var og hann var byrjaður á að afgreiða, vegna þess að hinn kom eigi í leitirnar í tæka tíð, nema svo stæði á, að annar bókfærslumaður gæti gjört það. Í þessum efnum sem öðrum var viðhöfð hin einstakasta reglusemi, og sættu menn sig vel við hana, því að þeir fundu það og sáu, að alls réttlætis og reglu var gætt. Það gat því oft verið bagalegt fyrir viðskiptamanninn að vera eigi viðbúinn, þegar nafn hans var kallað upp.
Afgreiðslan
Um lestirnar byrjaði afgreiðslan kl. 6 að morgni, og var henni haldið áfram slitalaust til kl. 9 að kveldi. Verzlunarþjónarnir skiptust þá á um að fara heim til máltíða eftir því, sem fyrirfram var ákveðið um hvern þeirra, fyrri flokkurinn (,,Förste Hold“) kl. 9 til árdegisverðar og kl. 3 til miðdegisverðar, en hinn (,,Andet Hold“) kl. 10 og kl. 4. Var þá blásið í lúður svo hátt og snjallt, að allir innanbúðar og utan máttu vita, hvað tímanum leið og gátu farið heim til máltíða eða hætt vinnunni að kvöldinu til. Ein klukkustund var ætluð til hverrar máltíðar.
Verzlunarbúðinni var ávallt lokað, meðan á máltíðinni stóð, nema á lestunum, og fór þá engin afgreiðsla fram. Að lokunin ætti að fara fram, var tilkynnt á þessa leið: Þegar menn áttu að fara heim til miðdegisverðar, kom maður nokkur fram á búðargólfið og kallaði hástöfum: ,,Spise! Spise! Spise!“ eða: ,,Nu spiser vi!“ En á kvöldin, þegar afgreiðslu allri var lokið, kallaði hann á sömu ]und: ,,Lukke! Lukke! Lukke!“ eða: ,,Nu lukker vi!“
Venjulega var það einhver bókhaldaranna dönsku, sem fyrirskipanir þessar flutti, og fóru þá allir þeir, er inni voru, út úr búðinni. Viðskiptamennirnir urðu því ávallt að tefjast um klukkustund frá afgreiðslunni, og kom það sér eigi ætíð sem bezt. Siðar var þessu breytt þannig, að dyravörðurinn blés í lúður svo hátt, að það heyrðist eigi einungis um alla búðina, uppi og niðri, heldur og til allra þeirra, er við vinnu voru eða afgreiðslu utanbúðar. Vissu menn þá, „hvað klukkan sló“, og gengu heim til máltíða eða hvílu sinnar á kvöldin, eins og áður er sagt.
Venjulega gekk verzlunarstjórinn sjálfur út úr búðinni síðastur allra og lokaði henni, gætti síðan að því, hvort hlerar væri fyrir öllum gluggum og búið væri að leysa varðhundinn Úr viðjum. Loks gekk hann niður í sjógarðshliðið til þess að gæta að því, hvort allt væri með kyrrum kjörum á höfninni, hvað briminu leið og hvort hann sæi ekki skip framundan, úti við hafsbrúnina eða einhvers staðar í Bakkabugðunni. Árveknin í öllu þessu sem öðru og húsbóndahollustan var til fyrirmyndar og fögur til eftirbreytni.
Meðan afgreitt var, stóð jafnan unglingspiltur eða byrjandi verzlunarmaður við hlið bókara þess, er yfir hann var settur, en bókhaldararnir voru margir, allt að 10 eða 12 að tölu. Var unglingur þessi nefndur „Afhændingsmand“ og laut hann boði og banni bókara síns í einu og öllu; hann mátti því aldrei hverfa frá eða sinna kalli annarra til neins. Hlutverk hans var m. a. það, að sýna viðskiptamönnum vörurnar, velja þær með honum, vega þær, mæla og telja eftir því, sem um var beðið og bókarinn lagði fyrir um, og skráði hann það jafnskjótt í viðskiptabók mannsins, þegar afgreiðslumaðurinn kom aftur og sagði til um það, hvað hann hefði úti látið. Allt, sem skráð var, var skrifað á dönsku, og viðtöl öll á milli verzlunarstjóra og bókara annars vegar, svo og viðtöl þeirra við undirmenn sína hins vegar fóru fram á því máli. Aftur á móti töluðu innlendir menn móðurmál sitt hver við annan, við viðskiptamennina og jafnvel yfirmenn sína alla nema verzlunarstjórann, einkum P. Nielsen og G. Thorgrímsen, sem þó mælti ísl. tungu mjög vel og ritaði sæmilega. Kom þá stundum fyrir, að Danirnir skildu hvorki né töluðu íslenzkuna sem bezt. Eru sagðar margar sögur af því, er landar og Danir ræddust við og skildu illa eða alls ekki hvor annan. Ein þeirra, sem einnig sýnir, hvernig afgreiðslan fór fram og henni var hagað, er þessi:
Danski bókarinn segir við afgreiðslumann sinn: ,,Pot og Pægl Brændevin!“ Afgreiðslumaðurinn endurtekur orðin: ,,Pot og Pægl Brændevin!“, arkar svo af stað, mælir viðskiptamanninum hið umbeðna, kemur aftur til hins danska bókara síns, og er honum þá íslenzkan tungutamari og segir: ,,Fimm pela brennivín!“ Verður Daninn þá æfur við og segir með rembingi miklum og dönskum yfirmannsþjósti: „Hva be’ har? J eg har sagt Du skulde maale ham Pot og Pægl, men nú har Du maalt ham fem Pægl: Altsaa giver Du ham een Pægl!“ –
Það var venja sumra sveitamanna og helzt aldraðra þar eystra, þegar þeir ávörpuðu aðra menn, að segja: ,,Hvað skrafið þér þá?“ í stað þess að segja svo, sem venjulegt var: ,,Hvað segið þér til?“
Einhverju sinni bar svo til, að Filippus gamli í Stekkum mætir Lefolii gamla á förnum vegi, tekur húfu sína af höfði sér, heilsar honum hæversklega og segir: ,,Komið þér nú sælir, Lefolii minn! Alltaf lifið þér!“ ,,Lever jeg? Gu’ lever jeg!“ segir Lefolii og ætlar að halda áfram og skilja við hann, en Filippus · gamli segir þá: ,,Hvað skrafið þér þá, Lefolii minn, þarna frá Danmörku?“ Varð hinn þá fár við og segir: ,,Jeg skraber ikke noget!“ Og nú fór Lefolii gamla að þykja gaman að karlinum, sem endaði viðtal þetta með því, að hann minntist þess, að um þessar mundir var stríð milli Frakka og Þjóðverja (1871), og spurði: ,,Er ekki stríð ennþá hjá ykkur þarna í Kaupinhöfn?“,, Jo, vi har Strie nok i Handelen her“. – Filippus gamli hugsaði sig um og sagði: ,,Þa’ ‘eité’ (það veit ég) – þetta bölvaða stríð!“
Af þessu sést, hversu málakunnátta beggja aðilja, Dana og Íslendinga, var oft og einatt takmörkuð, sem sízt var að undra með íslenzka sveitakarla, sem aldrei heyrðu nokkurt danskt orð nema á Bakkanum.
Vorlestirnar og oft endrarnær var ösin svo mikil, að til vandræða horfði með afgreiðsluna vegna troðnings og þrengsla. Var þó búðin stór og rúmgóð. A slíkum dögum bar það iðulega við, að þótt búið væri að afgreiða allan vorlangan daginn slitalaust og af mesta kappi, þá voru jafnmargir eða fleiri eftir óafgreiddir að kvöldi til næsta dags eins og þeir voru að morgni, þegar byrjað var, eða hátt á annað hundrað fastra viðskiptamanna, enda þurftu Bakkamenn og aðrir í nágrenni við hann einnig að fá afgreiðslu. Stóð þvílík ös oft dögum saman, svo að menn urðu þá að bíða 2-3 daga til þess að komast að. Austanmennirnir og aðrir þeir, sem lengst voru að komnir, létu þetta ekki á sig fá, heldur biðu rólegir, unz röðin kom að þeim. Þeir þurftu að bíða, hvort sem var, til þess að hvíla bæði sjálfa sig og hesta sína, eins og áður er sagt.
Bakkamenn og nærsveita voru vitanlega daglegir gestir verzlunarinnar og margir þeirra fastir viðskiptamenn hennar, flestir „leiðir langþurfamenn“, sem sjaldnast máttu biðja um mikið út í reikning sinn, sem þeir borguðu venjulegast upp að mestu leyti einu sinni á ári og þá helzt á vorin, þegar þeir höfðu lagt inn afla sinn eftir vertíðina, ef hún þá hafði gengið sæmilega, eða þá ull af nokkrum kindum, eða á haustin, þegar sumarkaupið var komið inn í reikning þeirra. Þessum mönnum, og þeir voru margir, var máske nóg að fá eina eða tvær skeffur af rúgi við og við, sem þeir svo möluðu sjálfir í handkvörnum sínum til að hafa hann sem útákast á grautinn sinn, eða þá að þeir fengu „sitt pundið af hverju“, sem kallað var, en það var 1 pund af kaffi, 1 pund af sykri (kandís) og ½ pund af rót (Exportkaffi). Aldrei vissi ég til þess, að verzlunarstjórinn léti neinn þessara manna synjandi frá sér fara, enda var honum allra manna kunnugast um hagi þeirra og fann oft sárt til með þeim, ef þeir liðu skort. Þetta marg- endurtekna orðtak: „Sitt pundið af hverju“ eða „sína ögnina af hverju“, sem það var einnig stundum nefnt, skildu allir og vissu, við hvað var átt. Það var orðið rótfast í hugum manna og meðvitund.
Fyrir jól og aðrar stórhátíðir fengu menn venjulega einhverjar frekari úrlausnir, t. d. 1 pund af skonroki, hagldabrauði eða skipsbrauði, 1 eða 2 pund af púðursykri (Farin), ¼pund af munntóbaki eða hálfan rjólböggul. Loks þótti það alveg sjálfsagt að láta menn fá á jólapelann og aldrei minna en þriggjapelaflösku, enda vissu menn, að ,..lítil eru not lífsins án sælgætis“. Þetta þótti hvað fyrir sig og hvert með öðru sælgæti á þeim tímum, þótt ekki væri það margbrotnara né merkilegra, og víst er um það, að menn áttu þá engu síður en nú gleðileg jól, sannnefndar gleðistundir og sæludaga, sem í endurminningum þeirra lifðu alla ævi í hugum þeirra og hjörtum. Og þær voru í sannleika flestar bjartar og blessunarríkar, einkum börnum, unglingum og gamalmennum, sem eigi höfðu af öðru að segja.
Jafnframt sínum eigin vörum voru sveitabændurnir einatt með vörur fyrir aðra, kunningja sína, börn sín og vinnuhjú. Þannig var Markús gamli Jónsson frá Bakkakoti í Meðallandi oftast með sín 2 eða 3 pundin af ull fyrir um og yfir 20 menn aðra frá heimili sínu eða nágrönnum. Þegar byrjað var að afgreiða, dró viðskiptamaðurinn blað eða bók upp úr vasa sínum, en þar var á ritað vörumagn hans og annarra, er hann verzlaði fyrir, verðmæti þess eftir því, sem hann hafði gert áæltun um eða getið sér til, áður en hann fór að heiman, svo og vörur þær, er hann þurfti að fá fyrir það. Reyndust áætlanir þessar og útreikningur furðanlega nákvæmar.
Hið fyrsta, sem fram á var farið „að fá út í reikninginn sinn“, var undantekningarlaust þriðjungur í peningum, því að um skuldir var naumast að ræða, þegar búið var að leggja inn um lestirnar og allra sízt hjá Skaftfellingum, þótt fátækir væri. Þeir máttu eigi til þess hugsa, að skulda einn eyri, hvað þá meira, frá ári til árs. Úttekt þeirra varð að hnitmiða við verðgildi innlögðu vörunnar, það, sem þar var fram yfir, var vont!
Næst peningaúttektinni kom svo brennivínið, 2-4 pottar, eitt eða tvö kvartél ( 40-80 pottar) eftir því, sem efni stóðu til. Að vísu voru það „stærstu bændurnir“ og þeir, sem mjög voru hneigðir til víns, er leyfðu sér slíkt, eða þá þeir, sem heima áttu við þjóðbraut og höfðu greiðasölu. Að peningunum fengnum og brennivíninu báðu menn um kornmatinn, kaffi, sykur, kol og salt, ljái og brýni, liti og járn, o. s. frv. ,,Kramvaran“, en svo var öll álnavara nefnd, var hjá flestum látin mæta afgangi.
Yrði úttektin meiri en verði innlenda og innlagða varningsins nam, var sjálfsagt að draga úr henni, sína ögnina af hverju, og öllu nema peningunum – og brennivíninu, því að það varð hvorttveggja að koma til skila, eins og um var beðið. Að afgreiðslunni lokinni var það ófrávíkjanleg venja, að viðskiptamaðurinn fengi „á ferðapelann“, og var það sjaldan minna en þriggjapelaflaska af brennivíni. Væri um stærri viðskiptamenn að ræða, fengu þeir í tveggja- eða fjögrapotta kút. Þá var það einnig sjálfsagt talið, að bændurnir, synir þeirra og vinnumenn, hefði ávallt nóg á pyttlunni, meðan þeir stóðu við. Entist mörgum þeirra þessi „björg“ svo vel, að þeir gátu gert sér og vinum sínum gott af því á heimleiðinni eða geymt það til lengri tíma. Sjaldan voru þó langferðamenn svo drukknir, að þeir eigi gæti haldið leiðar sinnar þess vegna.
Aðalvínforði verzlunarinnar var geymdur í „kjallaranum“. Úr honum var vínið flutt í ámu eina, er lá á hliðinni gegnum norðurvegg búðarinnar. Áma þessi tók 11 lagartunnur, en ekki entist þó sopi þessi lengur á lestunum en fram að nóni, daginn, sem hún var fleytifyllt að morgni, og þurfti því að fylla hana strax, þegar hún var orðin þurrmjólka um þetta leyti dagsins. Afarstór látúnskrani var á öðrum botni hennar og út frá honum tveir smærri kranar til beggja hliða. – Er þetta merkilega áhald nú í minni eign og hin eina „minningargjöf“, er ég á þaðan að austan. -Mátti svo segja, að bunan stæði út úr krönum þessum allan daginn, og hafði maður sá, er vínið mældi, ærinn starfa á hendi, því að að afgreiðslu lokinni hafði nyt þessarar merkilegu mjólkurkýr numið nærri 1800 pottum af þessari „nauðsynjavöru“ um daginn. En þetta nægði þó ekki, því að önnur venjuleg lagartunna var þar og einnig nálægt með brennivíni beztu tegundar, og hrökk hún venjulega til yfir daginn. Loks voru þar og fleiri tunnur af sömu stærð með ýmsum „dýrmætum“ vökva, kvennavíni því, er síðar getur, Ratafia, rommi, koníaki og viskí, m. ö. o. allar víntegundir, er hingað fluttust til landsins.
Eins og áður er að vikið, var Eyrarbakkaverzlun hin eina lyfjabúð austur þar: verk- og vindeyðandi dropar nægir, gratie (frb grassía), hjartastyrkjandi dropar, áburðarmeðul alls konar, perubalsam, Opodelsloc og aloe, svo og plástrar, umbúðir o. s. frv. Þurftu menn þá eigi á neinu „recepti“ að halda, þótt beðið væri um svo sem einn eða tvo „hundaskammta“ af einhverri lyfjategund, svo sem hoffmannsdropum eða öðru „meinhollu helvíti“, eins og karlinn sagði, að „lífgaði allt, en dræpi engan“.
Kvenfólk var sjaldan í kaupstaðarferðum. Því var það venja eiginmanna þeirra og annarra góðvina að færa konum sínum og kærustum einhvern dreitil á sérstökum ferðapela, er þeir komu heim úr kaupstaðnum, því að eigi máttu þær fara á mis við öll gæði þessarar veraldar. Var þetta venjulega hálf- eða heilflaska af hinu svonefnda „kvennavíni“, er bæði ég og aðrir lærðum sjálfir að brugga, enda engar sektir viðlagðar né vist í Fælu, því að hér var enginn ,,höskuldur“ á ferðinni, bílaglussi eða brennsluspíritus, heldur ofurmeinlaus altarisdrykkur, sem allir þeir, er neyttu, fengu fulla syndafyrirgefningu fyrir, þótt sá, er gæfi, væri blindfullur sjálfur, er hann færði vinkonu sinni það.
Vín þetta var búið þannig út, að tekinn var stór flókahattur, á stærð við lítinn mópoka eða tínusekk, meðalskjóðu eða skyrsá lítinn, hreinn og vel þveginn. Hann var hengdur í þrem böndum á bita í „kjallaranum“ efri. Í hann voru látin umsóp öll úr sykurskúffunum, rúsínu- og sveskjuílátunum og púðursykur eftir þörfum. Því næst var sjóðandi vatni hellt í hattinn og sykurlögurinn og sætindaeimsældin öll látin síast í gegnum hann niður í afarstórt tréker, líkast baðkeri og loks hæfilegum vínanda eða kirsuberjalegi blandað saman við allt saman, svo að liturinn á því yrði fagurrauður og girnilegur. Þegar blöndun þessari var lokið, var eigi annað eftir en að láta löginn á flöskur, ganga vel frá töppunum með tappavél og dýfa svo flöskustútunum niður í bráðið lakk, grænt eða rautt eftir atvikum, og líma svo forkunnar fagra miða á flöskuhliðarnar. Miðarnir voru prýddir myndum af vínberjakönglum, logagylltum englahámyndum á hornum öllum, en Amori og Venusi á miðju. Vorum við ætíð hrifnir mjög af sköpunarverki þessu, ,,og sjá: Það var harla gott!“
Það liggur í augum uppi, að allur þessi brennivínsaustur hlaut að leiða sannkallaða brennivínsöld yfir landið. Keyrði jafnvel svo úr hófi, að öllum hugsandi mönnum hlaut að standa stuggur af. Leiddi það til þess, að bindindisfélög voru stofnuð, ein hin fyrstu hér á landi, er getið verður síðar.
Lausakaup
Auk hinna föstu viðskiptamanna var og fjöldi annarra, er verzluðu í „lausakaupum“, þ. e. fyrir peninga, ull eða aðrar vörur, mældar á létta vog. Viðskipti þessi máttu eigi aðrir hafa með höndum en 2 eða 3 menn. Voru það venjulegast þeir Jón á Loftsstöðum, Ísólfur sál., bróðir minn, og ég, sem höfðum verzlun þessa á hendi yfir allan sumartímann án þess þó, að við hefðum neinn ,,Afhændingsmand“ okkur til aðstoðar. Á öðrum tímum ársins gegndu ýmsir aðrir menn störfum þessum, og fylgdi þeim ávallt annríki mikið og ónæði. Enda þótt peningar væri lítið notaðir í viðskiptum manna og þeirra í milli á þeim tímum, kom oft drjúgur skildingur inn á þessa lund.
Almenningi til lands og sjávar þótti gott að skipta við Eyrarbakkaverzlun. Þar var regla hin mesta á öllu, viðskiptin framúrskarandi áreiðanleg, afgreiðslan lipur, vörurnar góðar og langt frá því að vera dýrar, heldur jafnvel ódýrari en annars staðar.
Peningakútarnir
Árlega og upp úr nýárinu voru peningakútarnir sendir með sérstökum ferðum frá verzluninni suður til Reykjavíkur og þaðan svo til útflutnings til Danmerkur. Til þess að láta sem allra minnst á því bera og helzt engan um það vita voru kútar þessir látnir í heysekki svo stóra, sem til voru, og fluttir á hestum. Heyið var vitanlega haft handa hestunum. og því grunaði engan, að neitt annað en hey væri í sekkjum þessum, og á gististöðum, t. d. á Hrauni í Ölfusi, Kolviðarhóli, Lækjarbotnum og Árbæ var þess krafizt, að þeir væru geymdir inni í læstri skemmu, ,,svo að heyið vöknaði ekki“, og varð sá, er ferðinni réði og sjá átti um farangurinn, að geyma lykilinn yfir nóttina. Lét hann lykilinn jafnan undir koddabrún sína, svo að enginn næði til hans.
Kútar þessir voru um 100 pund að þyngd, með gulli í og silfurpeningum, vandlega forsigluðum. Hversu mikið fé þetta var, vissi enginn nema verzlunarstjórinn, en stundum var það allmikið, því að margir léreftspokar komust í hvern kút, sem voru á stærð við átta potta lagarkút. Voru þeir járnbentir vel og innsiglaðir. Einn kútur var í heysekki hverjum, en þeir voru oft 6-8 talsins. En sekkirnir voru ærið þungir, hefði aðeins verið um þurrt hey að ræða.
Þrír menn voru oftast valdir til þessara ferða: Gísli gamli Jónsson í Eyvakoti, Jóhann Gíslason frá Steinskoti, vinnumaður verzlunarstjórans, en nú fiskimatsmaður hér í Reykjavík, og er hans áður getið sem aðalvigtarmanns verzlunarinnar; hinn þriðji var Jakob Jónsson í Einarshöfn eða Jón í Norðurkoti, bróðir hans. Umboðsmaður verzlunarinnar hér í Reykjavík var Chr. Zimsen konsúll og síðar Jes Zimsen, sonur hans. Til þeirra áttu kútarnir að fara.
Einar gamli Jónsson (Einar borgari, faðir Sigfúsar tónskálds) notaði oftast þessar sömu ferðir til þess að koma af sér peningum sínum. Umboðsmaður hans hér var Martin gamli Smith konsúll. Með næsta skipi (póstskipi) voru svo kútar þessir sendir utan.
Væru peningar sendir hingað á vorin, komu þeir með skipum verzlunarinnar, venjulega með fyrsta skipi ,,matarskipinu“, sem kallað var vegna þess, að það flutti kornvörurnar), og voru kútarnir þá faldir niðri í lestinni innan um rúginn, og voru því ávallt tveir menn látnir vera úti í skipinu, meðan rúgnum var skipað upp.
Verzlunarvelta Eyrarbakkaverzlunar
Til fróðleiks og sem sýnishorn þess, hver viðskiptavelta verzlunarinnar var, vil ég tilfæra nokkra liði hennar, eins og þeir voru á árunum 1875-1892, en hún varð miklu umfangsmeiri síðar. Árið 1875 komu 10 skip til verzlunarinnar, en 1892 voru þau 14, síðar 17 flest.
SETJA INN EXELTÖFLU Bls. 64d
Reikningar þessir eru gjörðir í lok ágústmánaðar hvort árið, þegar öllum vor- og sumarlestum er lokið og vörubirgðir minnstar á árinu.
Þegar þess er gætt, hversu miklum breytingum peninga og verðgildi hefur tekið síðan, má sjá, að hér var um all stóra verzlunarstofnun að ræða, sennilega hina stærstu hér á landi.
SETJA INN TÖFLUR Á BLS. 65 …..
SETJA INN TÖLVU BLS. 66
Starfsmenn við Eyrarbakkaverzlun
Rúmið leyfir ekki, að getið sé allra þeirra mörgu verzlunarmanna, er um lengri eða skemmri tíma voru starfsmenn við Eyrarbakkaverzlun. Verður aðeins getið þeirra, er þekktastir voru og lengst störfuðu þar.
Er þá fyrst að geta Guðmundur sál. Guðmundssonar bóksala, sem var í þjónustu verzlunarinnar um 56 ára skeið. Hann var ástundunarsamur mjög, nákvæmur í öllu því, er hann átti að inna af hendi, og ábyggilegur. Rithönd hans var ávallt jafnfögur, hvort sem hann ritaði af kappi eða hann lagði sig til; fljótvirkur var hann og vandvirkur. Síðustu æviár sín átti Guðmundur heima hér í Reykjavík. Vann hann þá mjög að ritsafni sínu, kýmnisögum og kvæðum, enda var hann skáldmæltur vel. Meðal barna hans af fyrra hjónabandi eru þeir Guðmundur kaupmaður á Selfossi og Sigurður bóksali á Eyrarbakka, en dætur hans Ásta og Halldóra, báðar hér í bænum. Tvo sonu misstu þau hjónin, framúrskarandi efnilega, Hans Baagöe og Ástmund. Kona Guðm. bóksala var Ástríður Guðmundsdóttir frá Kotvelli í Hvolhreppi, ein hin ágætasta kona. Síðar kvæntist Guðmundur Snjólaugu Sveinsdóttur, fyrrv. ljósmóður, og eignuðust þau tvo sonu, Ástmund bókara og Svein járnsmið. Snjólaug er mikilhæf kona og merk. Guðm. bóksali andaðist 27. apríl 1937, 87 ára að aldri.
Kristján Jóhannesson (d. 8. febr. 1910, 43 ára) var um tekt, er hann kom sem vikadrengur til Nielsens gamla á Eyrarbakka. Sá Nielsen brátt, hve góður piltur þetta var, athugull og vel viti borinn. Við vorum samtímis í 16 ár við verzlunina á Eyrarbakka og í 10 ár samstjórnendur við Sparisjóð Árnessýslu ásamt Guðjóni Ólafssyni í Hólmsbæ (d. 27. júní 1918, 65 ára að aldri), eða þangað til ég fluttist suður 1902. Kristján reyndi ég að tállausri tryggð, samvizkusemi og staðfestu. Hann var manna gleggstur á tölvísi, þótt eigi væri hann skólalærður í þeim fræðum né öðrum. Var honum jafnsýnt um reikning og tölur, hvort heldur var í huganum eða með pennanum, og svo var hann minnugur á tölur, að hann mundi númer hvers einasta viðskiptamanns, og var því óþarft að leita þess í númerabókinni, ef Kristján var þar einhvers staðar á næstu grösum. Sparisjóði Árnessýslu gegndi hann til dauðadags með frábærum dugnaði og árvekni. Var það mikið tjón fyrir Eyrarbakka, að hann skyldi falla frá svo ungur sem hann var.
Guðjón Ólafsson var hinn mesti ágætismaður, glaður og góðviljaður við alla, smáfyndinn og vel hagorður. Eru til margar smellnar vísur eftir hann. Guðjón var dulur í skapi og fáskiptinn við aðra menn, en því raunbetri, ef til hans var leitað um góð ráð.
Siggeir Torfason var meðal hinna fyrstu, er ég kynntist, eftir að ég kom til verzlunarinnar 1886. Mun mér seint gleymast, hversu leiðbeinandi hann var og ljúfur við mig, ungan og óreyndan sveitapilt, hversu átölulaus og umburðarlyndur, ef eitthvað bar út af, og var hann þó skapmikill og strangur. Hann var ávallt reiðubúinn til að leiðbeina mér um það, hvernig eitt eða annað ætti að vera, og gerði hann það jafnan með hógværð og stillingu.
Síðan hef ég oft séð, hversu mikilsvert það er fyrir hvern ungling, sem lítið kann og er einurðarlítill, að komast undir stjórn slíkra manna sem Siggeir Torfason var. Þess varð ég aðnjótandi, og tókst þá þegar góð vinátta með okkur og heimili hans alla tíð síðan, unnum mikið saman í söngfélaginu hér og eystra o. s. frv. Siggeir andaðist hér 6. júlí 1938, 76 ára að aldri, en hin ágæta kona hans, Helga Vigfúsdóttir, 30. júní 1934, einnig 76 ára að aldri.
Guðmundur Ögmundsson, bróðir sálmaskáldsins, Brands Ögmundssonar á Kópsvatni og Katrínar, konu Hákonar Grímssonar frá Gljákoti, er var seinni maður hennar, – fyrri maður hennar var Ólafur Jóhannesson á Dísastöðum, er fórst í mannskaðaveðrinu mikla 29. marz 1883 frá Þorlákshöfn. Guðmundur var einn hinn skemmtilegasti og spaugsamastí maður, þeirra er mér voru samtíða. Var bæði gagn og gaman að eiga viðræður við hann. Hann andaðist hér um síðustu aldamót.
Aðrir bókarar voru þessir:
Carl Andreas Danielsen, er kvæntist Sólveigu Gísladóttur frá Skúmsstöðum. Hún andaðist 29. júlí 1942 hér í Reykjavík, 76 ára að aldri. Voru þau foreldrar Karólínu, konu Maríusar Ólafssonar skálds. Danielsen fór um 1890 til Kaupmannahafnar og síðar þaðan til Melbourne í Ástralíu; hefur fátt af honum heyrzt síðan. Hann var einn hinn fríðasti maður, er ég hef séð. Hann var stilltur vel, fálátur og þungsinna nokkuð. Þegar hann kom til Eyrarbakka 188.5, kunni hann ekki eitt einasta orð í íslenzku. Tók hann þá til að lesa íslenzkar fornsögur og fleiri rit gömul. Að ári liðnu skrifaði hann mér bréf til Stokkseyrar, og var það ritað öðrum megin á stóra 1)1 örk. Ein einasta stafvilla var í bréfinu. Danielsen og Siggeir Torfason voru þeir, sem verzlunarstjórinn, P. Nielsen, valdi til þess að vera verðir niðri í skrifstofu hans nætur sem daga það, sem eftir var vetrar eftir innbrotið mikla í byrjun febrúarmánaðar 1886. Höfðu þeir þar hjá sér byssur og önnur vopn, svo og varðhundinn mikla, er Hertha hét, ef einhver skyldi ráðast þar að aftur.
Hjálmar Sigurðsson skáld, er síðar starfaði hér við Landsbókasafnið, ritaði Árbók Þjóðvinafélagsins um aldamótin síðustu o. fl. fluggáfaður maður og drengur góður.
Guðmundur Guðmundsson, bóksala Guðmundssonar, nú á Selfossi.
Þorsteinn Þorgilsson frá Rauðnefsstöðum, faðir Ólafs verkfræðings og Magnúsar kaupmanns.
Pétur Guðmundsson kennari, faðir Jóns Axels og þeirra systkina, d. 8. maí 1922.
Gísli Jónsson, tengdafaðir Guðmundar bóksala.
Jón Jónsson frá Loftsstöðum, d. 6. júlí 1944, 83 ára.
Ísólfur Pálsson, d. 17. febrúar 1941.
Chr. Lange, er síðar varð verzlunarstjóri við Knudtsons og Brydes-verzlun hér.
L. Larsen, er varð verzlunarstjóri H. A. Thomsensverzlunar og drukknaði á Viðeyjarsundi 26. júlí 1884, ásamt Sigurði Sigurðssyni slembi, kennara við Latínuskólann.
Auk þessara manna voru þar og ýmist við afgreiðslu eða bókfærslu þeir:
Jón Pálsson Matthiesen frá Arnarbæli, bróðir séra Jens í Görðum.
Sigurður Jónsson, er síðar varð prestur að Lundi í Lundarreykjadal.
Jónas Jónsson (Máni), er síðar varð Alþingishússvörður. Guðni Jónsson frá Skeiðaháholti.
Hjörtþór Illugason (kom frá Unbehagensverzlun), d. 14. okt. 1896.
Áður en ég kom að verzluninni, vissi ég um þessa sem helztu menn þar:
P. Nielsen, er varð verzlunarstjóri 1. janúar 1886, d. 9. maí 1931.
Andrés Ásgrímsson, Eyjólfssonar, d. 16. marz 1882. Bjarna Pálsson organista, d. 24. febrúar 1887.
Philipsen, danskan mann, en ég vissi eigi, hvað hann fór eða hvað af honum varð.
Ýmsa fleiri mætti nefna, er ég hafði kynni af, þótt skamma dvöl hefði.
Um alla ofangreinda samtíðarmenn mína er mér óhætt að fullyrða, að þeir voru hinir viðkynningabeztu, góðir félagar og vandaðir menn. Minnist ég þeirra allra með vinsemd og þakklæti, jafnvel því fremur af þeim ástæðum, að síðar á lífsbraut minni urðu þeir menn á leið minni, sem ég get eigi sagt hið sama um, og á ég þar við samtíðarmenn mína nokkra og samverkamenn í Landsbanka Íslands, en þó einkum suma húsbændur mína þar, en þeim og samvinnu allri reyni ég að gleyma.
Þá er eftir að minnast nokkurra þeirra, er voru í vefnaðarvörudeildinni:
Guðmundur Oddgeirsson, d. í Buenos-Aires 5. des. 1920. Guðmunda J. Nielsen, dáin 12. des. 1937.
Ingibjörg Halldórsdóttir, er giftist Andreas Bergmann bókhaldara, nú í Danmörku. Voru þau foreldrar Andrésar Bergmanns gjaldkera í Völundi.
Sólveig Gísladóttir Danielsen, sem áður er getið. Halldóra Guðmundsdóttir og Sólveig Thorgrímsen, dóttir G. Thorgrimsens gamla. Var hún ágætiskona hin mesta, söngvin mjög og ljóðelsk. Hún átti mikið safn innlendra og erlendra ljóða, sem lýsti því vel, hversu hún unni öllu því, sem fagurt var.
Utanbúðar voru þessir menn helztir:
Ásgrímur gamli Eyjólfsson. Magnús smiður Þórðarson. Hannes Sigurðsson á Litlu-Háeyri. Ólafur Gíslason í Götuhúsum. Ólafur Teitsson> hafnsögumaður.
.lón Sigurðsson frá Túni, hafnsögumaður. Steinn Guðmundsson, skipasmiður. Guðmundur Guðmundsson í Sandgerði.
Halldór Gíslason trésmiður í Garðhúsum, og margir fleiri. Er þeirra flestra minnst annars staðar að nokkru.
Brennivínsmaðurinn
Í þessa vandasömu og veglegu stöðu völdust jafnan góðir menn og reglusamir. Staða þeirra var erfið og ónæðissöm mjög, því að þeir máttu aldrei „líta upp“ frá því, sem þeir voru að gera. Starf þeirra var argsamt mjög og eirulaust, en einstætt þó að því leyti, að sá, sem hafði það á hendi, þurfti ekki að hafa mikla ferlivist. Hann var ef til vill haltur eða hagaður mjög á fótum og gat að meinalausu setið eða staðið í sömu sporum allan liðlangan daginn. Naumast mun þó nokkur annar starfsmaður við verzlunina hafa haft vanþakklátara starf á hendi en hann, því að vara sú, vínið, sem hann átti að sjá um, að fengi eðlilega útrás, þoldi enga bið. Ávallt var verið að hrópa til hans og kalla á þessa leið: ,,Tvo potta brennivín!“ – ,,Þrjá pela brennivín!“ – ,,Hálfpela brennivín!“ ,,Staup!“ – ,,Staup!“ – ,,Staup!“ Varð hann þá að endurtaka orð þessi svo hátt, að sá, er fyrirskipunina gerði, heyrði það, og endurómuðu þeir hin sömu orð eða einhver þeirra og í sömu andránni frá einum eða öðrum, oft mörgum í einu: „Staup“ „Staup“ ,,Þrjá pela!“ o. s. frv. – Eftirspilið við „sírenusöng“ þennan var svo það, að brennivínsmaðurinn varð að kalla og það jafnvel enn hærra til mannsins, sem vöruna átti að fá: Tvo potta! – Þrjá pela! – Ílát! o. s. frv. Með öðrum orðum má segja – og það alveg ýkjulaust, að hvenær sem maður rak höfuðið inn úr búðardyrunum, heyrði hann þetta heróp milli bókararma og brennivínsmannsins: ,,Þrjá pela!“ „Staup!“ o. s. frv., sem bergmálaði svo á líka lund: ,,Þrjá pela!“ ,,Ílát!“ o. s. frv. Og er naumast hægt að segja, að það hafi látið vel í eyrum. Vildi starfsmanni þessum fatast mjög í röðinni, ef þeir, sem við áttu að taka, voru ekki viðlátnir með ílát sín eða til þess að hella í sig úr staupinu. Olli það oft hinu mesta masi og argafasi.
Af þessum orsökum mun sú sögn hafa myndazt um einn þessara brennivínsmanna, að þegar bókari nokkur kallaði til hans einhverja af áðurnefndum fyrirskipunum, t. d. „Átta pela brennivín!“ eða því um líkt, en sá, sem við átti að taka – það var prestur – var ekki viðlátinn -, átti brennivínsmaðurinn að hafa kallað á móti: ,,Átta potta brennivín! Já, ég heyri! En þú þarna, séra djöfull! Ílát undir andskotann!“
Sagan er alls ekki ótrúleg, því að maður þessi var kunnur að því, ,,að geta tekið upp í sig“.
Þeir, sem lengst gegndu starfi þessu, voru þeir Ásgrímur gamli Eyjólfsson og Þórður hinn halti frá Bræðratungu, en hvorugur þeirra kom við áðurnefnda sögu, og hvorugur þeirra bragðaði vin. – Auk þeirra þurftu einnig aðrir að komast að víntunnunum með flösku og flösku við og við, og vildi þá stundum slást í pataldur vegna þrotalausra þrengsla og öngþveitis.
Kornmaðurinn
Kornvaran var geymd í stórum kornbyrðum á lofti vestasta vöruhússins. Frá byrðum þessum lágu trérennur niður í aðrar smærri byrður á neðsta gólfi og var nafn vörunnar, rúgur, grjón, bankabygg o. s. frv., skráð á hverja byrðu og rennu, en neðan undir þeim voru vogir og lóð eða þá mæliker af mismunandi stærðum fyrir tunnur, skeppur og potta. (Ein tunna af korni var 8 skeppur eða 144 pottar, en 176 pottar af salti og kolum og 136 pottar af öli, mjöli, kjöti, fiski og smjöri; lagartunnan var 2 hálftunnur, 4 kvartil, 15 kútar eða 120 pottar). Við kornmælinguna svo og saltmælinguna voru þeir lengst Hannes gamli Sigurðsson á Litlu-Háeyri og síðar Ásgrímur gamli Eyjólfsson, er sat þar og smíðaði orf og hrífur handa sveitabændunum. Lét hann sér aldrei verk úr hendi falla. Eftir Ásgrím kom svo Ólafur Gíslason í Götuhúsum.
Við búðarborðið
Þar stóð jafnan maður nokkur, sem dyranna gætti. Til þess var jafnan valinn þrekvaxinn maður, ei- hafði krafta í kögglum, en á því þurfti oft að halda, þegar svo bar undir að vippa þurfti þeim .til hliðar eða út fyrir borðið, sem á leituðu án þess, að þeir ætti nein forréttindi á því, ,,að komast inn fyrir búðarborðið“. Réttindi þessi, að vera „boðið inn fyrir disk“, hlutu menn að jafnaði með því einu að leggja inn vöru sína í þeirri röð, sem þeir höfðu komizt að vigtinni úti í vörugeymsluhúsinu. Voru nöfn þeirra kölluð upp í búðinni eftir þeirri röð og dyraverðinum boðið að opna dyr fyrir þeim. Stundum brá þó út af þessari venju, einkum ef viðskiptamaðurinn átti miklum vinsældum að fagna meðal bókaranna eða ef um athafnamikla efnamenn var að ræða, sem þurftu að flýta sér og gátu ekki að því sinni beðið eftir afgreiðslu. Sama máli var að gegna um ríka ullarbændur úr nærsveitunum og útvegsbændur, er að mestu leyti höfðu aðeins komið til þess að skila af sér vöru sinni, en gerðu svo ráð fyrir að koma síðar til aðalviðskiptanna. Annars þótti það eigi neinn smávegis vegsauki að vera „boðið inn fyrir diskinn“, og mátti þá stundum sjá einkennilegu brosi bregða fyrir og all-spaugilegum ánægjusvip í andliti sumra þeirra, um leið og þeim var þannig skotrað inn fyrir borðið. Hinir, sem fyrir utan stóðu og eigi urðu þessarar „náðar“ aðnjótandi, litu þá einnig öfundaraugum til þvílíkra burgeisa, enda vissu þeir eigi ávallt, hvernig á stóð fyrir þeim eða hver orsökin var til þessa misréttis, er þeir töldu sig beitta með þessu. Hins vegar var ekki laust við, að í svipi þeirra, sem þannig voru látnir ganga fyrir öðrum, lýsti sér drýgindalegur hrokablær og ánægjubros til hinna, sem utanborðs voru, yfir því að vera boðið inn fyrir búðarborðið.
Út af þessu bar það stundum við – eins og við brennivínskranana – að í pataldur slægi milli dyravarðar og drukkinna manna, sem fara vildu í kjölfar þeirra, er inn var boðið, og ruddust inn, hvað sem hver sagði. Þannig bar það til eitt sinn, að maður nokkur austan Þjórsár beið ekki boðanna, heldur réðist á dyravörðinn og hvað sem fyrir var, óð rakleiðis að opinni skúffu, fullri af púðursykri, þreif þar fulla sleif af sykrinum og setti á munn sér. Utan víns var maður þessi meinhægðarmaður hinn mesti, og því var lítið um þetta fengizt að öðru leyti en því, að dyravörðurinn læddi honum út fyrir borðið aftur og að hann fékk enga afgreiðslu, fyrr en að honum kom. Þótti honum þetta engu minni mótgerð en hitt að vera látinn bíða eins og aðrir fyrir utan búðarborðið. Maður þessi var jötunvaxinn mjög og jötunefldur, en svo vinsæll, að þótt einhver hefði þótzt geta haft í fullu tré við hann eða viljað reka hann út, hefði það verið bannað, enda var hann um eitt skeið einn hinn fræknasti ferjumaðurinn við Þjórsá, alkunnur öðlingsmaður, sem margir áttu gott upp að unna. En að hann gerði sig heimakominn við sykurskúffuna, mun hann hafa gert til þess að storka þeim og ögra, er á horfðu, en ekki af neinni illúð eða óráðvendni.
Laxakarlinn
Sem vænta má í svo mannmörgum sveitum sem Eyrarbakka, Stokkseyri og sveitum þeim, er að þeim liggja, voru þarna ýmsir menn, karlar og konur, sem voru á vegum verzlunarinnar og virtust vera á ýmsa lund einkennilegar persónur og öðruvísi en fólk er flest. Orsökin til þessa mun m. a. hafa verið sú, að þeir höfðu verið og voru vínneytendur að verulega leyti, öðrum var þetta áskapað, og áttu þeir því enga sök á því; það var ef til vill ættgengt.
Einn þeirra var Sigurður, sem nefndur var Sigurður fjórði eða oftast Siggi fjórði. Nafn þetta fékk hann sökum þess, að kona ein á Bakkanum hafði haft þrjá vinnumenn á undan honum, er allir hétu Sigurður, og var Siggi hinn fjórði í röðinni. Hann var skjálgur nokkuð og stamaði mjög, ef honum var mikið í huga eða hann var kenndur, en það þótti engum tíðindum sæta, því að hann var ávallt sætkenndur eða vel það á hverjum degi, eins og margir aðrir Bakkamenn voru á þeim tímum, þótt eigi gæti þeir drykkjumenn kallazt og enginn þeirra svo, að hann gæti ekki stundað daglega vinnu sína. Siggi fjórði var talinn gott hjú og trúr maður í stöðu sinni. Hann var jafnan aðstoðarmaður beykisins, tók á móti laxinum, saltaði hann og pæklaði til útflutnings. Þetta var hið eiginlega lífsstarf hans, og elskaði hann það og virti sem sitt eigið líf En hann fékk líka árlega viðurkenningu fyrir þetta starf sitt og umbun fyrir það. Hún var undantekningarlaust innifalin í því, að hann fékk ávallt fjögra potta tunnuna sína grænu með svörtu gjörðunum fúlla af brennivíni daginn þann, sem skipið, er laxinn flutti, komst heilu og höldnu út úr sundinu, Bússu. Siggi fjórði vaknaði eldsnemma daginn, sem skipið átti að fara. Laxinn var kominn út í skipið og lestum lokað, og það var útlit fyrir, að skipið kæmist út En stundum gat þetta dregizt allt að viku tíma. Ávallt varð Siggi að vakna jafnsnemma, hafa græna kútinn undir hendi sér og standa frammi í sjógarðshliði og bíða þess, að háflæðið næsta yrði honum – og laxinum – svo hagstætt, að sjóinn lægði svo, að skipið kæmist út. En Ægir gamli sat við sinn keip, brimrótið hélzt æ hið sama. Hafnsögumaðurinn gat engar vonir gefið Sigga fjórða um neinar líkur og því síður vissu um það, hvenær hin þráða stund hans rynni upp. En sjálfur var hann sífellt á höttunum, bað fyrir öllum, sjálfum sér, skipinu – og laxinum og jafnvel fyrir Lefolii gamla líka, að hann fengi sem fyrst laxinn sinn, en ekkert lægði. Loks kom að því, að skipið leysti festar, hafnsögumaður og hásetar· hans voru komnir um borð, og nú lagði skipið í sundið, þótt sjórinn væri eigi álitlegur. Siggi fjórði stóð með öndina í hálsinum niðri í sjógarðshliði, blýskorðaður við vegginn og blindskakkaði augunum ýmist út til skipsins eða þeirra, sem fram hjá gengu, mælti eigi orð frá munni, þótt á hann væri yrt, unz skipið skrapp út af yzta boðanum. Þá sagði hann við sjálfan sig, en þó svo hátt, að aðrir heyrðu:
,,Gvu’ – gussé lof! Þa’ – þar slapp ‘ann!“
Hljóp hann síðan inn í búð, sem fætur toguðu og fékk verðlaunin: fullan fjögra potta kútinn sinn græna með góðu brennivíni.
Sigga fjórða var hætt við að fá krampa, væri hann vel kenndur. Stóð hann þá allt í einu við á götunni, rétti annan fótinn svo langt sem unnt var aftur undan sér og umlaði þá nokkuð, en aldrei datt hann niður.
Glervörurnar og gömlu konurnar
Á hverju vori, þegar hver skipaferðin rak aðra, voru ávallt margar og stórar körfur með tveim fyrstu skipunum. Voru þær fullar af glervörum, diskum, skálum, spilkönnum, könnum, krúsum og bollapörum o. fl. En aldrei mátti opna körfur þessar eða draga úr þeim einn nagla til þess að opna þær, þótt vörur þessar vantaði eða væri í þurrðum, fyrr en tvær gamlar konur, báðar á áttræðisaldri, voru til þess kvaddar og þær tilbúnar að mæta þar í eigin persónu, sem fjöldi verzlunar- og erfiðismanna væri saman kominn til þess að taka upp vörur ýmiss konar úr körfum og kössum, því að nú ætti „að opna körfurnar með glertauinu“, og var konum þessum nú sem jafnan áður boðið til þess, að vera viðstaddar þá hátíðlegu athöfn.
Konur þessar voru þær Stína í Koti (Kristín Jónsdóttir, Gottsveinssonar) og Þórey gamla Guðmundsdóttir frá Eyvakoti. En því voru þær æfinlega til kvaddar, að þær höfðu þau forréttindi fram yfir alla aðra, að mega velja sér svo margt og mikið af því sem glervörukörfurnar höfðu að geyma, sem þær með nokkru móti gátu komizt yfir og keypt. Forréttinda þessara höfðu þær notið um margra ára skeið, enda var þetta ein hin bezta auglýsing verzlunarinnar, sem hugsazt gat, því að kerlingar þessar riðu nú um allar sveitir og gáfu vinkonum sínum þessi dýrmætu djásn, ásamt orlofskökunum, silkihandlínunum, svuntu og peysufataefnunum eða einhverri annarri forláta flíkinni, sem sveitakonunum kom svo vel að fá. Var þá oft svo miklu úr að velja, að kerlingarnar komust í stökustu vandræði vegna þess, að þær áttu ekki ávallt nóga peninga til að kaupa fyrir allt það, er þær girntust, og urðu því með tárvotum augum að horfa á eftir margri fáséðri forláta könnunni fara inn í búð og seljast þar. En gömlu konurnar voru vinsælar, og var því oft hlaupið undir bagga með þeim á þá leið, að tekið var frá hið helzta, sem þær langaði til að eignast, en gátu ekki borgað og það geymt handa þeim, þar til þær komu úr orlofsferðum sínum. Voru það einkum purpuralitu mjólkurkönnurnar litlu og logagylltu, með bláu röndina á miðjunni.
Kaupgjald og launagreiðslur
Kaup fastra verzlunarþjóna, þeirra er heima áttu í „Húsinu“, var 100 krónur fyrsta árið, 200 krónur næstu 3 árin og 400 krónur á ári, ef lengur voru. Auk þessa voru þeim ætlaðar 450 krónur á ári fyrir fæði, húsnæði og þjónustu.
Laun verzlunarstjóranna vissu menn eigi um með vissu, að öðru leyti en því, að árið 1875 voru þau 3000 krónur og 1892 4000 krónur. Sennilega munu þeir einnig hafa fengið einhvern ágóðahluta (Tantiéme) af viðskiptaveltu verzlunarinnar.
Dagkaup karlmanna við erfiðisvinnu var kr. 1,35 á vori og hausti, en2 krónur frá Jónsmessu til ágústmánaðarloka. Kvenfólk og vikadrengir fengu 1 kr. dagkaup um vortímann, en kr. 1,35 um sláttinn.
Þeir, sem unnu við skriftir í skrifstofu og ekki voru ráðnir til lengri tíma en nokkurra mánaða í senn, t. d. á haustog vetrarmánuðum, fengu 20 aura um klukkutímann eða 2 krónur á dag.
Öll þau ár, sem ég var barnakennari á Eyrarbakka (13ár), vann ég við skriftir kvölds og morgna í skrifstofu verzlunarinnar fyrir þetta tímakaup og á vorin og að sumrinu til 2 krónur á dag.
Þótt kaupið væri eigi hærra en þetta, dró það sig saman, svo að ég hafði um 150 krónur afgangs yfir allan veturinn frá 1. október til 1. marz, eða þar til vetrarvertíðin byrjaði, en þá fór ég austur að Stokkseyri til róðra um vertíðina, til saltmælinga og búðarstarfa fyrir verzlunina, sem ég gat því aðeins stundað, að ég reri hjá formönnum þeim, sem fljótir voru á sjónum, og tókst mér það ávallt, án þess það kæmi nokkru sinni að sök. Fyrir saltmælinguna fékk ég 10 aura á hverja tunnu eða 80-100 krónur yfir vertíðina, og fyrir að gegna verzlunarstörfunum við og við, en þó daglega, fékk ég 50 krónur alla vertíðina. Kennslukaup mitt var 150 krónur fyrir alla vetrarmánuðina fimm eða 1 króna á dag.
Daglaunamenn þeir eða erfiðismenn, sem unnu úti við að upp- og útskipun o. s. frv., þegar atvinnan var mest um sumartímann, fengu, auk dagkaupsins, eina skonroks-köku og kvartpela af brennivíni fyrir hvern vikudag. Var þessu úthlutað (6 skonrokskökum og hálfum öðrum pela af brennivíni) að lokinni vinnu laugardagskveld hvert. Í stað brennivínsins var kvenfólki og unglingum í té látinn kvartpeli af messuvíni, og var þetta nefnt „góðgerðir“, en voru í raun og veru aðeins nokkurs konar launauppbót. Þessu var síðar breytt þannig, að í stað góðgerðanna komu 12 aurar fyrir hvern virkan dag vikunnar, sem greiddir voru í peningum á hverju laugardagskveldi. Venjulega var kaupgjald allt og vinnulaun greitt í vörum, en þeir, sem inni áttu, gátu þó ávallt fengið þriðjung inneignar sinnar greiddan í peningum. Eins þótti sjálfsagt, að allir, jafnvel þótt skuldugir væri, fengi peninga út í reikning sinn til nauðsynlegustu þarfa, t. d. opinberra gjalda, þinggjalds, prests- og kirkju og annarra slíkra álaga. Síðar voru gjöld þessi og fleiri slík skrifuð í millireikninga og talin sem peningagreiðsla. Var þetta gjört til hægðarauka fyrir alla þá, er hlut áttu að máli, kröfuhafa og gjaldendur.
Um eitt skeið gaf verzlunin út gjaldmiðil þann, er „vöruseðlar“ nefndust. Þetta voru 1 kr., 2 kr. og 5 kr. pappírsseðlar, nokkurs konar ávísanir á vöru-úttekt. Seðlar þessir voru mjög illa þokkaðir og sízt betur en Landsbankakrónuseðlarnir, sem notaðir voru hér um eitt skeið og jafnvel enn í dag.
Eins og áður segir, voru erfiðismennirnir oftast yfir 100 að tölu. Var aðeins einn maður í öllum þeim hópi, sem ég vissi til, að héldi „góðgerðum“ sínum saman yfir allt sumarið. Lét hann reikna sér það til peningaverðs á haustin og tók þá út, fór síðan með það til Reykjavíkur og lagði það inn í Sparisjóðsdeild Landsbankans. Þegar maður þessi féll frá, rúmlega fertugur að aldri, kom það í ljós, að skonrokskökurnar allar og brennivíns-kvartpelarnir, ásamt aurum þeim, er hann hafði sparað sér saman að öðru leyti, voru orðnar að tugum þúsunda króna, og var hann þó enginn nirfill né nízkuhegri; hann mátti miklu fremur nefna meðal hinna beztu veifiskata austur þar .
Viðskipti vermanna
Lengi hafði sá siður tíðkazt, að bændur sendu vinnumenn sína til sjóróðra út á Bakka eða út í Höfn, þ. e. Þorlákshöfn. Útgerðarmenn lögðu vermönnum þessum til ókeypis húsnæði, skiplagið og ýmiss konar hlunnindi önnur. En þyrfti þeir að sækja eitthvað til verzlunarinnar fram yfir það, sem þeir höfðu með sér að heiman ( vermötuná), létu húsbændur þeim í té ávísun á ýmsa úttekt hjá kaupmanninum, og voru ávísanir þessar almennt, og einnig meðal Íslendinga nefndar , „ bevís“. Þar var tiltekið, hvað vermaðurinn mátti taka út í reikning húsbónda síns, þar á meðal hið áðurnefnda „sitt pundið af hverju“. Sykurbirgðirnar voru því sjaldnast meiri en svo, að þær entust jafnvel ekki fram að sumarmálum. Til þess að vermaðurinn þyrfti ekki að drekka kaffið sykurlaust, var honum nauðugur einn kostur að kaupa sykurinn fyrir peninga. Aðstöðu þessa notuðu ýmsir smákaupmenn sér og aðrir þeir, er áttu innieignir, á þá lund, að þeir keyptu smám saman upp allar sykurbirgðir verzlunarinnar. Til þess nú að afla sér peninga seldu vermennirnir smjör, kjöt, fisk og brauð af mötu sinni og keyptu sykur og fleiri vörur, hvar sem fáanlegar voru. Vitanlega var þetta í raun og veru á kostnað húsbóndans, sem nú varð að greiða fyrir fleiri brauð eða aðrar vörur meira en ella. Þeir, sem sykurbirgðirnar áttu eða aðrar vörur, sem þrotnar voru við verzlunina, seldu þeir nú okurverði þannig, að 1 pund af sykri var lagt að jöfnu við hálft rúgbrauð (3 pund) eða 1 pund af smjöri jafngilti ríggildum þroski o. s. frv.
Þannig urðu t. d. rúgbrauðin, sem vinnumaðurinn tók út, helmingi fleiri en þau, sem hann át sjálfur.
Undan okurverzlun þessari og óreiðu kvörtuðu bændur oft og margsinnis.
Til þess að koma í veg fyrir þvílíka okurverzlun sem þessa var eftirfarandi skilyrði prentað á hvern einasta viðskiptareikning verzlunarinnar: ,,Það, sem inni stendur á þessum reikningi, verður aðeins útborgað í vörum og eftir hentugleikum verzlunarinnar“.
Þannig var hægt að koma í veg fyrir, að vinnumenn (vermenn) tæki óhæfilega mikið út úr viðskiptareikningi húsbænda sinna.
Hér hefur þótt hlýða að draga hið sanna í máli þessu fram í dagsljósið vegna þess, að fátt mun hafa verið jafnilla þokkað, afvegafært og misskilið sem yfirlýsing þessi, en hún varð samt til þess að okurverzlunin lagðist algerlega niður upp frá þessu.
Þekktur sagnfræðingur þeirra tíma, Bogi Th. Melsted, gerði málefni þetta að umræðuefni á mjög óviðeigandi hátt í ritlingi, sem hann ritaði um Eyrarbakkaverzlun á síðasta tugi fyrri aldar.1Þykir honum þetta lýsa gikkshætti miklum og fyrirlitningu á viðskiptamönnum verzlunarinnar. En að þetta sé á misskilningi byggt og jafnvel öðru verra, hljóta allir að sjá af ofanrituðu. Eftir því, sem á stóð, var yfirlýsing þessi miklu frekar í þágu viðskiptamanna en verzlunarinnar: Að verzlunarstjórinn setti skilyrði þetta og birti það í reikningunum.
Sama misskilningsins gætir í ritsmíð Odds Oddssonar um Eyrarbakkaverzlun. Hann birtir skilyrðið án nokkurra athugasemda eða skýringa, og hefði honum þó mátt vera fullkunnugt .um tilgang þess.
Samkeppni
Verzlunina á Eyrarbakka átti I. R. B. Lefolii stórkaupmaður. Keppinautar hans voru athafnalitlir, og engar útistöður áttu þeir við hann. Þorleifur gamli Kolbeinsson fékk vörur sínar frá honum og seldi þær aftur í smáum stíl og með „hæfilegum kaupmannshagnaði“, eins og annar maður sagði um sína eigin verzlun. Þorleifur var svo vandaður maður og friðsamur, að hann vildi ekki eiga í erjum við aðra, sá, að hann gat hagnazt án þess.
Einar borgari Jónsson var einnig hinn mætasti maður og fékk oft vörur hjá Lefolii, en hin síðari ár skipti hann við B. Muus, stórkaupmann, og varð styrr nokkur á milli þeirra út af umferð skipa Einars um Skúmsstaðaós. Þótt Einar borgari hefði allmikil og víðtæk viðskipti hin síðari ár, stóð Lefoliis-verzlun eigi mikill stuggur af þeim.
Þegar I. P. T. Bryde setti verzlun á stofn í Vík í Mýrdal um 1890, fór að brydda á samkeppni nokkurri: Austansveitamönnum var hagfelldara að verzla þar en á Eyrarbakka og lögðu því miður ferðir sínar þangað, en þó ekki nærri strax eða að öllu leyti. Mátti þar þó segja, að um nokkra samkeppni væri að ræða, einkum með ullina, enda steig hún stundum í verði um 5 aura pundið á hverjum degi, unz sá, er hærra bauð, hlaut hnossið, og var það oftar Lefolii, sem hlutskarpari varð.
En svo kom fjórði keppinauturinn til, þ. e. hinn þriðji á sjálfum Bakkanum. Um þá verzlun vil ég eigi annað segja en það, að hún varð gjaldþrota eftir fáein ár (1893) og að undan hennar rifjum var rit Boga Th. Melsted runnið í raun og veru, sem áður er getið.
Það er fyrst eftir að Ölfusárbrúin var byggð, að verzlunarstraumurinn fór að beygjast í aðrar áttir, en einkum þó eftir að verzlun reis upp við brúna, sem þó eigi varð fyrri að neinu ráði en Lefoliis-verzlun var lögð niður fyrir nokkru. Þá var það Kaupfélagið Hekla og fleiri verzlanir, einkum á Stokkseyri, sem urðu að lækka seglin eða fella þau með öllu, því að nú beindust viðskiptin í margar áttir: til Víkur, að Selfossi og til Reykjavíkur.
Nú má segja um verzlunina á Eyrarbakka og hin myndarlegu stórhýsi hennar, að „nú er hún Snorrabúð stekkur“. Þau eru að vísu til enn, húsin, en aðeins sem „stekkur“ frá Selfossi, og þykir nú mörgum, er þar voru áður og þekktu til, Eyrarbakki hafa sett ofan, og eru þar þó enn margir dugandi menn af ættstofni fyrri kynslóða.