08-Útsýnið

Sé maður staddur á sjávarbakkanum á Stokkseyri í björtu og heiðskíru veðri og virði fyrir sér útsýnið, er fjallahringurinn þessi frá vestri til austurs: Selvogsheiði með Kvennagönguhólum syðst í Hlíðartánni, þá er þar Heiðin-há nokkru hærra og Bláfjöllin þar norður af, en norðan undan þeim sést á kollinn á Vífilsfelli. Eru hæðir þessar og fjöll yzt við sjóndeildarhringinn, en á framsviði Meitlarnir tveir, syðri og nyrðri, og Geitafell vestast, en Skálafell austast. Þá er Hengillinn í baksýn litlu austar og Kambar á framsviði. Er þá komið að norðri. Austan Hveragerðislægðarinnar eru Reykjahnúkar, Grafningsháls og Ingólfsfjall. Vestan undan því og yfir Grafningshálsi sést á efstu tinda Botnssúlna, en þó eigi vestar en frá Stokkseyrarbæ og austur fyrir Rauðhóla. Síðan er Búrfell í Grímsnesi, Lyngdalsheiði á framsviði, en Hrafnabjörg og Kálfstindar í baksýn austur að Laugarvatnsfjalli og Laugardalshólahnúki, Seyðishólar á framsviði vestast, en Högnahöfði, Hlöðufell og Skjaldbreið í baksýn. Þar austur af sjást Jarlhettur fjærst, en Bjarnarfell, sem Geysir er neðan til við, á framsviði, en Langjökull og Kerlingarfjöll í baksýn. Eru fjöll þessi sennilega í 80-100 kílómetra fjarlægð frá Stokkseyri, en Bláfell nokkru nær. Eru þau í óttustað, og sést greinilega til þeirra í góðu skyggni.

Þá koma Hreppafjöllin, Kóngsás o. fl., svo og Hagafjall og Búrfell á Hreppamannaafrétti, og eru Hestfjall í Grímsnesi og Vörðufell á Skeiðum þar á framsviði.

Er nú komið að Heklu, og er hún í háaustur, en Vatnafjöll í baksýn, með Bjólfelli og Selsundsfjalli á framsviði vestan undir Heklu. Síðan koma Tindafjöll og Þríhyrningur þar á framsviði, en Tindfjallajökull, Goðaland og Þórsmörk nokkru· lægri milli Tindfjallajökuls og Eyjafjallajökuls. Að baki honum liggja Mýrdalsjökull og Torfajökull, en ekkert sér þó til þeirrar fríðu fylkingar hálendis og jökla né heldur Kötlu og Vatnajökuls, sem austar og norðar liggja. Háfjöllin þrjú, Hekla nyrzt, Tindfjallajökull í miðið og Eyjafjallajökull með Goðalandi og Þórsmörk í skjóli sínu eru þarna hvert í sínu hásæti sem nokkurs konar voldugir lénsherrar alls hins mikla herskara hálendis og jökla, er austur af þeim liggja upp af Austurlandi öllu, og eru enn hærri og valdameiri. Þau þrjú taka við öllum skellunum austan að og dreifa úrkomunni frá þeim í allar áttir um næstu byggðir, Rangárvallasýslu alla og Árnessýslu og jafnframt Reykjanesfjallgarðinn og Faxaflóa, allt vestur að Snæfellsjökli, en þar tekur Norðri við yfirráðunum.

Af þessu öllu sést, hversu útsýnið er víðfeðmt og hver áhrif austurfjöllin öll hljóta að hafa á veðráttufarið um meginhluta Suðurlands. Þaðan eru áhrifin komin og munu koma, er fjallsperringurinn og hornriðinn valda, eins og um er getið í grein minni í tímaritinu Vöku, I. árg., bls. 227-236.

Eins og áður er getið, má af víðsýninu sjá, hvernig veðráttan er á háfjallahnúkum þessum og í námunda við þá, löngu áður en hún gjörir vart við sig hið neðra. Frá þessu er þó hornriðinn oft og einatt undantekning, því að hann lætur alla jafnan ekki á sér bera, fyrr en hann er skollinn yfir, áður en nokkurn varir, jafnvel þótt um vor- eða sumarhornriða sé að ræða, enda hefur hann oft komið að miklum baga við þurrkun heys og fisks.

Hvernig er nú unnt að sjá, hvort veðrabrigði eru í nánd, þótt litið sé til fjallahrings þessa, er ég hef lýst, í góðu og heiðskíru veðri, sem sýnast mætti, að haldizt gæti frá morgni til kvölds eða lengur? Í þröngum dölum og djúpum hlýtur þessu að vera á annan veg farið, og vil ég nú benda á nokkur dæmi, sem sýnt hafa og sannað, að í þessu er mikill vísdómur fólginn, og getur hann oft að gagni komið hverjum þeim, er veita vill honum athygli og eftirtekt.

Leave a Reply