103-Verzlun Jósteins Kristjánssonar

Jósteinn Kristjánsson byrjaði að vinna að verzlunarstörfum hjá Ólafi Jóhannessyni og var verzlunarstjóri fyrir hann árið 1932-33, eins og áður er sagt. Jósteinn hafði fengið illt í höndina og gat ekki unnið erfiðisvinnu, og studdi Ólafur hann því til að kaupa verzlunina. Rak Jósteinn hana á Brávöllum í nokkur ár, en byggði svo búð í Hausthúsum, líklega 1939, og flutti verzlun sína þangað og hélt henni áfram, unz hann fluttist til Reykjavíkur 1956.

Hann var fæddur á Bollastöðum í Hraungerðishreppi 7. júní 1887, sonur Kristjáns pósts og bónda þar Þorvaldssonar og konu hans, Guðrúnar Gísladóttur. Jósteinn lærði orgelspil hjá Ísólfi Pálssyni og var organisti í Hraungerðiskirkju um skeið. Hann var bóndi á Bollastöðum 1917-21, en fluttist þá til Stokkseyrar og stundaði sjómennsku þar, áður en hann gaf sig að verzlunarstörfum. Hann hafði í allmörg ár umsjón með Ekknasjóði Stokkseyrar. Jósteinn er kvæntur Ingibjörgu eldri Einarsdóttur í Borgarholti Gíslasonar. Þau eiga sjö börn.

Leave a Reply