099-Verzlun Andrésar Jónssonar

Andrés Jónsson frá Vestri-Móhúsum byrjaði að verzla á Eyrarbakka sumarið 1913, en hann hafði áður verið starfsmaður við kaupfélagið Ingólf á Háeyri. Andrés sigldi um nokkurt skeið háan byr í verzlun sinni og hafði mikið umleikis, og árið 1919 stofnaði hann útbú á Stokkseyri. Keypti hann gamla Góðtemplarahúsið af verkalýðsfélaginu og breytti því í verzlunarhús. Verzlunarstjóri hjá honum var Jón Adólfsson hreppsnefndaroddviti á Kalastöðum, síðar í Vestri-Móhúsum. Þreifst útbúið vel undir stjórn Jóns, enda var þá enn talsverð verzlun við sveitamenn. En þar kom, að Andrés neyddist til að rifa seglin sem aðrir kaupmenn þar um slóðir, og árið 1923 seldi hann Jóni verzlunina ásamt húsinu. Andrés varð nokkru síðar féþrota og varð að hætta verzlun sinni á Eyrarbakka. Eftir það fluttist hann til Reykjavíkur og lézt þar 31. marz 1929.

Leave a Reply