Um verkefnið
Undanfarin ár hef ég safnað að mér miklum heimildum um fólk og viðburði í sögu Stokkseyrar, og Eyrarbakka. Ég hef orðið var við mikinn áhuga á ýmsum fróðleik frá þessum þorpum undanfarin ár og hafa birtingar ljósmynda og texta á félagsmiðlum undirstrikað það. Um slíkar birtingar er það að segja að þær lifa stutt – hverfa jafnvel í miklu magni upplýsinga og því takmörkuð not af þeim, nema þá stund sem þær lifa. Því tók ég þá ákvörðun að búa til þessa síðu til að birta það efni sem ég hef sankað að mér með opnum aðgengi til allra. Hafi menn sögulegar upplýsingar sem birta mætti hér, vinsamlegast hafið samband við mig á netfang þessarar síðu.
Sonur Guðna Jónssonar, höfunda bókanna Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, Stokkseyringasaga I og II og Saga Hraunshverfis, Bjarni Guðnason fyrrum prófessor og alþingismaður, gaf mér góðfúslegt leyfi að birta bækurnar í heild sinni á þessari síðu. Samtímis afhenti hann mér handrit bókanna sem ég afhenti Handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns til varðveislu.
Forstöðumenn Héraðsskjalasafns Árnesinga, Byggðasafns Árnesinga, Ljósmyndasafns Vestmannaeyja og Byggðasafnsins á Skógum auk einkaaðila hafa veitt mér afrit af ljósmyndum af einstaklingum og umhverfi til birtingar á þessum vef.
Auk þessara heimilda verða birt uppskriftir úr handritum Jóns Pálssonar bankagjaldkera frá Stokkseyri auk bókanna Austantórur. Þá verða birt ýmis gögn er varða sögu svæðisins sem varveitt eru í opinberum söfnum og úr einkaeigu.
Þá hef ég tekið nokkur videoviðtöl við eldri einstaklinga sem eiga rætur á svæðinu. Vona ég að þetta verði með til að yngra fólk geri sér betur grein fyrir sögu svæðisins og geti lært af þessum upplýsingum.
Sérstakar þakkir fær Hörður Jóhannsson sem hefur af alúð hjálpað mér að byggja upp þessa síðu.
Verkefnið hefur verið styrkt af uppbyggingarsjóði SASS á Suðurlandi.