You are currently viewing Traðarholt

Traðarholt

Traðarholt er með elztu jörðum í Stokkseyrarhreppi, byggt af Atla Hásteinssyni landnámsmanns skömmu eftir aldamótin 900, að því er ætla má. ,,Atli átti allt milli Grímsár ok Rauðár. Hann bjó í Traðarholti,“ segir í Landnámabók (Íslendinga sögur I, 220). Þar bjuggu síðan niðjar Atla alla 10. öldina og sjálfsagt lengur, en heimildir skortir um það. Seint á 13. öld kemur Traðarholt aftur við sögur um stundar sakir, en eftir það er allt ókunnugt um ábúendur þar fyrr en um miðja 17. öld.

Ekki er nú kunnugt, hversu lengi Traðarholt hélzt í eigu afkomenda Atla Hásteinssonar eða um neinn eiganda þess síðan fyrr en Þorvarð lögmann Erlendsson, er var lögmaður sunnan og austan á árunum 1499-1512 (Safn Il, 96-100). Hinn 3. nóv. 1502 seldi Þorvarður jörðina Traðarholt, 30 hndr. að dýrleika, ásamt 20 hndr. í hálfu Langholti í Flóa Stefáni biskupi Jónssyni fyrir Árbæ, Fossnes og Þórisstaði í Ölfusi ásamt 10 hndr. í gildum peningum, er þeim semdi um ( Ísl. fornbrs. VIi, 622-623). Á 17. öld eða fyrr komst Traðarholt í eigu Stokkseyrarættar. Markús Bjarnason átti það og bjó þar og síðar Guðríður, dóttir hans, og Hans Londemann, maður hennar. Hinn 18. ágúst 1696 seldu þau hjón Traðarholt ásamt fleiri eignum Guðmundi West og Þórdísi Markúsdóttur á Stokkseyri. Eftir daga Þórdísar (1728) gekk jörðin úr ættinni, því að árið 1773 er Einar Brynjólfsson lögsagnari talinn eigandi hennar (Þingbók Ám.). Næsti eigandi, sem oss er kunnugt um, var síra Sigurður Thorarensen í Hraungerði. Hinn 31. júlí 1838 seldi síra Sigurður hálft Traðarholtið Jóni hreppstjóra Þórðarsyni í Vestri-Móhúsum. Gekk sá helmingur eftir lát Jóns til Sigríðar yngstu og Adólfs Petersens á Stokkseyri, en Adólf seldi hann Þorleifi Kolbeinssyni á Háeyri, og keypti Þórður Pálsson í Brattsholti hann síðar af erfingjum Þorleifs. Af hinum helmingnum er það að segja, að Vigfús Thorarensen, sonur síra Sigurðar í Hraungerði seldi hann 31. marz 1845 Sveini bónda Sveinssyni á Kotleysu, og mun Þórður Pálsson í Brattsholti síðar hafa eignazt einnig þennan part að mestu eða öllu leyti. Svo er að sjá sem Þórður hafi selt mestalla jörðina síra Ólafi Helgasyni á Stóra-Hrauni, því að árið 1900 er síra Ólafur talinn eigandi að 5/6 hlutum úr Traðarholti (Þingb. Árn.). Árið 1905 seldu þeir Þórður Pálsson og Pétur Guðmundsson á Kotleysu hluta úr Traðarholtstorfunni, líklega 1/6 hennar, Jóni Pálssyni bankagjaldkera í Reykjavík. Part þennan seldi Jón og sumpart gaf ríkinu ásamt Syðra-Seli og Stokkseyrarseljunum báðum árið 1939 í þeim tilgangi, að ríkið verði þeirri eign á einhvern hátt til stofnunar drykkjumannahælis. Hallgrímur skipasmiður á Kalastöðum hefir líklega keypt hálfa jörðina af síra Ólafi, því að árið 1911 seldi Hallgrímur hana hálfa Þórði Bjarnasyni frá Götu, Pálssonar, en Þórður seldi aftur 1917 Jóni kaupmanni Magnússyni á Stokkseyri. Sama ár seldi Jón Daníel Daníelssyni ljósmyndara hálfan austurpartinn, en keypti hann af honum aftur árið eftir. En árið 1919 seldi Jón enn þennan sama part Ólafi Jónssyni í Traðarholti. Gunnar Sigurðsson í Götu eignaðist 3 hndr. 34 álnir í Traðarholti og seldi Ólafi kaupmanni Árnasyni á Stokkseyri árið 1913, og keypti Ólafur bóndi í Traðarholti part þennan 1923 af dánarbúi Ólafs Árnasonar. Fleiri gögn höfum vér eigi séð um kaup og sölur á Traðarholti, en Ólafur Jónsson bóndi þar festi smám saman kaup á öðrum pörtum jarðarinnar, unz hann hafði eignazt hana alla, að undanskildum þeim parti, sem ríkið á.

Hjáleigur frá Traðarholti voru þessar: Kotleysa, Ranakot (efra), Grjótlækur, Hraukhlaða, Gömlu/jós og ein þurrabúð, Árnatóft. Skógarítak átti Traðarholt fyrrum inni í Fossárdal, er Traðarholtsingur nefndist (J arðab. ÁM. Il, 52-53).

Landamerki

Landamerki Traðarholtstorfunnar eru þessi:

  • Úr Barnaneslækjarkjafti ræður bein stefna í vörðu í Vaðhólum og aftur frá henni í gráan stein fyrir ofan Grímsdæl og frá henni í flóðkíl fyrir austan Grjótlækjartún og svo þaðan í jarðfastan stein á sjóarbakka; síðan ræður sjónhending í Bollasker, sem er fram í brimgarði.
  • Úr Barnaneslækjarkjafti ræður fyrst Barnaneslækur, þá Hörpuhólslækur allt upp í Leiðólfsstaðavatn; síðan ræður lækurinn, sem Tóftahlöð eru á, beint vestur í „Brattsholtsvatn“, en frá Seigludragi liggja mörkin fram í Glámu; þaðan ræður Neslækur fram að Kirkjubrú, en frá henni sjónhending um Andatjarnir út í Stokkseyrarmörk, en þau eru frá Brandhól sjónhending um Kotleysu eða eldhúsið þar í markavörðuna, sem er á sjóarbakkanum austan Rauðarhóls, og liggja síðan austan á Langarifi beint fram í brimgarð. Innan þessara téðu landamerkja liggur talsvert af landi jarðarinnar Kotleysu, sem virðist hafa verið byggð bæði úr Stokkseyrar og Traðarholtslandi. Traðarholt á rétt til selstöðu á Stokkseyrarmýri gegn reiðingsristu í Blönduleir í Traðarholtsengjum. (Landamerkjab. Árn., þinglesið 15. júní 1886).

Landskostum í Traðarholti lýsir ÁM. á þessa leið (Jarðab. 1708, Il, 52- 53): ,,Fóðrast kunnu 8 kýr, 30 ær, 16 lömb, 4 hestar. – Torfrista og stunga og reiðingsrista næg. Elt var taði og þangi, meðan jörðin byggðist. Silungsveiðivon lítil, hefur brúkazt, en jafnan að litlu gagni. Eggversvon í hólma þeim, sem liggur í Traðarholtsvatni, og meina menn að góðu gagni bæði egg og dún. Þetta eggvarp fylgdi jörðinni inntil næstu 14 ára, síðan hefur landsdrottinn sjálfur nýtt sér þennan hólma að öllu. Rekavon í meðallagi við þessa sveit; hafði leiguliði það eina af rekanum, sem landsdrottinn leyfði eður hann eftir góðri sannsýni lagði til húsabótar. Sölvafjara næg til heimahús, og svo seldi ábúandi nokkuð lítið stundum sér til gagnsemda. Fjörugrös sem um Baugsstaði. Selstöðu á jörðin í Stokkseyrarlandi, þar sem heitir Breiðamýri, og brúkaðist árlega, meðan jörðin byggðist, en ekki vita nálægir að undirrétta, hvað hér í móti komi af Traðarholti til Stokkseyrar, Sölvatekju fyrir einn mann brúkaði jörðin á Stokkseyrarfjöru. Hér í mót hefur ábúanda á Stokkseyri verið tileinkuð reiðingsrista í Traðarholtslandi, hefur stundum brúkazt, stundum ei. Skógarhögg á jörðin á fjöllunum fyrir ofan Eystrihrepp á Flóamannaafrétt, þar sem Fossárdalur heitir og kallað er Traðarholtsingur, og er þetta skógarítak mjög svo eytt og ekki þar fyrir brúkað. Landþröng er mikil heima um sig, en þó ei hagi til keyptur. Hætt er kvikfé fyrir holgryfjulækjum.“

Fram til 1707 var jafnan einbýli í Traðarholti, að því er vitað sé. Lagðist jörðin þá í eyði fáein ár. En frá því byggðin var tekin upp aftur, hefir lengstum verið tvíbýli og stundum þríbýli á heimajörðinni. Verða ábúendurnir taldir í tvennu lagi frá því snemma á 18. öld.fd

Leave a Reply