Fyrsta ferðin var farin 25. júní 1944 undir stjórn Sturlaugs Jónssonar. Þátttaka að sunnan var mjög mikil, matazt var í Hótel Stokkseyri um hádegisbilið, síðan var haldið austur á Baugsstaðakamp og fór þar fram fjölmenn útisamkoma við vitann, með ræðum og söng, en um kvöldið var samkoma í „Gimli“, og fóru þar fram ýmis skemmtiatriði. Dásamlegt veður hjálpaði til að gera þessa ferð hátíðlega og eftirminnilega í hugum gesta jafnt sem heimamanna. Tekin var kvikmynd af ferðinni, er félagið keypti og sýndi á fundum í félaginu.