Fangbrögð sjómanna í Stokkseyrarhreppi við válynd veður, brim og boða, voru tvísýn og hættuleg, en venjulega tókst þeim að þræða hina kröppu leið milli skers og báru og ná heilum til hafnar. f trausti þess, að slíkt mætti takazt, héldu þeir ótrauðir á miðin til að sækja björg í bú. En stundum fór svo, að björgin úr sjónum reyndist of dýru verði keypt. Ægir krafðist endurgjalds og heimti skip og menn. Þá drúpti byggðin, en engum kom þó til hugar að leggja
árar í bát. Enn var lagt á djúpið án æðru eða ótta. Ein kynslóð tók við af annarri. Allar urðu þær að þreyta hin miklu fangbrögð við náttúruöflin og flestar að færa sínar fórnir. Margir slíkir atburðir standa djúpum rótum í minningum fólksins í þessari sjávarbyggð og eru samantvinnaðir tilveru þess og sögu. Því vil ég reyna að gera þeim nokkur skil.
Á fyrri öldum eru annálar einu heimildirnar, sem skýra frá slysförum á sjó. Þeir eru venjulega mjög stuttorðir, geta þess aðeins, að skip hafi farizt þetta og þetta ár með tilteknum fjölda manna. Stundum er tala þeirra ekki tilgreind eða einstökum annálum ber ekki saman um hana. Staðsetning atburða er ekki heldur alltaf nákvæm. Þegar annálar segja, að skip hafi farizt á Eyrarbakka, ber að hafa í huga hina víðari merkingu nafnsins, og getur það því eins átt t. d. við Stokkseyri eða Loftsstaði. Þegar kemur fram á 19. öld, koma aðrar heimildir til sögunnar: prestsþjónustubækur, tíðavísur, sendibréf, blaðafréttir og ýmsar skráðar sagnir og um síðustu tíma frásagnir samtíðarmanna og sjónarvotta; í sumum dæmum bregða réttarbækur ljósi yfir atburði. Reynt er að taka tillit til alls þessa í frásögnum þeim, sem hér fara á eftir.
Þegar litið er yfir sjóslys í Stokkseyrarhreppi í síðastliðnar fjórar aldir, koma í ljós nokkur atriði, sem vekja sérstaka eftirtekt. Í fyrsta lagi hefir 18. öldin algera sérstöðu að því leyti, að ekki er vitað til, að neitt skip hafi þá farizt við fiskveiðar í hreppnum. Verður þó ekki fortekið, að svo kunni að hafa verið, þar eð heimildir frá þeim tíma eru mjög slitróttar, en engu að síður er þetta athyglisvert. Sjósókn var þá að vísu ekki mikil, en fór þó vaxandi undir lok aldarinnar, og yfirleitt virtist hún ekki hafa verið minni en á 17. öld, er hvert sjóslysið rak annað. Á tímabilinu 1640-1699 urðu hvorki meira né minna en 7 skipstapar með verulegu manntjóni í hreppnum, og er það þeim mun furðulegra afhroð sem það er vitað, að einungis fá skip gengu þá til fiskjar á ári hverju. Mest og tíðust urðu sjóslysin á síðastliðinni öld og framan af þessari, og er sem þau ríði yfir í tveimur bylgjum, hin fyrri á árunum 1800-1830 eða þar um bil, en hin síðari á árunum um 1880-1930 eða fram undir það. En þetta hefir hvort tveggja eðlilegar orsakir, því að á þessum tímum var sjór sóttur af meira kappi og með meiri skipafjölda en þekkzt hefir fyrr eða síðar.
Eftir þessar almennu athugasemdir sný ég mér að hinu sérstaka efni þessa kafla.
1554. „Þar um nærri á þeim árum varð skiptjón á Háeyri, drukknuðu ix menn og iij konur.“[note] Biskupaannálar, Safn I, 102.[/note]
1567. „Þá urðu 2 skiptapar á einni stundu, einn á Eyrarbakka og annar á Bjarnastöðum í Selvogi. Þar voru 13 menn á hvoru skipi“.[note]Fitjaannáll, Annálar Il, 75.[/note]
1640. „19. Februarii skiptapi í Loftsstaðasundi á Eyrarbakka. Þar af drukknuðu 9 menn; 2 komust með lífi til lands. Formaðurinn hét Guðmundur Jónsson. Item 11. Martii annar skiptapi á Stokkseyrarsundi. Þar af drukknuðu 11 menn. Formaður hét Jón Bjarnason, en skipið átti Katrín Þormóðsdóttir.“[note]Sjávarborgarannáll, Annálar IV, 276. Katrín bjó á Hrauni, sbr. Saga Hraunshverfis 15 -17. [/note]
1646. „Þann 8. Aprílis varð skiptapi á Stokkseyri á Eyrarbakka, drukknuðu 11 menn, komst enginn af, en annað skipið hleypti til Þorlákshafnar og komst af.“[note]Fitjaannáll, Annálar II, 151.[/note]
1653. „Um kyndilmessuleytið forgekk áttæringur með öllum mönnum á Eyrarbakka þann fyrsta dag, sem það gekk á sjó. Það skip átti Rannveig á Háeyri. Önnur heimild segir, að 9 menn hafi drukknað og á heimili Rannveigar hafi þá verið 20 börn föðurlaus.“[note]Sama rit Il, 170, sbr. Seiluannál, Annálar I, 303.[/note]
1670. „Skipreiki á Eyrarbakka, týndust 6 menn, 3 komust af.[note]Hestsannáll, Annálar II, 497, sbr. 221.[/note] Út af slysi þessu varð talsverð rekistefna, og sést m. a. af Þingbók Árnessýslu, að skipsskaðinn varð á Stokkseyrarsundi. Svo vildi til, að annar formaður, Guðmundur Þorbjarnarson, faðir Eyvindar á Stokkseyri, var nálægur á sjó með 6 háset. um sínum, er slysið varð. Kom upp sá orðrómur, að unnt hefði verið að bjarga mönnunum og kröfðust ekkjur hinna drukknuðu, að Guðmundur yrði látinn svara til þess máls. Sýslumaður dæmdi Guðmundi sjöttareið þegar á sama ári, en vegna misgánings voru honum ekki nefndir eiðamenn. Úr því var bætt síðar, og voru þá 6 hásetar Guðmundar nefndir til eiðvættis með honum. Liðu svo þrjú ár, að Guðmundur skaut sér undan eiðtökunni. Á Stokkseyrarþingi 15. maí 1673 var enn krafizt eiðs af honum, en hann mætti ekki á þinginu fremur en áður.[note]Dómabók Jóns Vigfússonar eldra í Þjóðskjalasafni.[/note] Neyddist sýslumaður þá til að skjóta málinu undir úrskurð lögréttu, og var það auðvitað samhljóða ályktun hennar, að Guðmundur væri skyldur til að hlýða lagafyrirkalli. Á alþingi 1674 var mál Guðmundar enn til umræðu í lögréttu, og sat þá allt við sama. Hafði Guðmundur „ei viljað þau þing sækja á Stokkseyri, sem sýslumaðurinn til selt hafi um málefni honum tilætlað, og ei viljað sínar afbatanir fram leggja né lagaforsvar auglýsa fyrir yfirvaldinu móti því tiltali.“[note] Alþb. Íslands VII, 266-267, 292.[/note] Um mál þetta er ekki getið eftir þetta, og er óvíst, hvernig því hefir lyktað.
1685. „Og á sama vetri þann 7. Februarii forgekk á Eyrarbakka áttæringur með 11 mönnum. Aðrar heimildir nefna skipið teinæring.[note]Kjósarannáll, Annálar II, 470, sbr. 268 og 523.[/note] Þessa vertíð urðu einhverjir mestu mannskaðar, sem sögur fara af. Telur Fitjaannáll, að alls hafi drukknað í sjó á því ári 191 maður og 19 skip farizt.“
1697. Þetta ár varð skiptapi á Eyrarbakka með 4 mönnum, en 3 komust lífs af.[note]Hestsannáll, Setbergsannáll, Annálar II, 542; IV, 149.[/note]
1699. „Einninn varð í sumar skiptapi í brimi á Eyrarbakka; drukknuðu 12 menn. Það skip var sagt, að átt hefði Bjarni Árnason á Skúmsstöðum á Eyrarbakka. Setbergsannáll nefnir skipið áttæring, og hann og Fitjaannáll segja, að 11 menn hafi drukknað, Hestsannáll segir 10 menn og Vallaannáll 9 menn.“[note]Eyrarannáll, Annálar Ill, 402, sbr. I, 432; Il, 334, 546; IV, 156. [/note]
Eins og áður er sagt, hefi ég ekki rekizt á neinar heimildir um skiptapa við fiskiveiðar í Stokkseyrarhreppi á 18. öld. Samt sem áður bar þar stundum alvarleg slys að höndum. Þannig er þess getið í ættartölubókum, að Bjarni Magnússon fyrrum hreppstjóri á Litlu-Háeyri, og ráðskona hans Vigdís Jónsdóttir hreppstjóra í Nesi Ketilssonar, hafi drukknað af báti í sölvafjöru; hefir það verið 1774 eða nokkru síðar. Árið 1781 hinn 19. september slitnaði póstskipið „Síldin upp í ofsaveðri á Eyrarbakka og fórst með 18 mönnum, áhöfn skipsins, sem var dönsk, og áhöfn hafnsögubátsins af Eyrarbakka, sem var um borð í skipinu. Þar drukknuðu meðal annarra verzlunarþjónarnir Jón Vídalín og Símon Jónsson í Garðbæ og enn fremur Jón Halldórsson, einkasonur Ragnheiðar Bergsdóttur á Litlu-Háeyri, mjög efnilegur maður. Loks má nefna hið sviplega slys, er 7 menn fórust á ferjunni á Óseyrarnesi vegna ofhleðslu 11. júní 1800. Þar drukknuðu meðal annars ferjumaðurinn Snorri Ögmundsson, faðir Jóns skipasmiðs í Nesi, og frú Sigríður Jónsdóttir prófasts Steingrímssonar, kona síra Markúsar Sigurðssonar á Reyni í Mýrdal. Víkur nú sögunni aftur að sjóslysunum.
1808. Svo segir í Tíðavísum síra Jóns Hjaltalíns það ár:
Eitt fórst skip á Eyrarbakka, ýtar greina,
fjórir menn þar fengu bana,
fölir djúpt í landi svana.
Hér er án efa um að ræða drukknun Bjarna Einarssonar á Stéttum, bróður Þuríðar formanns, og félaga hans. Í sögunni af Þuríði formanni er talið, að Bjarni hafi drukknað 1812, en eins og ég hefi sýnt fram á, er 3-4 ára tímatalsskekkja á löngum kafla í sögunni, og hefir það að vonum villt fyrir mönnum.[note]Sjá ritgerð mína um Þuríði formann framan við útgáfu sögunnar, Rvík 1954, bls. xiij-xvj.[/note] Verða þannig úr þessum atburði tvö sjóslys bæði í Annál 19. aldar og Sögu Eyrarbakka, annað 1808 eftir Tíðavísum og hitt 1812 eftir Sögunni af Þuríði formanni.[note]Annáll 19. aldar I, 111 og 159; Saga Eyrarbakka Il, 73.[/note]
Frá drukknun Bjarna á Stéttum segir Brynjúlfur frá Minna-Núpi svo í sögu Þuríðar: ,,Það þóttust menn finna, að Bjarni á Stéttum gerðist þunglyndari, er á leið. – Það sama vor sem Þuríður fór að Baugsstöðum var það einn dag, að Bjarni sat á rúmi sínu þegjandi um stund og hallaði sér upp að höfðalaginu. Þá sagði hann við sjálfan sig: ,,Hvenær skyldi guð stytta þessar mæðustundir? Fám dögum síðar reri hann sem oftar, og er hann fór, gekk hann til konu sinnar, hélt á smíðaöxi sinni og mælti: ,,Leitaðu ekki að öxinni minni, ég fer með hana, kvaddi hana síðan sem hann var vanur. Um daginn hvessti af hafi og varð ófært. Allir komust þó í land nema Bjarni. Hann hafði róið einna lengst, kom síðastur inn sundið, og hvolfdi þar undir honum. Hann komst á kjöl einn sinna manna, hafði náð öxinni og höggvið henni í súðina, svo að hún stóð þar föst. Hélt hann sér þar nokkra stund og kallaði um hjálp. En ófært var að bjarga, og fórst hann þar. Bátinn rak að landi, og stóð öxin í súðinni. Það ætluðu menn, að Bjarna hefði dreymt fyrir dauða sínum eða haft hugboð um hann.[note]Sagan af Þuríði formanni I, 16. kap. Sjá enn fremur um Bjarna Saga Hraunshverfis 103-104.[/note] Ekki er kunnugt á hvaða sundi Bjarni fórst eða hverjir voru hásetar hans.
1810. Hinn 4. apríl fórst Einar Benediktsson bóndi í Hólum með allri áhöfn, 7 mönnum, á Tunguósi. Með honum drukknuðu þessir menn: Árni úr Skaftártungu, 61 árs, Guðmundur Jónsson á Baugsstöðum, 17 ára, Halldór úr Landeyjum, 17 ára, Jón Jónsson vinnupiltur í Hólum og uppeldisbróðir formannsins, 17 ára, Jón Stefánsson bóndi í Sviðugarðahjáleigu, 40 ára, kvæntur og átti 4 ung börn, og Loftur úr Hraungerðishreppi. Um þennan atburð kveður síra Jón Hjaltalín svo í Tíðavísum:
Nokkrum hefur saltur sjór
sökkt í reyðar djúpan kór,
því með mönnum sex í svip
sökk á Eyrarbakka skip.
Tölu þeirra, sem drukknuðu, hafa aðrir síðan tekið upp eftir vísunni, en 7 er rétta talan, eins og sést af prestsþjónustubók Gaulverjabæjarsóknar, þar sem mennirnir eru taldir með nöfnum. Ástæða er að vekja athygli á því, að höfundur Tíðavísna telur þennan skiptapa á Tunguósi hafa orðið á Eyrarbakka. Er það vitanlega ekki nákvæmt, en þó rétt samkvæmt málvenju fyrri tíma.
Daginn sem Einar í Hólum fórst, voru allmargir formenn af Stokkseyri og þar í grennd á sjó, meðal þeirra Jón hreppstjóri Einarsson á Baugsstöðum, en Guðmundur, sonur hans, reri hjá Einari. Veður var ekki gott, og fór sjór versnandi. Taldi Jón mjög tvísýnt um lendingu á Tunguósi og hafði orð á því við háseta sína, að hann gerði réttast í því að taka Guðmund yfir í sitt skip, því að skammt var á milli þeirra á sjónum. Úr því varð þó ekki, og fórst drengurinn því með Einari.[note]Sögn Páls Guðmundssonar á Baugsstöðum. Um Einar í Hólum sjá enn fremur Bólstaði o. s. frv., 73.[/note]
1812. Hinn 25. febrúar urðu tvö skip frá Stokkseyri að hleypa til Þorlákshafnar. Formenn á þeim voru Jón hreppstjóri Þórðarson í Vestri-Móhúsum og Jón strompur Jónsson í Starkaðarhúsum, síðar í Borg í Hraunshverfi. Skipi Jóns stromps hlekktist á í lendingunni í Þorlákshöfn og fóru flestir eða allir í sjóinn. Um það bil helmingi skipshafnarinnar, þar á meðal formanninum, var bjargað, en þessir 6 menn drukknuðu: Bergur Þórðarson vinnumaður í Brattsholti, 38 ára; er sagt, að roði hafi sézt í kinnum hans, er hann náðist úr sjónum; Einar Jónsson bóndasonur frá Stokkseyri, 35 ára; Jens Haagensson bóndi í Ranakoti, 38 ára, kvæntur og átti 2 börn ung; Magnús Jónsson bóndi á Mið-Kekki, 35 ára, kvæntur og átti einn son; Þorgils Jónsson bóndi á Kalastöðum, 43 ára, kvæntur og átti 4 börn, og Þorkell Gíslason á Kalastöðum, 21 árs, mágur Þorgils Jónssonar. Jón Gíslason frá Meðalholtum segir, að meðal þeirra, sem drukknuðu, hafi verið maður frá Skarðsseli á Landi, er komið hafi til sjóróðra kvöldið áður. Sé það rétt, hefir hann verið 7. maðurinn.
Um þennan atburð kveður síra Jón Hjaltalín á þessa leið í Tíðavísum sínum:
Fárið ára frakka kló
fyrir Eyrarbakka sló,
aldan kalda greiða grimm
gerði firða deyða fimm.
Tala hinna drukknuðu er ekki rétt í vísunni, enda ber heimildum ekki saman um hana; Gunnlaugur á Skuggabjörgum segir í Aldarfarsbók sinni, að 8 hafi drukknað, en 5 komizt af, en Jón Gíslason, að 6 hafi drukknað, en 7 verið bjargað, og hygg eg það vera hið rétta. Um ár og dag, er slys þetta gerðist, er ekki að villast. Það sanna skiptabækur Árnessýslu, Tíðavísur og Aldarfarsbók Gunnlaugs á Skuggabjörgum, sem áður er nefnd. Hins vegar telur Brynjúlfur frá Minna-Núpi og ýmsir eftir honum, að þetta hafi verið 1815, og er því þar blandað saman við skiptapann á Stokkseyri, sem varð einmitt það ár og brátt verður getið.
Svo er sagt, að róður þessi hafi verið farinn fyrir óskiljanlegt ofurkapp Jens bónda Haagenssonar í Ranakoti, sem var háseti hjá Jóni stromp. Hann vaknaði fyrir miðnætti og vakti upp formann sinn. Varð það svo úr, að hann ákvað að róa, og gátu þeir með mesta kappi fengið nægan mannafla á skipið. Þegar Jón í Móhúsum varð þess var, að nafni hans ætlaði að róa, brá hann við og gat náð saman nægu fólkstali á skip sitt. Meðal háseta hans í þessum róðri voru Jón bóndi Gamalíelsson á Stokkseyri, sem var þaulvanur formaður og sjógarpur mikill, Þuríður Einarsdóttir, síðar formaður, og Ingibjörg Jónsdóttir frá Stokkseyri. Þeir reru svo austur á Baugsstaðarif, en eftir tvo tíma varð sjór á hálftíma ólendandi og engin lífsvon utan leita til Þorlákshafnar, sem var óvanalegt á þeim tímum, enda tíðkuðust þá eigi segl. Frá Stokkseyrarsundi til Þorlákshafnarlendingar eru taldar 4 vikur sjávar. Vindur og sjór æstust því meir sem lengur leið, og er skammt var til Þorlákshafnar, tók að gefa á skipin, en með harðfylgi og góðri stjórn heppnaðist að verja þau áföllum. Á skipi Jóns hreppstjóra stýrðu þeir nafnar til skiptis, hann og Jón Gamalíelsson, en áður en þeir komu á móts við Kúlu, tók Jón hreppstjóri við stjórninni, en Jón Gamalíelsson sat á bitanum og sagði til um, hvar halda skyldi inn að legunni fyrir utan varirnar. Jón strompur lagði að, þegar bending kom úr landi, en lá þó utar. Hann hleypti að, en mistókst stjórnin, svo að skipinu sló upp að Sýslu og það fyllti, en mennirnir fóru í sjóinn. Litlu síðar kallaði Jón Gamalíelsson lagið, sló hnefanum í bitann og sagði til nafna síns: ,,Jafnt og helvíti í hellunefið! og tví- eða þrítók það. Var þetta haft að orðtaki síðan um það, sem reið á að forðast. Fóru þeir inn á því lagi og lentist vel. Skipi Jóns stromps var náð lítt skemmdu.[note] Sbr. Sagan af Þuríði formanni, Rvík 1954, 32-33, og einkum athugasemdir Jóns Gíslasonar, sama stað, 221-223.[/note]
1815. Hinn 30. marz fórst skip frá Stokkseyri með 13 mönnum. Formaður var Jón Jónsson bóndi á Ásgautsstöðum. Ekki er nú unnt að nafngreina alla, sem þá drukknuðu, en víst er, að meðal þeirra voru þessir: Jón formaður, 21 árs, kvæntur og átti 2 kornunga syni; Ólafur Þórðarson bóndi í Hnausi í Flóa, 49 ára, kvæntur og átti tvo syni unga; Páll Þórarinsson bóndi á Arnarhóli í Flóa, 41 árs, kvæntur og átti 6 ung börn; Þórður Runólfsson bóndi í Gegnishólaparti, 38 ára, kvæntur; Þóroddur Arason bóndi í Hólum, 58 ára, kvæntur og átti 4 börn, og að öllum líkindum Benedikt Pálsson frá Auraseli í Fljótshlíð.[note]Í ættartölubókum Steingríms biskups, bls. 4570, er Benedikt sagður hafa drukknað á Eyrarbakka þetta ár.[/note] Sennilegt er einnig, að Páll Vigfússon bóndi í Íragerði hafi verið einn þeirra, sem drukknuðu, en víst er það ekki. Í Tíðavísum síra Þórarins Jónssonar er þessa atburðar getið á þessa leið:
Á Eyrarbakka ævibönnum
Ægir nauðir jók,
þilju blakk með þrettán mönnum
þar af dauðinn tók.
Hins vegar telur síra Jón Hjaltalín í Tíðavísum sínum, að mennirnir hafi verið átta:
Eyrarbakka einnig frá
Ægis vífin hristu
ára rakka, átta þá
ýtar lífið misstu.
Vafalaust mun fyrri talan vera rétt, og svo telur Jón Espólín einnig í Árbókum sínum.[note]Árbækur Jóns Espólíns XII, 76. kap.[/note]
Snemma á þeim sama vetri sem Jón á Ásgautsstöðum fórst, dreymdi Sesselju Ámundadóttur, konu Jóns hreppstjóra Einarssonar á Baugsstöðum, að hún þóttist stödd á Stokkseyri og sjá sjóbúð Jóns á Ásgautsstöðum alla niður fallna. Réð hún drauminn svo, að skip Jóns mundi farast. Fátækur bóndi, Jón Guðmundsson í Borg hjá Villingaholti, var ráðinn þessa vertíð útgerðarmaður hjá Jóni á Baugsstöðum, en skyldi vera háseti hjá Jóni á Ásgautsstöðum. Áleit Sesselja sér skylt að koma því til leiðar, að Jón í Borg reri ekki á því skipi, og kom svo máli sínu við mann sinn, að hann fekk nafna sinn lausan úr skiprúminu og bætti honum við á sitt skip. Varð draumur Sesselju þannig Jóni í Borg til lífs, og lifði hann mörg ár eftir þetta.[note]Sbr. Br. J., Dulrænar smásögur, Rvík 1955, 14-15. [/note]
1823. Hinn 6. júní drukknuðu 3 menn á Stokkseyrarsundi, er þeir voru að koma úr fiskiróðri, en einn bjargaðist. Nánari atvik að slysinu eru gleymd. Mennirnir, sem fórust, voru þessir: Jón Jónsson bóndi í Kumbaravogi, 23 ára, ókvæntur; Gísli Jónsson í Kumbaravogi, bróðir Jóns, 24 ára, ókvæntur, og Þórður Bjarnason unglingspiltur frá Rauðarhól, 16 ára. Bræðurnir Jón og Gísli voru synir Jóns söngs í Íragerði og bræður Guðmundar í Gerðum, föður Bjarna ættfræðings. Fjórði maðurinn á bátnum og sá eini, er komst lífs af, var Bjarni Loftsson bóndi í Eystri-Rauðarhól, faðir piltsins Þórðar, sem drukknaði. Bjarni var þrekmaður mikill til sálar og líkama og hraustmenni. Það varð honum til bjargar.[note]Lbs. 2722, 4,to, bls. 79.[/note]
1824. Hinn 5. ágúst drukknaði einn maður í sjó á Eyrarbakka, Jón Guðmundsson vinnumaður í Eyvakoti, 26 ára, sonur Guðmundar Nikulássonar á Litlu-Háeyri. Nánari atvik að slysi þessu eru ókunn.
1826. Hinn 3. júní drukknuðu 4 menn á Einarshafnarsundi, er munu hafa verið að koma úr fiskiróðri. Mennirnir voru þessir: Rafnkell Hannesson frá Litla-Hrauni, 24 ára; Eyjólfur Jónsson frá Helluvaði á Rangárvöllum, 24 ára; Jón Guðmundsson frá Kornbrekkum á Rangárvöllum, 24 ára, og Guðmundur Jónsson vinnumaður á Litla-Hrauni, 25 ára. Þessi Guðmundur mun hafa verið sonur Jóns Brandssonar í Ranakoti efra og því sá hinn sami, sem Jón Gíslason í Meðalholtum telur, að hafi drukknað við hrognkelsaveiði í Stokkseyrarfjöru.[note]Austantórur 1, 24.[/note]
1828. Þetta er mesta mannskaðaár í sögu Stokkseyrar. Þá fórust á vertíðinni tvö skip frá Stokkseyri með 19 mönnum alls. Síra Jón Hjaltalín telur í Tíðavísum, að þá hafi farizt aðeins eitt skip með 8 mönnum:
Eyrarbakka árakló
átta skreytta rekkum
Ægis frakka aflið sló,
unns af rakka líkin dró.
Má af því marka, hversu ónákvæmar fregnir síra Jón hefir fengið af slysum þessum.
Hinn 8. apríl fórst Jón bóndi Jónsson á Gamla-Hrauni á Stokkseyrarsundi með allri áhöfn, 10 mönnum. Jón var sonur Jóns skipasmiðs Snorrasonar, 32 ára, kvæntur Valgerði Aradóttur, ekkju Þorkels Jónssonar skipasmiðs á Gamla-Hrauni. Með honum drukknuðu þessir menn: Björn Gíslason vinnumaður í Kakkarhjáleigu, 24 ára, átti einn son; Einar Kristófersson bóndi í Brú, 31 árs, kvæntur og átti 3 ung börn; Eiríkur Sveinsson bóndi í Rauðarhól, 29 ára, kvæntur, en barnlaus; Ingimundur Grímsson frá Traðarholti, vinnumaður á Háeyri, 27 ára; Jón Benediktsson í Traðarholti, 30 ára; Jón Jónsson vinnumaður í Brú, 21 árs; Oddur Magnússon bóndi í Votmúlakoti, 31 árs, kvæntur, en barnlaus; Stefán Jónsson bóndi á Stóra-Hrauni, 45 ára, kvæntur og átti 4 börn, og Valdi Markússon bóndi á Hellum í Flóa, 66 ára, kvæntur og átti 3 börn uppkomin.
Sagnir gengu um það, að reykur hefði verið eftir Jón formann. Var talið, að hann hefði safnað peningum og væri að vitja þeirra.[note]Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur II, 40.[/note] Um einn af hásetum Jóns, Valda Markússon á Hellum, er sú saga sögð, að hann hafi sagt börnum sínum, þegar hann fór seinast til vers, að hann mundi drukkna á vertíðinni. Þau spurðu, af hverju hann héldi það. Hann sagði, að hann hefði gengið austur hjá Stokkseyri um kvöldið á vöku, þegar hann kom utan af Bakka stuttu fyrir jól um veturinn, og þegar hann gekk þar með sjónum, sem þeir voru vanir að lenda, hefði sér sýnzt öll skipshöfnin koma þangað, og í þeim hópi þekkti hann sjálfan sig. Þeir voru allir skinnklæddir, en berhöfðaðir og héldu á höttum sínum. Valdi hafði alltaf verið sjóhræddur, en þessa vertíð bar ekki á því, en alvarlegur var hann og tók ekki þátt í gamanræðum félaga sinna. Í stað þess tók hann sig úr sjóbúðinni og fekk sér húsnæði í koti einu; þótti honum þar kyrrlátara. Skipið fórst um sumarmálaleytið, sem áður segir, og rættist þannig draumurinn.[note]Huld II, 52.[/note]
Nú var skammt stórra höggva á milli. Tæpum mánuði síðar eða hinn 5. maí fórst annað skip á Stokkseyri með 9 manna áhöfn. Formaður á því var Björn Einarsson bóndi í Byggðarhorni í Flóa, 31 árs að aldri, kvæntur maður og átti eitt barn. Með honum drukknuðu þessir menn: Egill Jónsson í Holtsmúla á Landi, 32 ára, ókvæntur; Gísli Salómonsson bóndi í Gerðum í Stokkseyrarhverfi, 31 árs, kvæntur og átti eitt barn á lífi; Gísli Sigurðsson unglingspiltur á Hæringsstöðum, 18 ára; Guðmundur Magnússon á Geldingalæk á Rangárvöllum, 26 ára, ókvæntur; Jón Jónsson frá Hábæ í Þykkvabæ, 21 árs; Kristín Brandsdóttir vinnukona á Stokkseyri, 42 ára, ógift; Þorleifur Bjarnason vinnumaður í Hólum, 25 ára, og Þorsteinn Álfsson vinnumaður í Tungu, 37 ára, ókvæntur.
Flesta mennina rak upp, og meðal annars voru 4 menn jarðaðir á sama degi, 29. júní, þrír af þessu skipi og einn af því fyrra. Hér fórst síðasta konan, sem drukknað hefir í fiskiróðri í Stokkseyrarhreppi.
1846. Hinn 27. febrúar fórst bátur á Einarshafnarsundi með allri áhöfn, 5 mönnum. Formaður var Magnús Jónsson bóndi í Foki í Hraunshverfi, 28 ára að aldri, ókvæntur, en átti eina dóttur. Með honum fórust þessir menn: Hafliði Kolbeinsson á Stóru-Háeyri, 50 ára, ekkjumaður, átti eina dóttur; Sigurður Magnússon vinnumaður á Stóra-Hrauni, 29 ára, ókvæntur; Steingrímur Kolbeinsson vinnumaður á Stóru-Háeyri, 22 ára, hálfbróðir Hafliða, og Þorstein Grímsson vinnupiltur í Eyvakoti, 17 ára.
Svo bar til þennan vetur, að sjógæftir komu á Eyrarbakka um hríð, áður en vertíð byrjaði. Reru þá nokkrir bátar og öfluðu vel. Magnús í Foki hafði fyrir stuttu verið vinnumaður hjá Þorleifi hreppstjóra Kolbeinssyni á Háeyri. Hann var ráðinn háseti syðra þessa vertíð, en vildi gjarnan afla nokkurs heima, áður en hann færi. Kom hann því til Þorleifs snemma um morguninn og kvaðst vilja róa báti, er hann átti, en sig vantaði tvo menn og bað hann lána sér þá. Þorleifur sagðist ekki hafa menn, er viðlátnir væru. Hafliði Kolbeinsson heyrði þetta; hann var eigi klæddur. Hann mælti: ,,Það er bezt, að eg komi og rói með þér til að vita, hvort eg hefi ekki týnt áralaginu. Talaðist þá svo til, að Steingrímur Kolbeinsson, er þá var hjá bróður sínum, skyldi fara með Hafliða og róa hjá Magnúsi. Meðan Hafliði klæddist, sagði hann draum sinn: ,,Eg þóttist vaða sjóinn út undir brimgarði, og var hann svo heitur, að eg þoldi varla. Það ræð eg fyrir góðum afla. Síðan reru þeir. Sjóveður var hið bezta framan af deginum, en síðan brimaði snögglega. Þá voru aðeins tveir bátar á sjó, bátur Magnúsar og bátur Jóns Þorsteinssonar í Eyvakoti. Magnús lagði að landi, en þá kom brotsjór og hvolfdi bátnum. Fórust þeir allir. Jón hleypti út í Þorlákshöfn og lenti þar með heilu.[note]Sagan af Þuríði formanni IV, 10. kap.; Annáll 19. aldar Il, 238; Ævilok Hafliða Kolbeinssonar, Ísafold 19. apríl 1890, eftir Pál Melsteð.[/note]
1852. Í byrjun vorvertíðar, 18. maí, fórst Jóhann Bergsson bóndi á Stokkseyri á heimleið úr fiskiróðri við fjórða mann. Þeir, sem drukknuðu, voru þessir: Jóhann Bergsson bóndi á Stokkseyri, 46 ára, kvæntur, en barnlaus; Gísli Þorsteinsson bóndi á Ásgautsstöðum, 47 ára, kvæntur og átti 5 börn á lífi; Þorsteinn Gíslason á Ásgautsstöðum, 16 ára, sonur Gísla bónda, og Jón Jónsson bóndi á Kalastöðum, 31 árs, ókvæntur.
Þeir Jóhann reru á fjögramannafari í góðu veðri, en nokkru brimi. Á leiðinni í land komu þeir siglandi austan með, en fóru of nærri Hlaupósboða, og hvolfdi þá bátnum. Jóhann og annar maður til komust á kjöl. Heyrðust köllin til þeirra í land, en enginn vegur var að bjarga þeim, því að þeir voru komnir inn í brimgarðinn. Guðrún, kona Jóhanns, var meðal þeirra, sem horfðu á þetta, og heyrði hún köll manns síns. Varð henni svo mikið um, að hún ætlaði að hlaupa í sjóinn og hrópaði hástöfum: ,,Komdu, Jóhann, komdu, Jóhann! Var hún tekin niðri í flæðarmáli og henni haldið svo að hún færi sér ekki að voða. Reyndi hún þá að flengja sjóinn. Þarna fórust mennirnir í allra augsýn, en Guðrún varð aldrei samur maður eftir þennan atburð.[note]Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur Il, 22-23.[/note]
1861. Hinn 10. júní drukknaði einn maður, Jón Sigurðsson frá Efra-Seli, 20 ára, á Stokkseyrarsundi, og fannst hann mánuði síðar. Atvik að þessu eru gleymd, en sennilega hefir hann tekið út í brimi á sundinu.
1863. Á vertíðinni, hinn 20. marz, varð stórkostlegt sjóslys á Stokkseyri.
Þá fórst skip með allri áhöfn, 13 mönnum, á Stokkseyrarsundi. Formaður á því var Tyrfingur Snorrason á Efra-Seli, 36 ára, kunnur dugnaðarmaður og sjósóknari. Með honum drukknuðu þessir menn: Þórður Bjarnason bóndi á Efra-Seli, 68 ára, kvæntur; Gísli Þórðarson á Efra-Seli, einkasonur Þórðar bónda, 26 ára, ókvæntur; Bjarni Jónsson frá Hnausi, fyrirvinna í Vetleifsholti í Holtum, 39 ára, ókvæntur; Jóhann Jónsson húsmaður í Hnausi, bróðir Bjarna, 31 árs, kvæntur; Jón Pálsson bóndi í Holti, 63 ára, kvæntur og átti tvö börn uppkomin; Jón Jónsson ekkill í Vestri-Móhúsum, 65 ára, faðir Bernharðs í Keldnakoti og þeirra systkina; Nikulás Bjarnason bóndi í Eystra-Stokkseyrarseli, 49 ára, kvæntur og átti 8 börn; Þorgils Jónsson bóndi í Brú, 42 ára, kvæntur og átti ung börn; Gunnlaugur Guðmundsson unglingur í Borgarholti, 15 ára; Jón Jónsson vinnumaður í Svínhaga á Rangárvöllum, bróðir Vernharðs á Seli; Kristján Leirbeck vinnumaður í Eystra- Stokkseyrarseli, 26 ára, og Sturlaugur Björnsson vinnumaður á Flóagafli, 44 ára. Þyngst var það áfall, sem heimilið á Efra-Seli varð fyrir; húsfreyjan þar, Helga Gunnlaugsdóttir, missti þarna á einum degi Þórð mann sinn, Tyrfing son sinn og Gísla stjúpson sinn.
Blaðið Þjóðólfur segir svo frá, að þennan dag hafi almenningur af Stokkseyri og úr Þorlákshöfn róið, en veður gengið til suðurs með vaxanda brimi, er fram á daginn kom. Náðu samt öll skip landi í Þorlákshöfn, nema hið síðasta brotnaði í spón í lendingunni, en mönnum varð bjargað. Síðasta skipið, sem lagði að landi á Stokkseyri, fórst í brimgarðinum, og var það skip Tyrfings.
Stokkseyringar kunna að greina nánar frá slysi þessu. Þennan dag fóru fjögur skip á sjó frá Stokkseyri: Jón Adólfsson, síðar bóndi í Grímsfjósum, Páll Eyjólfsson í Eystra-Íragerði, Karel Jónsson á Ásgautsstöðum og Tyrfingur Snorrason á Efra-Seli. Voru þeir allir að fiski rétt utan við brimgarðinn, að boðabaki, sem kallað er, því að brim var mikið þegar um morguninn. Þremur skipunum lentist þó vel. Lagði Jón Adólfsson fyrstur á sundið, en Tyrfingur síðastur. Hvolfdi skipinu í brimgarðinum á sundinu, og komust nokkrir menn á kjöl. Vindur stóð af landi, og bar skipið undan til hafs. Ræddu formenn í landi um það, hvort unnt mundi vera að komast út til að bjarga mönnunum og hleypa síðan til Þorlákshafnar. En brim var þá orðið svo mikið, að enginn treystist til þess að komast út sundið. Var það þá tekið til bragðs að senda mann út í Þorlákshöfn og fá skip þaðan til hjálpar. En á meðan sendimaður var á leiðinni, snerist vindáttin snögglega í útsuður. Bar skipið þá aftur að brimgarðinum og inn yfir skerin, en mennirnir tíndust hver af öðrum af kjölnum, unz enginn var eftir. Allan þann tíma, sem skipið var að hrekjast með mennina, fylgdist fjöldi fólks í landi með afdrifum þeirra. Var lengi í minnum haft, hve átakanlegt slys þetta hefði verið, þar sem það gerðist í allra augsýn, en ekkert varð aðhafst til bjargar. Flest líkin rak upp litlu síðar, og voru 7 jörðuð samtímis á Stokkseyri 21. apríl.
Ýmsir fyrirboðar urðu fyrir drukknun Tyrfings og manna hans, eins og oft á sér stað á undan válegum atburðum.
Sjóbúðir Tyrfings og Karels á Ásgautsstöðum sneru göflum saman, og horfðu dyr hvorar gegnt öðrum. Veturinn áður en skiptapinn varð, dreymdi einn af hásetum Karels, að hann sæi blóð renna úr sjóbúð hans yfir í búð Tyrfings. Draum þennan réð hann þannig, að Karel mundi farast. Hann réðst því háseti til Tyrfings næstu vertíð og fórst með honum.
Skip Tyrfings var nýlegur áttæringur, stór og vandaður, smíðaður af Jóhannesi Árnasyni á Stéttum. Þegar Jóhannes var að höggva til hnélista úr rekatré, sem notað var í hina smærri skipsviði, sýndist honum blóð renna úr öxarfarinu. Þetta þótti honum ills viti og vildi kasta trénu. En vegna þess að annað efni var ekki nærtækt og verkið mátti ekki stöðvast, varð hann að láta sér lynda að halda áfram að smíða úr því.
Veturinn, sem Tyrfingur drukknaði, var Guðmundur Þorgilsson frá Litla-Hrauni til húsa í Eystri-Móhúsum og svaf þar einn í kofa. Guðmundur, sonur hans, var þá orðinn uppkominn maður og átti heima út á Eyrarbakka. Á Þorláksmessu fór Guðmundur Þorgilsson að finna son sinn og dvaldist hjá honum fram yfir jól, en hélt svo heim á gamlaársdag og var einn á ferð. Var hann lítið eða ekki drukkinn, en hafði meðferðis eina flösku af brennivíni og annað ekki. Suðvestanstormur var á, éljagangur og stórbrim. Þegar Guðmundur var kominn austur að sundvörðu fyrir vestan Kalastaði, stanzaði hann, tók upp flöskuna, sem hann hafði borið í malpoka á öxlinni, og ætlaði að fá sér í staupinu. Verður honum þá litið fram á sjó og sér skip koma róandi inn úr Stokkseyrarsundi. Það sá Guðmundur, að skip þetta fór ekki venjulega skipaleið, heldur beint yfir öll sker inn í svokallað Grímsfjósavik. Ekki duldist honum það, að eitthvað hlyti að vera athugavert við ferðalag þessa skips, eins og veðri var háttað. Ætlaði hann að vera staddur þar, sem skipið lenti, en svo varð þó ekki. Skipverjar höfðu lent og sett skipið upp fyrir flæðarmál, þegar Guðmund bar að. Stóðu þeir hver við sinn keip og formaður við skut. Guðmundur virti fyrir sér mennina og þekkti þá alla nema einn. Það var formaðurinn, og gat Guðmundur með engu móti séð á honum höfuðið. Ekki heyrði hann skipverja tala neitt. Hvarf svo skip og skipshöfn sjónum hans, og hélt hann áfram ferð sinni. Engum sagði Guðmundur Þorgilsson frá sýn þessari að sinni nema Guðmundi, syni sínum.
Leið nú veturinn og fram til 20. marz. Fórst þá Tyrfingur með allri áhöfn. Skipið rak inn yfir skerin og fór að sögn sjónarvotta sömu leið til lands sem Guðmundur Þorgilsson hafði séð tveimur og hálfum mánuði áður. Skipverja rak upp lítið eða ekki skaddaða nema lík formanns. Á það vantaði höfuðið.[note]Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur VI, 13; X, 28-30.[/note]
Meðal þeirra, sem drukknuðu með Tyrfingi, var Jón, faðir Bernharðs í Keldnakoti. Hann hafði verið kaupamaður í Byggðarhorni sumarið áður. Þá hafði verið slegið upp á því í gamni, að hann skyldi koma upp eftir næsta vetur til að fá ábyrstur, en kvíga ein þar átti að bera að fyrsta kálfi. Þegar kvígan bar, vöktu tvær konur yfir henni úti í fjósi um nóttina. Einhverju sinni, er þeim varð litið út, sáu þær mann alskinnklæddan, koma öslandi yfir vatnselg, sem var fyrir framan bæinn, og heyrðu skvampið í vatninu. Þegar hann var kominn heim undir bæ, misstu þær sjónar af honum. Það kom síðar í ljós, að Jón var þá nýdrukknaður, en fréttin um slysið hafði ekki borizt upp eftir, er konurnar sáu hinn skinnklædda mann koma þangað um nóttina. Var haldið, að Jón hefði verið að vitja vilmælanna um ábrysturnar frá sumrinu áður.
„Skilur milli feigs og ófeigs“, segir máltækið, og sannaðist það hér sem oftar. Bernharður, sonur Jóns, átti að fá að róa með Tyrfingi og föður sínum þennan dag og eiga það, sem hann drægi. En er hann kom til skips, var Tyrfingur búinn að leyfa öðrum pilti, Gunnlaugi frá Borgarholti, að róa með sér. Varð það Bernharði til lífs; en hinum að aldurtila.
1870. Á miðvikudaginn fyrir páska, 13. apríl, fórst sexæringur, sem var að koma úr fiskiróðri, á Rifsósnum á Eyrarbakka með allri áhöfn, 6 mönnum. Formaður á skipinu þennan dag var Sveinn Arason bóndi í Simbakoti, því að formaður sá, sem vanalega fór með skipið, Magnús Ingvarsson í Mundakoti, hafði farið til Reykjavíkur daginn áður í erindum þáveranda húsbónda síns, Þorleifs Kolbeinssonar á Háeyri, sem átti skipið að hálfu. Er sagt, að þetta hafi verið eina Reykjavíkurferð Magnúsar um ævina. Þessir menn drukknuðu:
Sveinn Arason bóndi í Simbakoti, 37 ára, kvæntur og átti S börn; Jón Árnason unglingspiltur í Þórðarkoti, 17 ára; Jón Guðmundsson húsmaður á Litlu-Háeyri, 59 ára, kvæntur og átti 3 börn; Oddur Snorrason húsmaður í Einkofa, 48 ára, kvæntur og átti börn; Ólafur Björgólfsson húsmaður í Sölkutóft, 46 ára, kvæntur og átti einn son á lífi, og Sigmundur Teitsson húsmaður á Litlu-Háeyri, 31 árs, kvæntur.
Þennan dag var sjór brimaður þegar um morguninn og þótti síður en ræðislegt á Eyrarbakka og Stokkseyri. Eigi að síður ýttu þá þrjú skip frá Eyrarbakka og komust með naumindum út slysalaust, en allir aðrir töldu ófæran sjó. Þegar upp á daginn kom, brimaði enn meir, svo að tvö skipin töldu ófært að ná lendingu á Eyrarbakka og hleyptu vestur til Þorlákshafnar og lentu þar. En þriðja skipið, er Sveinn Arason var fyrir, hélt til sinnar lendingar samt sem áður, enda fórst það þar á sundinu og allir mennirnir drukknuðu.[note]Þjóðólfur 10. maí 1870.[/note]
Í bréfi, sem Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri ritaði viku síðar bróðurdóttur sinni, Sigríði Hafliðadóttur húsfreyju í Hjörsey á Mýrum, minnist hann á þennan atburð, eftir að hann hefir skýrt henni frá láti konu sinnar, er varð snemma á þeim sama vetri, og mælir á þessa leið: ,,Þú hefur heyrt það systir mín góð, að sjaldan er ein báran stök, og þegar ein báran rís, er önnur vís. Þann 12. þessa mánaðar sendi eg vinnumann minn suður í Reykjavík til að sækja á bakinu kaffi og sykur til páskanna. Hann er líka formaður minn, en með bátinn átti að vera á meðan, ef róið yrði, Sveinn Arason frá Simbakoti. Það var einn hásetanna. En daginn eftir, þ. e. 13. þ.m., miðvikudaginn fyrir skírdag, reri nefndur Sveinn og fleiri. Hann með öllum hásetum Magnúsar míns drukknaði þann dag, en hinir, sem reru, flúðu til Þorlákshafnar. Svo þegar Magnús minn kom að sunnan, voru hásetar hans allir drukknaðir, en báturinn kominn mölbrotinn til hafs. Svona er lífið og lífskjörin, skepnan mín!
Ver til friðs, minn vinur góður, –
við mig dauðinn þannig tér, –
þótt gjöri eg í þínum garði rjóður,
guðs befalning þetta er.
Saknaðar þó svíði und
sáran allt að hinzta blund,
þú verður að líða eins og aðrir,
þó af eg svíði þínar fjaðrir. [note]Blanda VIII, 311-312. – Í tilefni af skiptapa þessum spannst blaðadeila nokkur milli Þórðar Jónssonar á Eyrarbakka og Jóns Pálssonar bankagjaldkera í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins 24. des. 1937 og 20. febrúar og 13. marz 1938. Er ekki ástæða til að ræða þær greinar hér, sbr. Blöndu VIII, 306.[/note]
Meðal þeirra, sem drukknuðu með Sveini í Simbakoti var unglingspiltur, Jón Árnason í Þórðarkoti. Er sagt hann hafi kviðið mjög fyrir vertíðinni og beðið föður sinn að lofa sér að hætta við að róa á þessu skipi. En karl aftók það með öllu, og fór Jón í verið sárnauðugur.
Það er einnig í frásögur fært, að Jón Jónsson á Litlu-Háeyri hafi verið búinn að ráða Helga, son sinn, sem þá var unglingspiltur, í skiprúm hjá Magnúsi Ingvarssyni þessa vertíð. Skömmu fyrir vertíðarbyrjun var Jón að láta út kindur í birtingu einn morgun og rak þær á beit fram í fjöru. Hann átti leið skammt frá skipinu. Þá sýndist honum allir hásetarnir, sem ráðnir voru á skipið, standa umhverfis það, eins og þeir ætluðu að fara að setja það fram, nema Helga sá hann ekki og ekki heldur Magnús formann. Við þessa sýn setti þann geig að Jóni, að hann fekk Helga lausan úr skiprúminu.
1881. Þetta ár hlekktist á tveimur skipum á Stokkseyrarsundi og 5 menn drukknuðu. Hinn 26. marz varð sexæringur með 5 manna áhöfn fyrir áfalli á sundinu. Formaður var Ísleifur Vernharðsson barnakennari á Efra-Seli. Kom sjór á þá á sundinu, svo að skipinu hálfhvolfdi, en þrír af hásetum hrutu útbyrðis, og náðist ekki til þeirra. Þessir menn voru: Kjartan Einarsson húsmaður í Útgörðum, 38 ára, kvæntur og átti börn; Vigfús Jónsson bóndi á Heylæk í Fljótshlíð, bróðir Vernharðs á Seli, og Þórður Eiríksson bóndi í Vetleifsholti í Holtum, 26 ára. Formanni og einum háseta var bjargað.
Síðara slysið varð 28. maí. Þá hlekktist á fjögramannafari með 5 manna áhöfn. Formaður var Einar Einarsson, síðar í Garðhúsum á Stokkseyri, bróðir Kjartans í Útgörðum. Þegar þeir voru að fara inn sundið, kom sjór á þá og sópaði burt árum og keipum á bakborða og mönnunum með. Drukknuðu þar þessir tveir menn: Þórður Grímsson bóndi á Stokkseyri, 50 ára, kvæntur og átti einn son, og Ólafur Guðmundsson vinnumaður í Gerðum, 30 ára. Hinum mönnunum þremur tókst að bjarga sér í land.
Einn þeirra manna, sem voru á sjó frá Stokkseyri þennan dag, Jón Pálsson frá Syðra-Seli, hefir lýst veðurfari og sjólagi því, sem þá var, svo og umræddu slysi á Stokkseyrarsundi á þessa leið: „Vorið 1881, hinn 28. maí, var nýútsprungið tungl og því hádegis-ginfjara þá um daginn. Sjómenn fóru í maðkasand að vanda, en gerðu sér· ekki miklar vonir um að finna svo mikinn maðk sem nægði á kastið í það sinn, því Leiran var uppurin mjög frá fyrri fjörum. En þá brá svo við, að maðkurinn óð uppi, og höfðu menn á mjög skömmum tíma aflað meiri maðks en þörf var á til róðursins þá um daginn, og leizt þeim ekki á blikuna, því sú var gömul trú manna og enda reynsla, að þegar maðkurinn var svona óvenjulega ör, þá gaf sjaldan með hann, svo að gagni yrði. Sú varð og reyndin á í þetta sinn. Að vísu var ekkert athugavert við sjóveðrið. Sjórinn var lygn og ládauður, en loft alldrungalegt, eins og oft á sér stað í lognmollutíð á vorum. Lóðir voru því beittar í skyndi og skotizt út með kastið, en er að því var komið að draga lóðirnar inn aftur, fór sjóinn að ókyrra allört. Flest brimaukaeinkenni fóru að gera vart við sig: Drjúg undiralda, dráttarsog og straumiðudiskar strekktu í lóðirnar, purpuralitar marglittutágar flæktust um árablöðin, og allur varð sjórinn rauðflekkóttur, eins og blóðvöllur væri. Fallið jókst afskaplega og varð nærri óviðráðanlegt, svo að langt bar af leið, meðan lóðirnar voru teknar inn, og var þó blæjalogn. Bátar allir, er úti voru, leituðu lands, svo fljótt sem unnt var, og reru upp að sundunum, og komust aðeins tveir þeirra inn úr slyndrulaust, á slettingslögum. Þriðja bátnum, með 5 mönnum, barst á þannig, að þeir tveir, er reru bakborðsmegin, festu árarnar í sjónum, sem sópaði þeim sjálfum með hástokkum og ræðum útbyrðis og skolaði þeim út í brimgarðinn, án þess nokkurt viðlit væri að bjarga. Hinir tveir, sem á stjórnborða sátu, áttu nú úr vöndu að ráða, þar sem ræðin af hinu borðinu, svo og árarnar, voru flotin útbyrðis og þeir staddir úti á miðju sundinu, albrima. Tók þá annar þeirra, Torfi Jónsson frá Seli, til þess snjallræðis, sem lengi mun í minnum haft, að hann lagði ár sinni út á hert borðið og reri við kné sér inn úr sundinu og bjargaði þannig sjálfum sér og félögum sínum frá bráðum og bersýnilegum dauða. – Hinir bátarnir allir lögðu frá til Þorlákshafnar og lentist þar vel, þrátt fyrir það að þar var einnig stórbrim. Er mörgum enn í minni, hve há og hrikaleg aldan var á leiðinni út í Þorlákshöfn, einkum úti fyrir mynni Ölfusár, því að hún huldi langsamlega hæstu fjöll, og var djúp lægð í kollinum á þeim flestum.“[note]Austantórur Il, 159-160. [/note]
1883. Hinn 9. marz fórust 5 menn á Einarshafnarsundi, en öðrum skipverjum var bjargað. Brim var komið, er þeir lögðu á sundið, og hvolfdi skipinu í lendingunni. Þar drukknaði formaðurinn Sigurður Gamalíelsson í Eyvakoti, 48 ára, kvæntur og átti eina dóttur, og með honum þessir menn: Gunnar Bjarnason húsmaður á Skúmsstöðum, 30 ára, kvæntur og átti tvö börn; Ólafur Ólafsson bóndi í Kambi í Holtum, 35 ára, kvæntur og átti 3 börn; Stefán Þórðarson vinnumaður í Götu í Hvolhrepp, 21 árs, og Þorkell Pétursson húsmaður í Eyvakoti, 32 ára, nýkvæntur og nýfluttur til Eyrarbakka.[note]Ísafold 21. marz og Þjóðólfur 31. marz telja slys þetta ranglega 10. s. m.[/note] Dóttir Sigurðar formanns var Elín, kona Kristjáns Jóhannessonar verzlunarstjóra á Eyrarbakka.
1886. Hinn 21. apríl fórst áttæringur á Rifsósnum á Eyrarbakka. Formaður á honum var Sæmundur Bárðarson í Garðbæ. Meðal þeirra, sem drukknuðu, voru þessir 6 menn: Sæmundur formaður í Garðbæ, 38 ára, kvæntur og átti tvö börn; Bjarni Eiríksson vinnumaður á Rauðalæk í Holtum, 19 ára; Filippus Eiríksson vinnumaður í Hamrahól í Holtum, 21 árs; Guðjón Jónsson vinnumaður í Vestri-Kirkjubæ á Rangárvöllum, 18 ára; lík hans rak úti í Selvogi snemma í júní; Sigurður Sigurðsson vinnumaður í Norðurkoti á Eyrarbakka, 24 ára, og Stefán Stefánsson gullsmiður á Skúmsstöðum, 33 ára, kvæntur og átti börn.
Í samtímaheimildum segir, að í skiptapa þessum hafi farizt 10 menn, og verður það vitanlega ekki rengt, enda skipið talið áttæringur.[note]Ísafold 28. apríl og Þjóðólfur 30. apríl 1886, sbr. Sunnudagsblað Alþýðublaðsins 20. febr. 1938.[/note] En í dánarbálkum prestsþjónustubóka af öllu Suðurlandi hefi eg ekki fundið fleiri en þá, sem hér eru taldir. Hinir munu ekki hafa verið færðir í bækur, vegna þess að þeir hafa ekki hlotið greftrun.
Einn af hásetum Sæmundar þessa vertíð var Gizur Bjarnason söðlasmiður í Garðbæ, síðar bóndi á Litla-Hrauni. Daginn sem skipið fórst, hafði hann fengið sig lausan til þess að komast á stranduppboð í Þorlákshöfn, og varð það honum til lífs.
1887. Hinn 24. febrúar urðu 4 skip frá Stokkseyri og Eyrarbakka að hleypa til Þorlákshafnar vegna brims og veðurs. Formaður á einu þeirra var Bjarni Pálsson í Götu í Stokkseyrarhverfi. Barst skipi hans á í lendingunni, og drukknuðu 6 menn, en einum varð bjargað. Þar fórust þessir menn: Bjarni Pálsson organleikari og kennari í Götu, 29 ára, kvæntur og átti 6 börn á lífi; Páll Jónsson bóndi á Syðra-Seli, faðir Bjarna, 54 ára, kvæntur og átti 6 börn á lífi; Sigurður Jónsson silfursmiður í Meðalholtum, 24 ára; Guðmundur Jónsson bóndasonur frá Meðalholtum, bróðir Sigurðar, 19 ára; lærði söðlasmíði; voru þeir bræður og Bjarni formaður systkinasynir; Guðmundur Hreinsson frá Hjálmholtskoti, 17 ára, og Halldór Álfsson frá Bár í Flóa, 23 ára.
Sjónarvottur að slysi þessu, Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli, hefir lýst nánari atvikum að því á þessa leið: „Þennan dag var allhvass norðaustan- og austansjór, úrkomulaust og að mestu bjart veður. Þegar svo viðrar, er oft hornriðahára til djúpanna, og dregur báru þessa stundum inn í Þorlákshafnarvíkina, svo að lendingin getur orðið þar slæm, jafnvel þó lítið sé brim á Eyrarbakka og Stokkseyri, og verjast sundin á Eyrarbakka henni öllu lengur. En þennan dag brimaði svo á báðum stöðum, að sundin urðu ófær; en nokkur skip voru á sjó, og leituðu 4 þeirra nauðhafnar í Þorlákshöfn, eins og oft bar við fyrr og síðar, hið fyrsta frá Eyrarbakka, formaður Jón Jónsson frá Skúmsstöðum, annað frá Stokkseyri, formaður Einar Jónsson. Þegar þessi tvö skip lentu, var nálægt stórstraumsfjöru og aðstaða til lendingar því hin óhagstæðasta, en með því að vertíð var naumast byrjuð í Þorlákshöfn, var þar enginn á sjó og því fjöldi manna tilbúinn að veita þeim aðstoð, svo að ekkert varð að sök Þegar Bjarni kom nokkru síðar, var aðfall komið og aðstaða til lendingar nokkuð betri að sumu leyti, en þó komu ennþá mjög vond ólög, en milli þeirra komu stutt, en sæmilega góð lög, svo að lenda mátti vel menntum skipum með snarræði. Þegar þeir komu nærri lendingunni, var því veitt eftirtekt, að þeir voru á fremur litlu sexmannafari, og samtímis vitnaðist það, að þeir voru seglalausir og höfðu því orðið að róa alla leið frá Stokkseyri og því að eðlilegum hætti orðnir allþreyttir eftir þennan langa róður undir „flatskellu“ að mestu leyti, og voru því margir milli vonar og ótta um það, hversu til tækist. Viðstaddir voru í lendingunni flestir formenn, og höfðu nokkrir hinir fremstu þeirra alla stjórn á því, sem tiltækilegt þótti að gera. Bjarni stanzaði á réttum stað utan við lendinguna, en þegar lag kom, sem tiltækilegt þótti að nota, var honum veifað til landróðurs, sem þurfti að vera sterkur og öruggur. En strax var það auðséð á róðrinum, að mennirnir voru örmagna af þreytu og róðurinn linur, eins og við mátti búast, enda fór svo, að stórt ólag náði bátnum á hættulegasta stað og hvolfdi honum og allir mennirnir losnuðu við hann, 7 að tölu, hvar af 6 drukknuðu, eins og áður er sagt. – – Sjöunda manninum kastaði sjór upp á ytri endann á svonefndri Norðurhellu, og hlupu þá þeir, sem næstir voru, þangað, en fljótastur varð Snjólfur Jónsson, og um leið og hann kom þangað, greip hann um fót Snjólfi; var maðurinn strax borinn heim á heimili Jóns Árnasonar dbrm. og veitt þar aðhjúkrun, enda hresstist hann von bráðar. Maður þessi var úr Skaftafellssýslu, en nafn hans man eg ekki. Einn náðist litlu síðar, Halldór Álfsson, en allar lífgunartilraunir urðu árangurslausar.
Margir töldu, að það hefði verið vanræksla, að ekki var valið úr duglegasta fólkið út á eitt skip undir öruggri formennsku og lagi sætt að fara út og taka hina sjóhröktu menn úr bátnum, og hefði það sennilega heppnazt. Eg heyrði á tal hinna fremstu formanna, sem hörmuðu það mjög, að þetta var ekki gert, og töldu það mikið hugsunarleysi, en afsökun höfðu þeir þá, að skipshöfn sú, er lenti skömmu á undan, er var einnig frá Stokkseyri, hafði ekki sagt í tíma frá því, hvernig ástatt var, og svo voru lendingarhentugleikar einnig að batna. Um þetta slys, er svona bar að, mátti segja, að sannaðist máltækið: „Dregur til þess, sem verða vill.“
Nokkru síðar um daginn lenti fjórða skipið frá Stokkseyri, formaður Magnús Þorsteinsson frá Kolsholtshelli, og var þá komin nærri háflæði og lending orðin sæmilega góð.[note]Þorlákshöfn I, 47-50.[/note]
Jón hreppstjóri á Hlíðarenda, föðurbróðir Bjarna í Götu, segir svo frá, að Bjarni hafi nær undantekningarlaust spurt sig mjög nákvæmlega, er fundum þeirra bar saman, um lendinguna í Þorlákshöfn, hvar ætti að leggja til laga og hvaða merki ætti að hafa til að velja lag í vörina. Við eitt slíkt tækifæri hafði hann orð á því við Jón, að hann hefði hugboð um, að koma mundi það fyrir sig einhvern tíma á ævinni, að hann þyrfti á því að halda að vera sannfróður um þetta. Jón segir og, að sér hafi verið sagt af öllum, sem bezt höfðu vit á því, að hann hefði legið til laga og lagt í vörina, eins og hver annar alvanur formaður hefði gert það bezt.[note]Sama rit Il, 44.[/note]
Eins og hér er gefið í skyn, hafði Bjarni grun um það, að hann mundi ekki verða langlífur og mundi drukkna í sjó. Sagði hann stundum, að hann mundi verða gamall maður, ef hann næði 30 ára aldri, en til þess skorti hann tæpa 4 mánuði, er hann fórst. Mun honum þó hafa boðið meir í hug, að þessu aldursmarki næði hann ekki, eins og eftirfarandi sögur bera vitni um, en heimildarmaður er sonur Bjarna, Friðrik tónskáld í Hafnarfirði.
Bjarni var formaður á vetrarvertíð og svaf þá á næturnar í verbúðinni hjá hásetum sínum, og var þetta siður sumra formanna af barnmörgum heimilum, því að oft var kallað til róðra kl. 3-4 að morgni og stundum fyrr, er út á leið. Eitt sinn að kvöldi dags kom kunningi Bjarna í búð hans, og var Bjarni þá háttaður. Annar fóturinn stóð út undan sænginni, og segir þá komumaður: „Mikið er nettur á þér fóturinn, Bjarni minn, Bjarni segir þá: „Já, en hann á nú líklega eftir að vökna í sjónum.“
Eitt sinn var Bjarni á gangi á sumardaginn fyrsta með kunningja sínum úti á Gerðatúni og bar þá að garði, þar sem undir hvolfdi sexróinn bátur, er Bjarni átti. Þá segir hann: „Mikið þykir mér vænt um þennan bát. Eg held, að hann verði líkkistan mín.“ Þetta reyndist spámæli, því hann var á þessum sama bát, þegar hann fórst.
Þegar Jón á Hlíðarenda kvæntist Þórunni Jónsdóttur í Þorlákshöfn 7. nóv. 1879, var Bjarni þar í brúðkaupsveizlu þeirra, en hann var gleðimaður mikill og söngmaður með ágætum. Þarna voru veitingar góðar og gleðskapur mikill. Er liðið var nokkuð á veizlufagnaðinn, verður Bjarni dapur í bragði. Kom þá Jón og spurði, hvað ylli ógleði hans. Bjarni svarar: „Komdu út með mér.“ Þeir fóru út og gengu niður að sjó. Leiðin var stórgrýtt og svartamyrkur var á. Bjarni hnaut um stein, og segir þá Jón: ,,Hvert viltu fara, frændi? Bjarni svarar: „Eg vil koma niður í Norðurvör; eg held eg eigi eftir að koma þangað seinna.“ Þetta reyndist einnig svo. Það var í Norðurvörinni, sem bátur hans fórst.
Það er enn til marks um feigðargrun Bjarna, að sumarið áður en hann drukknaði, fór hann til Reykjavíkur og keypti sér 1000 króna lífsábyrgð, en slíkt var þá fátítt. Hann hafði borgað í aðeins eitt skipti 9 kr. 31 eyri. Fyrir það fekk dánarbú hans alla líftryggingarupphæðina, og var það mikið fé í þá daga.
Síðasta skiptið, sem Bjarni lék á orgel við messu í Stokkseyrarkirkju, var sunnudaginn 20. febrúar, fjórum dögum áður en hann drukknaði. Hann var vanur að velja lögin, sem sungin voru, og svo var einnig þá. Að þessa sinni valdi hann mjög dapurlega sálma, og útgöngusálmurinn var nr. 97 í sálmabókinni:
Það er svo oft í dauðans skuggadölum,
að dregur myrkva fyrir lífsins sól, o. s. frv.
Þótti mönnum eftir á sem þetta hefði verið fyrirboði hinna sviplegu tíðinda og varð allfrægt.
Nokkrir fyrirburðir urðu í sambandi við slys þetta, og verður hér fárra getið. Í sjóbúð Þorkels Þorkelssonar frá Óseyrarnesi, sem var þá formaður í Þorlákshöfn, sváfu þeir næst dyrum Þorkell formaður vinstra megin, er inn var gengið, en Oddgeir Vigfússon Thorarensen háseti hægra megin: Oddgeir hafði verið nokkur ár í Hjálmholtskoti, og hafði Guðmundur Hreinsson, sem áður er getið, að drukknaði með Bjarna, því að nokkru leyti alizt upp með honum og þeir verið mjög samrýndir. Um nóttina fyrir slysið bar hið sama fyrir þá báða Þorkel og Oddgeir, en ekki fleiri menn í sjóbúðinni. Fyrst kom mikið högg í búðarhurðina, líkast eins og kastað væri í hana stórum steini, sterkt ljós glampaði í glugga yfir rúmi Oddgeirs, og samtímis heyrðu báðir hljóð, líkast neyðarópi, úr þeirri átt, sem að sjónum vissi.
Þegar bátnum hvolfdi í vörinni seinna um daginn, var Oddgeir þar áhorfandi eins og aðrir. Þekkti hann þá Guðmund Hreinsson tilsýndar og sá hann taka sundtök strax, og það gerði Guðmundur Jónsson einnig, enda mun hann hafa verið sæmilegur sundmaður. En báturinn morraði fullur af sjó, slóst til og lenti á þeim nöfnum, og gáfu þeir þá annar hvor frá sér hljóð nákvæmlega eins og þeir Þorkell og Oddgeir höfðu heyrt um nóttina.[note]Þorlákshöfn I, 51-52.[/note]
Jón Gíslason í Meðalholtum missti í skiptapa þessum sonu sína tvo, Sigurð og Guðmund, framúrskarandi efnismenn, systurson sinn, Bjarna í Götu, og mág sinn, Pál á Syðra-Seli. Aðfaranótt slysdagsins dreymdi Jón, að komið væri mikið illviðri og stórsjór og mikið brimhljóð. Jafnframt heyrði hann einhverja rödd segja: „Hafið þið segl, hvar er seglið?“ og var þetta endurtekið. Leið honum mjög illa í svefninum, meðan á þessu stóð, en svo hætti þetta. Heyrir hann þá fagran sálmasöng, svo að hann þóttist aldrei hafa fegri heyrt, og var sunginn sálmurinn: Af himnum ofan boðskap ber. Hann hlustaði lengi á þennan fagra söng, þar til er hann vaknaði. Daginn eftir, hinn 25. febrúar, kom sóknarprestur hans, síra Páll Sigurðsson í Gaulverjabæ, og tilkynnti honum mannskaðann. Jón Gíslason lifði 20 ár eftir þetta, en aldrei fyrntist honum sonamissirinn.
Hólmfríður Jónsdóttir, tengdamóðir Þorsteins Gíslasonar á Meiðastöðum, var vinnukona á Syðra-Seli, þegar Páll bóndi drukknaði með Bjarna, syni sínum. Daginn, sem slysið varð, var Hólmfríður sem oftar stödd fram í eldhúsi á Syðra-Seli. Sá hún þá Pál og alla skipshöfn Bjarna koma inn göngin í skinnklæðunum. Henni brá nokkuð við og leit frá í svip, en er hún leit til aftur, sá hún engan mann. Hólmfríður sagði oft frá þessu síðar, en hún var bæði sannorð kona og vönduð. Mér sagði Una Þorsteinsdóttir frá Meiðastöðum, dótturdóttir Hólmfríðar.[note]Um slys þetta sjá m. a.: Fjallkonan 28. febr., Ísafold 2. marz og Þjóðólfur 4. marz 1887; Minningarrit um mannskaðann við Þorlákshöfn 24. febr. 1887, Rvík 1888; Vísir 25. febr. 1937 (Í dag fyrir 50 árum o. s. frv.); Sunnudagsblað Alþýðubl. 7. marz 1937 (Dularfulla ljósið); Þorlákshöfn I, 47-53; Il, 44 (Endurminningar Jóns á Hlíðarenda); Austantórur II, 108-111.[/note]
1890. Hinn 12. apríl barst á skipi á Rifsósnum á Eyrarbakka með 10 mönnum. Drukknuðu 3 menn, en hinum varð bjargað. Formaður á skipinu var Jón Jónsson frá Fit undir Eyjafjöllum, trésmiður í Garðbæ á Eyrarbakka. Mennirnir, sem fórust, voru þessir: Eiríkur Arnbjörnsson gullsmiður í Garðbæ, 33 ára, kvæntur og átti einn son; Guðmundur Árnason bóndi á Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum, 39 ára, kvæntur og átti einn son, og Jónas Einarsson lausamaður á Eyrarbakka, 37 ára, ókvæntur.
Sjónarvottur á Eyrarbakka ritaði lýsingu á slysi þessu nokkrum dögum síðar, og segizt honum svo frá: „Laugardaginn 12. þ. m. reru 7 skip á Eyrarbakka. Brim var mikið. Af þessum 7 skipum lentu hér tvö með heilu og höldnu. Formenn á þeim voru Sigurður Gíslason og Magnús Magnússon í Sölkutóft. Formaðurinn á þriðja skipinu, er lagði á brimsundið, var Jón Jónsson frá Fit. Áður en hann var kominn inn á brimsundið, tók sig upp sjór fast aftan við skipið og féll mjög inn í það, svo að hér um bil fyllti, og rétt í sama vetfangi sló öðrum sjó yfir skipið, svo að sjór rann út og inn. Formaður sat undir stýri og gat haldið skipinu í réttri rás. Varð það til hjálpar, að svokölluð hjálparól var spennt í stýrið, og hamlaði hún því að hrökkva upp af. Nokkrir af skipverjum munu hafa losnað við skipið, en þó á einhvern hátt komizt að því aftur. Skipið fór aldrei af kjöl, og hélt formaður því í réttri stefnu, allt þangað til hjálp kom. Úr landi sást aðeins á stafna skipsins á milli stórsjóanna.
Magnús formaður, sem fyrr er getið, var kominn inn úr sundinu fyrir stundarkorni, þegar slysið varð, og þegar hann sá, hvað um var að vera, reri hann þegar út til þeirra, sem í háskanum voru staddir, og tókst honum með dæmafáu snarræði og dirfsku að ná 8 mönnum. Annað skip setti þegar fram úr landi, en fékk eigi náð þeim tveimur, sem vantaði, enda munu þeir hafa verið drukknaðir, áður en Magnús reri frá skipinu. Þrátt fyrir það þó Magnús reri allt hvað af tók að landi með hina björguðu menn, reyndist þó einn þeirra andaður. Þrátt fyrir allar lífgunartilraunir, sem gerðar voru eftir ráðum faktors P. Nielsen og kaupmanns Guðmundar Ísleifssonar, sáust engin merki til lífs, enda var það álit læknis, sem kom hingað 5½ klukkustund eftir að slysið varð, að maðurinn hefði verið dáinn fyrir þann tíma, að hann hefði komið á land. Maður þessi var gullsmiður Eiríkur Arnbjarnarson, ungur og efnilegur, lætur eftir sig konu og eitt barn. Hann hafði tryggt líf sitt fyrir ári síðan með 500 krónum. – –
Lýsi eða olíu hafði Jón með sér, þegar slysið varð, en af einhverjum orsökum mun það ekki hafa verið notað, enda þótt formaður hefði afhent olíukútinn einum háseta sinna, áður en hann lagði á sundið eða tók brimróðurinn. Nokkru seinna um daginn náðist skipið lítið laskað fyrir ötulleik Magnúsar, þess er bjargaði. Farviður mestallur fannst lítt skemmdur. Hin 4 skipin, sem reru þennan dag, leituðu lands í Þorlákshöfn og lentu þar öll kl. 7 um kvöldið með heilu og höldnu.
Við björgun þessa sýndi oftnefndur Magnús staka dirfsku og snarræði, því bæði var það, að sjór var mjög slæmur og staður sá, sem slysið varð á, mjög hættulegur, svonefndur „Þyrill“ á Rifsósi. Það virðist vera þarft að launa á
einhvern hátt björgun eins og þessa, þar sem svo má að orði kveða, að líf 20 manna sé komið undir snarræði og fyrirhyggju formannsins.[note]Ísafold 23. apríl 1890, sbr. Þjóðólf 18. apríl og Fjallkonuna 22. apríl, þar sem segir eftir bréfi frá Eyrarbakka, að Eiríkur hafi náðst með litlu lífsmarki og dáið um nóttina eftir. Sjá enn fremur Þingb. Árn. 30. apríl 1890.[/note]
1891. Þetta ár urðu tvö sjóslys í Stokkseyrarhreppi. Á vetrarvertíðinni fórst skip frá Stokkseyri með 9 mönnum og á vorvertíðinni drukknaði einn maður úr Hraunshverfi.
Hinn 25. marz varð hörmulegt slys á Stokkseyri, er Sigurður Grímsson bóndi og meðhjálpari í Borg í Hraunshverfi fórst á Músarsundi með allri áhöfn, 9 mönnum. Mennirnir, sem fórust, voru þessir: Sigurður Grímsson formaður í Borg, 37 ára, kvæntur og átti eina dóttur; Erlendur Einarsson vinnumaður í Arnarbæli í Grímsnesi, 26 ára; Guðmundur Vigfússon vinnumaður á Stóra-Hofi í Eystrihrepp, 24 ára; Jóhannes Guðmundsson vinnumaður í Borg, 35 ára; Jón Hannesson fyrirvinna í Haukadal á Rangárvöllum, 25 ára; Jónas Jónasson vinnupiltur í Borg, 17 ára; Kristján Gíslason vinnumaður á Vatnsleysu í Biskupstungum, 33 ára; Sveinbjörn Filippusson bóndasonur frá Stekkum í Flóa, 37 ára, kvæntur, og Þorsteinn Þorsteinsson bóndasonur frá Reykjum á Skeiðum, 22 ára. Skip Sigurðar var tíróið og áhöfnin venjulega 11 menn, en tveir af hásetum hans voru ekki með í þessum róðri, annar var veikur um morguninn, hinn hafði Sigurður lánað öðrum formanni. Varð þetta mönnunum til lífs, en á hinn bóginn er óvíst, að svona illa hefði farið, ef skipið hefði verið fullmannað þennan dag. Til þess bendir það, að Sigurður lét Jónas vinnupilt sinn stýra, óvanan slíkum vanda, en fór sjálfur undir árina hjá honum við sundið.
Um slys þetta varð mikið umtal, og lagðist það orð á, að formenn, sem nærstaddir voru, bæði á sjó og landi, hefðu sýnt vítaverða vanrækslu um björgunartilraunir. Settur hreppstjóri, Guðni Jónsson á Háeyri, ritaði því sýslumanni um málið, en hann brá við skjótt og hélt tvö þing um það á Stokkseyri 28. og 31. marz. Yfirheyrðir voru 4 formenn: Páll Þórðarson í Brattsholti, Bjarni Jónsson í Símonarhúsum, Pálmar Pálsson á Stokkseyri og Benedikt Benediktsson í Íragerði og enn fremur 6 hásetar af skipi Páls og aðrir 6 af skipi Benedikts. Að þeirri rannsókn lokinni féll mál þetta niður, án þess að kveðinn væri upp í því neinn dómur eða úrskurður. Nánari frásögn af slysinu, sem hér fer á eftir, er byggð á vitnaleiðslum, sem skráðar eru í Þingbók Árnessýslu fyrrnefnda daga.
Veður var ískyggilegt um morguninn þennan dag, stinningsvindur, þykkt loft og töluvert frost. Var þó róið á Stokkseyri og á Loftsstöðum, en ekki á Eyrarbakka. Þegar fram á daginn kom, hríðversnaði veðrið og gerði háarok á útnorðan með hörkufrosti og mikið brim. Skipin frá Stokkseyri höfðu farið í síðara róður austur með landi og fengu erfiðan barning heim. Segir ekki af einstökum formönnum fyrr en um þær mundir, sem slysið varð. Tveir formenn þeir Pálmar á Stokkseyri og Bjarni Þorsteinsson í Hellukoti, voru þá í landi og sáu skiptapann, en þó ógerla fyrir særoki. Af þeim, sem á sjó voru, héldu þeir Benedikt í Íragerði og Páll í Brattsholti til lands næst á undan Sigurði í Borg. Fóru þeir Músarsund og komust klakklaust inn úr því. Þeir sáu báðir til ferða Sigurðar. Þegar Benedikt var nýkominn inn fyrir, sá hann skip Sigurðar á sundinu. Kom þá á það ólag mikið, svo að það kastaðist upp á austurboðann og á skerin. Reið þá hver stóraldan á fætur annarri á skipið, og hvolfdi því á þriðja sjó. Sá hann skipið á hvolfi og víst 6 menn á kili. Hann lagði þá til baka í því skyni að reyna að bjarga, en enginn vegur var að komast að skipi Sigurðar á skerjunum þar sem það var nú. Páll í Brattsholti, sem farið hafði á sundið næstur á undan Sigurði, hafði dokað við fyrir innan það, er hann sá slysið, og kom Benedikt þar að skipi hans. Reið þá yfir ólag mikið, og er því var slotað, sáust enn 2 menn á kili og skipið komið af skerjunum. Kölluðust þeir nú á Benedikt og Páll og báru saman ráð sín, hvort tiltækilegt væri að reyna að ná mönnunum. En þeim og hásetum þeirra öllum kom saman um, að það væri bersýnilegur lífsháski, og jafnvel þótt takast mætti að brjótast út úr sundinu, væri því vafasamara, að þeir næðu aftur til lands. Síðan lögðu þeir í land. Báru þeir sig saman við formennina, sem þar voru, Pálmar og Bjarna í Hellukoti, og virtist þeim einnig, að ekkert vit væri í að stofna mörgum mönnum og skipi í háska og óvissu um að geta veitt nokkra hjálp, jafnvel þótt reynt væri að senda út Skip úr landi með óþreyttum mönnum. Um orsök slyssins hugði Benedikt, að Sigurður hefði eigi beitt nóg vestur í, en taldi þó erfitt um það að segja vegna brims og veðurofsa.
Næsti formaður, sem kom að sundinu eftir að slysið varð, var Bjarni Jónsson í Símonarhúsum, og var það nær klukkustund síðar. Þegar hann var fram undan Kumbaravogi á leið að austan, þar sem hann lagði lóðir sínar, sá hann eitthvað standa upp úr sjónum og hélt það væri stórfiskur. En þegar hann var kominn framundan Eystra-Íragerði, sá hann, að þetta voru menn, og þóttist hann vita, að þeir mundu vera á kili, þótt eigi sæi hann skipið. Menn þessir voru langt úti á djúpi. Eigi kvaðst Bjarni með nokkuru móti hafa treyst sér til að bjarga mönnunum, því að skipverjar hans hefðu verið orðnir mjög þreyttir að berja móti veðrinu. Hann hefði ekki séð nokkurn veg, að hásetar hans gætu dregið í land, ef hann slægi svo langt undan til hafs. Síðast sá hann mennina, þegar hann kom að Músarsundi. Þá var lag á sundinu, og komst hann klakklaust í land. Bjarni kvaðst ætla, að eigi hefði tekið meira en hálfa stund fyrir vel mannað skip með óþreyttum hásetum að komast út til mannanna á kilinum frá Músarsundi, er hann var þar.
Þess var áður getið, að tveir af hásetum Sigurðar í Borg reru ekki með honum slysdaginn. Um morguninn kom Jón í Holti til Sigurðar og bað hann að lána sér mann. Tveir menn, sem róið höfðu hjá Jóni áður, Guðmundur Vigfússon og Jóhannes Guðmundsson, buðust til að fara, en hvorugur fór þó, en í staðinn fór til Jóns Guðni Gestsson frá Forsæti. Hinn hásetinn, sem reri ekki með Sigurði, var Arnbjörn Arnbjörnsson frá Gerðum í Flóa. Hann var veikur um morguninn, en þegar Sigurður fór í síðara róðurinn, kom Arnbjörn niður að skipi og bauðst til að fara með. Sigurður kvað þess ekki þurfa. Fór Arnbjörn þá heim til að ná í föt, en þegar hann kom aftur, var Sigurður kominn út á fjörur. Arnbjörn reri hjá Jóni Guðmundssyni á Gamla-Hrauni það sem eftir var vertíðar.[note]Sögn Daníels Arnbjarnarsonar í Björgvin.[/note]
Hinn 15. maí missti Jón Guðmundsson formaður á Gamla-Hrauni út mann á Hraunssundi, og drukknaði hann. Maður þessi var Eyjólfur Eyjólfsson húsmaður í Framnesi, 25 ára, ókvæntur, en átti einn son. Hann var einkasonur Ásu Símonardóttur frá Gamla-Hrauni, og voru þeir Jón systrasynir. Jón var vanur að róa að heiman á vorin á fjögramannafari við 6. mann.
Þennan umrædda dag leit ekki út fyrir sjóveður, og leyfði Jón því tveimur hásetum sínum að fara út á Bakka um morguninn. Nokkru eftir að þeir voru farnir, skánaði þó ofurlítið í sjóinn, svo að Jón ákvað að róa, enda þótt þeir yrðu ekki nema 4 á bátnum. Róðurinn gekk vel, og sjór fór batnandi með aðfallinu, en var þó enn viðsjáll á sundunum. Á leiðinni í land fékk Jón sjó á sig á Hraunssundi. Reis hann skyndilega upp fyrir aftan bátinn og reið svo snöggt yfir, að ekkert varð að gert. Varð þar Eyjólfur fyrir honum, og tók hann árina og keipinn og manninn með í einu vetfangi og hreif með sér. En það var talið valda, að Eyjólfur hafði ekki verið nógu fljótur að kippa inn árinni, þegar sjórinn skall yfir bátinn. Enginn tök voru á að bjarga manninum.
Tvisvar áður hafði Eyjólfur verið hætt kominn á sjó. En það var gamalla manna mál, að sá sem kæmist þrisvar í lífsháska á sjó og bjargaðist af, hann þyrfti ekki að óttast það að drukkna.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 396-397.[/note]
1892. Hinn 7. nóv. hlekktist á sexæringi með 5 mönnum á Músarsundi, og drukknaði einn maður, en hinum var bjargað ásamt skipinu. Formaður var Eyjólfur Bjarnason í Símonarhúsum. Maðurinn, sem drukknaði, var Sveinn Halldórsson bóndi í Eystri-Rauðarhól, 43 ára, kvæntur og átti 3 börn.
Um morguninn reri Eyjólfur í litlu brimi, en er fram á daginn kom, hvessti á austan með stórkviku. Á sundinu kom sjór á skipið og hvolfdi því, en öllum mönnunum tókst að bjarga nema einum. Einn þeirra, sem björguðust, var þó mjög hætt kominn. Hafði hann haldið sér uppi á einni ár í næstum því hálfa klukkustund, er til hans náðist. Var hann orðinn allþjakaður, en hresstist þó samdægurs
1894. Á því ári urðu tvö sjóslys á Eyrarbakka í sama mánuði, og drukknuðu 5 menn.
Hinn 7. apríl varð skiptapi á Einarshafnarsundi, og drukknuðu 3 menn, en 7 var bjargað. Formaður á skipinu var Eiríkur Árnason bóndi í Þórðarkoti. Þessir menn drukknuðu: Oddgeir Vigfússon Thorarensen vinnumaður á Hæli í Eystrihrepp, 36 ára, ókvæntur, hafði lært trésmíði; Sigurður Árnason húsmaður í Mörk á Eyrarbakka, 34 ára, kvæntur og átti eitt barn, og Þórarinn Arnbjörnsson bóndasonur frá Selfossi, 28 ára.
Þegar slys þetta vildi til, var brimhroði töluverður og lágsjávað. Mönnunum bjargaði Magnús Magnússon í Sölkutóft, sem bjargaði Jóni frá Fit og hásetum hans, sem fyrr segir. Skip Eiríks rak til hafs og náðist ekki.[note] Sbr. Þingb. Árn. 2. marz 1895.[/note]
Hinn 11. apríl hlekktist öðrum áttæringi á á Einarshafnarsundi, og drukknuðu 2 menn, en hinum mönnunum, 8 að tölu, varð bjargað. Formaður á skipinu var Páll Andrésson bóndi í Nýjabæ á Eyrarbakka. Þessir menn drukknuðu:
Páll Andrésson formaður í Nýjabæ, 49 ára, kvæntur og átti mörg börn, og Jón Jónsson húsmaður í Réttinni (Grímsstöðum) á Eyrarbakka, 36 ára, kvæntur. Veður var sæmilegt, er þetta slys vildi til, sjór góður um flóð, en viðsjáll mjög um fjöruna. Guðmundur Steinsson formaður í Einarshöfn bjargaði öllum mönnunum, sem af komust.[note] Sjá einnig um þetta Þingb. Árn. 2. marz 1895.[/note]
1896. Hinn 19. maí lagði Bárður Diðriksson í Útgörðum, áður formaður á Stokkseyri, 51 árs, kvæntur maður, einn á báti frá landi og drukknaði á Hlaupósnum.
Um morguninn og framan af degi var allmikið brim, svo að ekki þótti fært að róa. En er á leið, hjaðnaði brimið og sjór var fær og reru menn þá. Þar á meðal var Pálmar á Stokkseyri. Bárður var háseti hjá honum, en hafði verið við drykkju, svo að Pálmar hirti ekki um að kalla hann. Nokkru seinna kom Bárður niður í vör og varð þess var, að hann hafði verið skilinn eftir. Brást hann reiður við, sótti lóðarlaup sinn, tók lítinn bát sem hann átti í fjörunni, og setti hann fram með hjálp drengja, sem nærstaddir voru. Um leið og hann sté upp í bátinn, kvað hann vísu, sem eigi verður endurtekin hér. Hann reri svo beint af augum fram í brimgarðinn og stefndi á Hlaupósinn. Innan við ósinn beygði hann af leiðinni til austurs og reri upp að boða, sem braut þar á. Féll þá brotsjór á bátinn, svo að honum hvolfdi. Þar týndist Bárður. Litlu síðar fann Jón á Gamla-Hrauni lík hans rekið vestur á Stéttaklettum, og var axlafull brennivínsflaska í vasa þess.[note] Ísl. sagnaþ. og þjóðs. II, 28; Tak hnakk þinn og hest, 76-77.[/note]
1897. Hinn 20. marz fórst skip á Músarsundi með allri áhöfn, 9 mönnum.
Formaður var Torfi Nikulásson í Söndu í Stokkseyrarhverfi, en eigandi skipsins var Jón Þórðarson formaður í Eystra-Íragerði, síðar í Traðarholti, og var Torfi á útvegi hans. Mennirnir, sem drukknuðu, voru þessir: Torfi Nikulásson formaður í Söndu, 35 ára, kvæntur og átti 5 börn ung; Bjarni Eiríksson bóndi í Túni í Flóa, kvæntur og átti 11 börn; Gísli Guðmundsson bóndi í Nýjabæ í Flóa; Ingimundur Þórðarson húsmaður í Pálsbæ á Stokkseyri, 53 ára, kvæntur; Jóhann Guðmundsson vinnumaður í Haga í Holtum, 21 árs; Jón Jónsson vinnumaður á Bjalla á Landi, 50 ára; Jón Jónsson bóndasonur frá Minna-Núpi, 21 árs; Þórður Þórðarson vinnumaður á Arnarhóli í Landeyjum, 64 ára, og Þorsteinn Stefánsson fyrirvinna á Reykjavöllum í Flóa, 29 ára.
Aðfaranótt 20. marz var gott sjóveður, og var almennt róið á Stokkseyri þann dag. Róið var suðaustur á Leirinn og ekki mjög djúpt. Þegar byrjað var að draga línuna, var komin mikil alda og sjó sýnilega farið að brima. Aldan hélt áfram að stækka, og bráðlega var flaggað með miðflagginu í landi, en það þýddi, að þeir, sem á sjó voru, skyldu flýta sér sem unnt væri, því að sjó væri að brima. Eigi leið á löngu, unz austasta flaggið kom upp, en það gaf til kynna, að menn skyldu skera á lóðirnar og koma tafarlaust í land. Höfðu formenn og hásetar þá hröð handtök og flýttu sér sem unnt var. Torfi í Söndu var vanur að fara Stokkseyrarsund, en í þetta sinn lagði hann að Músarsundi og mun hafa ætlað að fara innan skerja vestur í Stokkseyrarlendingu, líklega til að stytta sér leið. Næst á eftir Torfa og rétt í kjölfar hans kom Bjarni formaður í Hellukoti. Lágu nú bæði skipin til laga litla stund og svo nærri hvort öðru, að hægt var að talast við milli þeirra. Segir þá Bjarni: „Nú held ég sé að koma lag. Ætlar þú að taka það? Ef þú tekur það ekki, ætla ég að taka það.“ Torfi sagðist ætla að nota lagið sjálfur, því að hann átti réttinn, er hann kom fyrr að sundinu. Sagði hann nú mönnum sínum að taka róðurinn. Einkennilegt þótti þeim Bjarna, hvað þeir höfðu seint áralagið, en í brimróðri er áralag haft mjög fljótt sem kunnugt er. Þegar þeir voru komnir tæplega inn á mitt sundið, kom ólag, sem féll alveg yfir það. Þegar ólagið var riðið yfir, lá skipið flatt fyrir boðunum á miðju sundinu og virtist þá orðið stýrislaust, en mennirnir sem eftir voru í því, virtust vera meðvitundarlausir og lágu máttvana út á borðstokkinn. En það var á réttum kili. En á sama augabragði, að heita mátti, kom annað ólag, og er það var hjá gengið, var skipið komið inn úr brimgarðinum og þá á hvolfi og allir mennirnir komnir í sjóinn. Ekki voru nokkur tök á að bjarga. Þarna drukknuðu 9 menn á örfáum mínútum fyrir augum margra manna bæði þeirra, er á sjó voru og í landi. Þegar Bjarni í Hellukoti sá slysfarir þessar, sneri hann frá og fór vestur á Stokkseyrarsund og fékk þar rjómasléttan sjó að kalla mátti.
Slys þetta mun hafa orðið nokkru fyrir hádegi, en stuttu eftir að það hafði gerzt, tók sjó að lægja aftur, og reru þá öll skip í annað sinn nema Jón í Traðarholti. Hann varð eftir í landi til að leita að líkum þeirra, sem drukknuðu, og fékk sér til aðstoðar auk skipverja sinna 4 menn úr austurhverfinu, sinn mann af hverju skipi. Leituðu þeir með útfallinu fram undir brimgarð og um alla fjöruna og fundu þann dag 6 lík. Voru þau öll borin inn í Stokkseyrarkirkju. Lýsingin á slysi þessu og atvikum að því er byggð á frásögu A. J. Johnsons bankafulltrúa, sem var sjómaður á Stokkseyri þessa vertíð, og fleiri sjónarvotta.[note]Fálkinn 26. apríl 1940. [/note]
Ýmislegt kom fyrir í sambandi við slys þetta, sem athyglisvert þótti. Sigurjón Gíslason bóndi á Kringlu var ráðinn háseti hjá Torfa í Söndu þessa vertíð. En vegna einhvers óhugar, sem að honum setti, og óhapps, sem tafði ferð hans, var hann ekki kominn til skiprúms síns, er slysið varð. Þetta varð Sigurjóni til lífs.[note]Sbr. Elinborg Lárusdóttir, Í faðmi sveitanna, 135-136.[/note] Einn af hásetum Torfa hafði verið lasinn nokkra daga á undan slysinu, og reri unglingsmaður, sem ráðinn var til beitninga, í stað hans á meðan. En daginn, sem Torfi fórst, var hásetinn orðinn það hress, að hann reri með honum, en pilturinn var í landi, og skildi þar milli feigs og ófeigs.
Maður hét Vigfús Finnsson frá Haga í Eystrihrepp. Hann var rolumenni og gekk með skipum. Sagan segir, að hann hafi komið í búð Torfa um morguninn, áður en formaður kallaði, og ætlað að fá að fljóta með um daginn. Er hásetar fóru að klæða sig, vildu þeir kveikja ljós, en enginn gat kveikt eða ljósið slokknaði á eldspýtunni jafnharðan, þótt hver reyndi af öðrum. Loks var beitudrengurinn beðinn að reyna, og gat hann samstundis kveikt. Þetta þótti Vigfúsi ills viti, kvaddi búðarmenn og fékk að róa með öðrum formanni. Saga þessi er sögð ofurlítið mismunandi; svo sem það, að Vigfús, en ekki beitudrengurinn hafi loks getað kveikt ljósið. Um sannleiksgildi sögunnar skal ekkert fullyrt, en þetta var almenn sögn.[note]Sbr. Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar II, 208-209; Fálkinn, 26. apríl 1940; Í faðmi sveitanna, 140.[/note]
1899. Hinn 4. desember hlekktist á báti á Stokkseyrarsundi með 5 mönnum. Formaður var Þorkell Magnússon í Eystri-Móhúsum. Drukknuðu 2 menn, en þremur var bjargað. Mennirnir, sem drukknuðu, voru Þorkell Magnússon formaður, 33 ára, kvæntur, og Ögmundur Jónsson frá Austvaðsholti á Landi, maður um fertugt. Þorkell var bróðir Ingibjargar, konu Torfa í Söndu, sem sagt er frá hér á undan. Faðir þeirra, Magnús Guttormsson í Brandshúsum, drukknaði í mannskaðanum á Loftsstöðum 20. apríl 1872.
Morguninn, sem slys þetta varð, reru flestir formenn á Stokkseyri. Veður var ekki gott og útlit ískyggilegt, svo að einhverjir sneru aftur án þess að leggja lóðina. Þegar búið var að draga lóðirnar, var komið stórbrim. Þorkell, sem var alvanur dugnaðarmaður, lagði á Stokkseyrarsund, en á miðboðanum kom sjór á bátinn og fyllti hann. Tveir menn fóru í sjóinn, en báturinn maraði í briminu með þremur mönnum í. Næst á eftir Þorkeli og litlu síðar kom Jón Sturlaugsson að sundinu og sá bátinn farast. Á næsta lagi lagði Jón inn sundið, og tókst honum að bjarga mönnunum þremur, sem í bátnum voru. Þorkell formaður var annar þeirra, sem í sjóinn fór, og flaut enn uppi. Kastaði Jón til hans kaðli, og náði Þorkell honum, en er Jón ætlaði að draga hann til sín, var Þorkell orðinn svo dofinn og máttfarinn, að hann sleppti af kaðlinum. Drukknaði hann þar ásamt háseta sínum, sem í sjóinn fór. Eftir nokkra bið á slysstaðnum lagði Jón inn úr sundinu og lentist vel.
Í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar er greint frá forspá um drukknun Þorkels, en heldur er sú frásögn öll með ólíkindum.[note]Þjóðs, Sigf. Sigf. Il, 209.[/note]
1908. Hinn 2. apríl fórst skip á Stokkseyrarsundi með 8 mönnum, en einum var bjargað. Formaður var Ingvar Karelsson í Hvíld. Þar drukknuðu þessir menn: Ingvar Karelsson formaður, 42 ára, kvæntur; Gísli Karelsson húsmaður í Sjávargötu í Hraunshverfi, 39 ára, kvæntur og átti börn; Guðjón Guðbrandsson bóndi á Neistastöðum í Flóa, 35 ára; Gunnar Gunnarsson bóndi í Gíslakoti í Holtum, 49 ára; Helgi Jónsson frá Súluholtshjáleigu, kvæntur húsmaður á Stokkseyri, 28 ára; Jón Gamalíelsson bóndi í Votmúla í Flóa, 28 ára; Jón Tómasson bóndasonur frá Efri-Gegnishólum, 18 ára, og Tryggvi Eiríksson vinnumaður í Stokkseyri, 18 ára.
Að morgni slysdagsins var almennt róið á Stokkseyri, en meðan menn voru á sjónum, hvessti snögglega og gerði stórbrim. Mörg af skipunum náðu þó heimalendingu, en hin, sem seinna voru fyrir, lögðu að Stokkseyrarsundi og lágu þar um hríð til laga nema Ingvar. Hafði hann þann sið að liggja aldrei við sund, og hafði það ekki komið að sök til þessa. Hélt hann einn formanna inn í sundið, en þar tók hann brotsjór, og fórst skipið. Meðal þeirra, sem á sjó voru, var Jón Sturlaugsson, og þegar hann kom að sundinu, lágu þar mörg skip, en skip Ingvars farið. Voru tveir menn eftir í skipi hans innan um brimið, en þar sem sjóirnir veltu því ýmist á hvolf eða upp í loft, losnaði annar maðurinn við það eftir stundarkorn. Lagði Jón Sturlaugsson þá inn í sundið, og heppnaðist honum að ná þessum eina manni lifandi og þremur líkum hinna drukknuðu manna. Maðurinn, sem Jón bjargaði, var Brynjólfur Magnússon frá Bár í Flóa. Eftir þetta lögðu öll skipin, sem á sjó voru, 7 að tölu, þar á meðal Jón einnig, frá sundinu og hleyptu til Þorlákshafnar og lentist þar vel. Til marks um það, hve illt var í sjó þennan dag, skal þess getið, að skipi barst á á Loftsstaðasundi og drukknuðu af því 4 menn, en tvö skip þaðan úr verstöðinni náðu landi í Þorlákshöfn.[note]Sbr. Ísafold 8. apríl og Þjóðólf 10. apríl 1908 o. fl.[/note]
Ingvar Karelsson var sjósóknari mikill. Páll Guðmundsson á Hjálmsstöðum, sem var háseti hjá honum um skeið, getur hans á þessa leið í endurminningum sínum: „Ingvar var mikill dugnaðarmaður og kappsamur, svo að jafnvel keyrði úr hófi. Hann aflaði sæmilega. Ég reri með honum í tvær vertíðir og líkaði æ verr vegna ofurkapps hans. Sagði ég því upp skipsrúmi hjá honum. Ingvar fórst með allri áhöfn seinna. Voru skipverjar flestir flæktir í lóðinni, og var það hörmulegt slys.“ Áður en Ingvar fórst, kom Bárður Diðriksson til hans í draumi og aðvaraði hann. Sagði Ingvar frá drauminum og henti gaman að. Ekki fór hann eftir aðvörun Bárðar, enda urðu ævilok þeirra hin sömu.[note]Tak hnakk þinn og hest, 64, 77.[/note]
Eyjólfur Sigurðsson í Björgvin varð síðbúinn í róður daginn, sem Ingvar drukknaði, og er hann var á leiðinni í land, urðu ýmis skip á vegi hans, sem voru að róa út í annað sinn. Þegar hann kemur inn á miðjar fjörur, mætir hann skipi, sem fer skammt frá honum, en svo undarlega brá við, að hvorki Eyjólfur né hásetar hans báru kennsl á skipið eða áhöfnina, þó að albjart væri. Ræddu þeir um þetta sín á milli um stund og þótti kynlegt. Segir þá Daníel Arnbjarnarson, sem var einn háseta: „Ætli það sé ekki hann Ingvar í Hvíld?“ Létu menn það gott heita, og féll talið niður. En á leiðinni í land úr seinna róðrinum drukknaði Ingvar.
1909. Skömmu fyrir lokin eða 30. apríl fóru 5 vermenn úr Þorlákshöfn, hásetar Tómasar Vigfússonar í Götuhúsum á Eyrarbakka, á sexæringi með færur sínar, skreið og úrgangsfisk austur í Hraunshverfi, þar sem þeir ætluðu að setja föggur sínar upp. Skipverjar á bátnum voru Guðmundur Sigurjónsson smiður á Gamla-Hrauni, sem hafði formennsku á hendi, Jón Ólafsson frá Foki í Hraunshverfi, Gísli Jónsson, síðar bóndi á Hvaleyri, Andrés Jónsson í Nýjabæ á Stokkseyri, 21 árs, nýkvæntur, bróðir Gísla, og Hinrik Sigurðsson bóndasonur í Ranakoti, 17 ára. Veður var allgott þennan dag, og lögðu þeir inn Hraunsós, eins og ætlað var. Svo hagar til, að innan til á miðjum ósnum er klettur, sem stendur nærri því upp úr um stórstraumsfjöru. Voru þeir á réttum merkjum, en rákust á klettinn, og gekk sjór yfir bátinn. Allir mennirnir flutu úr bátnum, en þrír komust upp í hann aftur og var bjargað frá Gamla-Hrauni. En þeir Andrés og Hinrik náðu ekki til bátsins aftur og drukknuðu.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 397-398. Þar er og sagt frá fyrirboða, sem talinn var fyrir slysi þessu, sbr. Ísl. sagnaþ. og þjóðsögur X, 31-32.[/note]
1916. Hinn 8. apríl tók mann út af vélbátnum „Vilborgu” á Stokkseyrarsundi, og drukknaði hann. Maður þessi var Jón Sveinsson í Aðalsteini á Stokkseyri, ókvæntur. Formaður á „Vilborgu“ var Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, og var hann að koma úr róðri. Brim var mikið, og lá Jón um tíma við sundið, áður en hann lagði á það. Hásetar héldu sig allir niðri í bátnum eða inni í stýrishúsi nema Jón Sveinsson; hann var einn á þilfari. Á sundinu kom sjór á bátinn og skolaði manninum út. Engin tök voru á því að bjarga honum, eins og aðstæður voru.
1917. Í vertíðarbyrjun hinn 3. febrúar fórst vélbáturinn „Suðri“ úti fyrir Stokkseyri með 4 mönnum. Formaður á honum var Guðbergur Grímsson á Strönd, dugnaðarmaður og djarfur sjósóknari. Mennirnir, sem fórust, voru þessir: Guðbergur Grímsson formaður, 29 ára, ókvæntur; Filippus Stefánsson kaupmaður í Vestmannaeyjum; Gunnar Gunnlaugsson lausamaður á Hamarsheiði, nýkvæntur, 31 árs, og Þórður Pálsson frá Brattsholti, 24 ára.
„Suðri“ hafði farið til Þorlákshafnar þennan dag, og var aðalerindi hans að flytja þangað vergögn Bjarna Grímssonar á Stokkseyri, sem var jafnan for. maður í Höfninni á vetrarvertíðum. Sem farþegi með bátnum var Filippus Stefánsson úr Vestmannaeyjum, sem hugðist stunda lýsisbræðslu í Þorlákshöfn á vertíðinni og vildi kynna sér aðstöðu til þess. Meðal þeirra, sem ráðnir voru til fararinnar, var Guðmundur Helgason í Hól, og var hann ásamt öðrum kominn niður á bryggju og báturinn ferðbúinn. Vildi þá svo til, að Guðmundi skrikaði fótur á bryggjunni, svo að hann steyptist á kaf í sjóinn. Varð hann auðvitað holdvotur, og með því að frost var talsvert, varð hann að fara heim til að skipta um föt. Þá var af tilviljun staddur niðri á bryggju Gunnar Gunnlaugsson frá Hamarsheiði. Hann hafði kvænzt fyrir viku og ætlaði að vera formaður í Selvogi á vertíðinni. Bað Bjarni Grímsson nú Gunnar að skreppa með bátnum sem háseti í stað Guðmundar Helgasonar, svo að báturinn þyrfti eigi að tefjast. Var það auðsótt mál, og gaf Gunnar sér ekki tíma til að láta heimafólk sitt vita um ferðina eða kveðja konu sína.
Í Þorlákshöfn hafði Guðbergur stutta viðstöðu. Með honum á bátnum frá Stokkseyri var unglingspiltur, Skúli Sigurðsson frá Rauðarhól, og ætlaði hann auðvitað heim aftur með bátnum. En er hann var kominn um borð í Þorlákshöfn, rak Guðbergur hann nauðugan í land og skildi hann eftir. Þótti Skúla það súrt í broti, sem von var, en þetta varð honum til lífs.Eftir að báturinn fór frá Þorlákshöfn, vissu menn ógerla til hans að segja. Um kvöldið, er allmjög var farið að skyggja, sást til hans utan við brimgarðinn á Stokkseyri, en þar hvarf hann sjónum fyrir brimi og rökkri. Morguninn eftir var bátsins leitað á sjó og fannst hann ekki. Talið var, að hann hefði farizt á Hlaupósnum, er hann reyndi að ná lendingu um kvöldið.
1922. Hinn 17. apríl fórst vélbáturinn „Atli“ á Stokkseyrarsundi með allri áhöfn, 7 mönnum. Formaður á honum var Bjarni Sturlaugsson frá Starkaðarhúsum, þá húsmaður í Eystri-Móhúsum. Mennirnir, sem fórust, voru þessir:
Bjarni Sturlaugsson formaður, 32 ára, ekkjumaður og átti einn son; Einar Gíslason bóndi í Borgarholti, fyrrum formaður á Stokkseyri, 54 ára, kvæntur og átti 9 börn; Guðmundur Gíslason bóndasonur frá Brattsholtshjáleigu, 32 ára; Guðni Guðmundsson bóndi í Eystri-Móhúsum, 48 ára; Markús Hansson vinnumaður í Útgörðum, 36 ára; Þorkell Þorkelsson vinnumaður í Eystri-Móhúsum, sonur Þorkels Magnússonar, er drukknaði 1899, og Þorvarður Jónsson unglingspiltur á Stokkseyri, 16 ára, sonur Jóns hreppstjóra Jónassonar. Heimilið í Eystri-Móhúsum varð fyrir þungum búsifjum þennan dag. Allir karlmennirnir á bænum fóru í sjóinn, þrír að tölu. Eftir var húsfreyjan ein á lífi, Jónína Helgadóttir, sem missti manninn, sem hún bjó með, Guðna Guðmundsson; son sinn með fyrra manni sínum, Þorkel Þorkelsson, og hinn þriðja heimilismann sinn, Bjarna Sturlaugsson. Hún var niðri í fjöru ásamt öðru fólki og horfði á hið átakanlega slys. Þegar báturinn sökk í djúpið, féll hún til jarðar meðvitundarlaus. Fyrir mörgum árum hafði hún einnig misst fyrra mann sinn í sjóinn.
Snemma morguns þennan dag, um kl. 4-5, reru 4 bátar frá Stokkseyri í sæmilegu veðri. Fóru þeir vestur í Hafnarforir til að vitja um net sín. Sjó brimaði afskaplega og snögglega á meðan. Rétt fyrir hádegisbilið kom „Atli að Stokkseyrarsundi, lá þar til laga um tíma, eins og venjulegt er, þegar mikið brim er, lagði síðan á sundið og fórst yzt á sundinu á boða þeim, er Skjótur nefnist. Hinum bátunum tókst að lenda við illan leik. Það kom í ljós, er „Atla“ var náð upp, að orsök slyssins hafði verið sú, að akkerisfestin hafði runnið út og vafizt um skrúfuna. Við það hafði báturinn misst ferðina á sundinu, er sízt skyldi, og sjórinn náð honum.[note]Vísir, 18. apríl 1922; sbr. Brim og boðar Il, Rvík, 1952, bls. 204-206.[/note]
Það var nánast fyrir tilviljun, að Bjarni Sturlaugsson var formaður á „Atla þennan vetur. Hann hafði verið ráðinn formaður á annan bát, sem Þórður Jónsson bóksali og fleiri áttu. En haustið áður slitnaði sá bátur upp og brotnaði, og tókst ekki fyrr en eftir nýár að útvega bát í staðinn. Meðan á því stóð eða nokkru fyrir jól kom Bjarni að máli við Þórð og félaga hans og óskaði að afsala sér formennskunni, þar sem enn væri óvíst um nýja bátinn og honum hefði verið boðin formennska á „Atla“. Gáfu þeir Þórður Bjarna lausan, og réðst hann svo á „Atla“.
Því höfðu menn veitt eftirtekt, að fyrra hluta vetrar söfnuðust daglega saman 7 hrafnar á húsi því, er veiðarfærin af báti þeirra Þórðar voru geymd í, létu þar öllum illum látum með krunki, rifrildi og gargi. En eftir að Bjarni hafði sagt lausri formennskunni á bátnum og ráðizt á „Atla, fluttu hrafnarnir sig allir með tölu yfir á byrgi það, sem veiðarfærin af „Atla voru geymd í, og héldu þar áfram sama hátterni. Þótti hið kynlega háttalag hrafnanna benda til þess, að þeir hefðu vitað fyrir feigð Bjarna og félaga hans.[note]Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur III, 51-52.[/note]
1938. Hinn 17. marz hlekktist vélbátnum „Ingu á á Stokkseyrarsundi, og drukknuðu 2 menn, en hinir björguðust. Formaður var Guðni Eyjólfsson í Björgvin, sem var að koma úr öðrum formannsróðri sínum. Báturinn fekk á sig sjó á sundinu, brotnaði af honum stýrishúsið, en báðir mennirnir, sem voru þar, fóru í sjóinn og drukknuðu. Þeir voru Guðni Eyjólfsson formaður og Magnús Karlsson frá Hafsteini, báðir ungir menn og ókvæntir. Bátnum var bjargað og gert við hann.
1939. Hinn 14. marz eða nærfellt réttu ári síðar fórst vélbáturinn „Inga“ á Stokkseyrarsundi og brotnaði í spón. Einn maður drukknaði, en 4 var bjargað. Formaður á bátnum var Magnús Sigurðsson í Eystri-Móhúsum. Hann var að koma úr róðri og missti manninn út á sundinu, Magnús að nafni frá Seli í Ytrihrepp, flugsyndan. Ætlaði formaður að reyna að ná honum og fór eitthvað út af leið, en við það bar bátinn upp á sker, svo að honum hvolfdi og mölbrotnaði, en maðurinn náðist ekki. Öðrum skipverjum tókst að halda sér á floti, unz björgun barst. Ingimundur Jónsson á Strönd bjargaði 3 mönnum af lóðarbelg, en Guðni Guðnason í Varmadal og Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði einum manni af siglutrénu.
Síðan þetta gerðist, eru liðnir fullir tveir áratugir, án þess að manntjón hafi orðið við sjósókn á Stokkseyri. Og umbætur síðustu ára á hafnar- og lendingarskilyrðum þar vekja vonir um það, að slíkum atburðum sé nú endir búinn.