107-Pöntunarfélag verkamanna

Á fundi í Verkalýðsfélaginu „Bjarma“ 16. des. 1925 var enn á ný vakið máls á því, að félagsmenn slægju sér saman um vörukaup, ef verða mætti, að þeir gætu komizt þannig að hagkvæmari kaupum. Úr framkvæmdum, sem teljandi eru, virðist þó ekki hafa orðið fyrr en 1930. Voru þá gerðar vörupantanir á vegum félagsins og líkaði mönnum vel. Var samþykkt árið eftir, að félagsmenn einir fengju að vera með í pöntunum þessum. Eftir það mun félagið hafa pantað vörur með þessu móti árlega, og annaðist þessa starfsemi þriggja manna nefnd, sem kosin var til eins árs í senn. Var þetta verzlun, sem talsverðu munaði; árið 1933 er þess t. d. getið, að hún hafi hlaupið á þriðja þúsund krónur, sem var talsvert fé í þá daga. Föst skipun mun ekki hafa komizt á starfsemi þessa félags fyrr en 1939, er stofnuð var sérstök pöntunardeild innan verkalýðsfélagsins, er nefnist Pöntunarfélag verkamanna og var sem áður bundið við félagsmenn eina. En 31. júlí 1955 opnaði pöntunarfélagið sölubúð hjá húsinu Aðalsteini, og hefir starfsemi þess síðan verið opin almenningi. Vorið 1958 keypti pöntunarfélagið Hótel Stokkseyri, lét innrétta það fyrir sölubúð og skrifstofur og flutti starfsemi sína þangað um haustið. Jafnframt keypti það einnig verzlun Ásgeirs Eiríkssonar, eins og áður er sagt. Þó að verzlunin sé opin öllum almenningi, er hún þó einkum bundin við félagsmenn í verkalýðsfélaginu og annast sem áður pöntunarstarfsemi fyrir þá.

Formaður pöntunarfélagsins og framkvæmdastjóri þess er Björgvin Sigurðsson oddviti á Jaðri, en aðalstarfsmenn við verzlunina voru lengi Jónas Larsson í Nýjakastala og Þuríður Guðbjartsdóttir í Akbraut. Núverandi starfsmenn pöntunarfélagsins eru Ásgeir Eiríksson, Grétar Zophoníasson á Bjarmalandi og Ragnheiður Haraldsdóttir í Sjólyst.

Leave a Reply