Sigurður Árnason í Hafliðakoti var kvæntur Guðleifu Sæmundardóttur frá Foki. Sonur þeirra er Friðrik Sigurðsson á Gamlahrauni, myndarmaður hinn mesti eins og þau voru bæði, foreldrar hans, dugnaðarmaður, eins og þau til allrar vinnu og vinsæll maður
Bæði voru þau hjón stórfeld nokkuð í skapi, án þess þó, að þau létu það ráða orðum sínum eða gjörðum; þau vor þannig skapi farin að þau létu ekki aðra atroða sér um tær, voru sparsöm, fornbýl og fyrirhyggjusöm. Hásetar góðir völdust ávalt til Sigurðar og þótti þeim vænt um hann, enda var hann afbragðsjómaður, sjósækinn vel og aflasæll. Sjóbúð hans stóð á milli Beinateigs og Grímsfjósa í túnjaðrinum fram undan Ranakoti, þar sem Olgeir Jónsson (í Geirakoti) býr nú, sem einsetumaður.
Sigurður Árnason var hár maður vexti, spengilegur og iðaði af áhuga og fjöri; hann var bjartur yfirlitum og fremur laglegur ásýndum. Aldrei sá ég hann neyta víns eða hafa það um hönd, enda var hann strangur í því efni við sjálfan sig og aðra. Það var umhyggjan fyrir afkomunni og hinum efnilega einkasyni þeirra hjóna, vinnusemin, ráðdeildin og dugnaðarframtakið í öllu, sem réði kröfum hans og þeirra, og því var efnahagur þeirra ávalt í góðu lagi, þótt ábúðarjörðin væri lítil og léleg og fénaðurinn fár, en þau fóru vel með. Í fáum orðum sagt var Sigurður í Hafliðakoti hinn nýtasti maður, góður bóndi og atkvæðasjómaður. Það sama má segja um Friðrik son hans segja.