You are currently viewing Páll Andrésson Nýjabæ

Páll Andrésson Nýjabæ

Páll Andrésson, Magnússonar alþingismanns bjó í vestasta bænum í Nýjabæ; hann var hálfbróðir séra Magnúsar á Gilsbakka, Andrésar „hjá Bryde“ og þeirra systkina. Kona hans var Geirlaug Eiríksdóttir, ættuð af Skeiðum og af Reykjaætt. Synir þeirra voru þeir Ingvar kaupmaður í Reykjavík, Andrés kaupmaður, Ágúst fisksali og Magnús er dó rúmlega tvítugur að aldri; dætur þeirra voru Helga, kona Valdemars á Sóleyjarbakka Brynjólfssonar, Elín er giftist Björgólfi Ólafssyni Litluháeyri (torfbæ) og síða Þorbirni frá Auðsholtshjáleigu í Ölvesi og Geirlaug. – Geirlög gamla var fædd á Vatnsleysuströnd.

Hjón þessi, Páll og Geirlaug voru dugnaðar manneskjur og börn þeirra öll hin myndarlegustu, framúrskarandi velviljuð og hjálpsöm. Páll Andrésson var meðalmaður að vexti, ljós á hár og hörund, áhugasamur maður mjög, og þegar hann talaði „rak hann í þúfurnar“ án þess þó að stama. Hann drukknaði 11. apríl 1894 á Eyrarbakka og var hann þó formaður á því skipi, er hann fórst af, 49 ára að aldri, með Jóni Jónssyni frá Réttinni, eða Grímsstöðum á Eyrarbakka 36 ára að aldri. Talið var, að Páll væri eigi ávalt nógu nákvæmur eða gætinn í sjósóknum sínum, því að „hugurinn bæri hann hálfa leið“, enda mátti það og segja um ýmsa aðra, þótt það hentaði síst í svo varasamri veiðistöð, sem Eyrarbakki er. Er þetta því eigi sagt þessum mæti manni til hnjóðs, því Páll var maður vandaður til orða og verka.