Magnús Magnússon formaður bjó í austurbænum í Nýjabæ; hann var ættaður úr Þykkvabæ í Rangárvallasýslu, mesti hæglætismaður, en þótt hægt færi, var hann einn meðal hinna fremstu sjósóknara og duglegustu aflamanna. Kona hans var Ingigerður Jónsdóttir, Magnússonar frá Mundakoti, mesta myndarkona. Börn sín, en meðal þeirra voru þeir Jón og Magnús (man annars ekki hvort fleiri væru), ólu þau upp með mestu prýði. Heimili þeirra var eitt hið mesta myndar heimili á Bakkanum, hreinlegt, vinnusamt og fremur veitandi en þurfandi, enda var þetta allt einkennandi fyrir Eyrbekkinga.