You are currently viewing Jóhannes Jónsson Miðkekk

Jóhannes Jónsson Miðkekk

Jóhannes var kvæntur Sólveigu Snæbjarnardóttur, (Snæbjarnar, eða „Snæsa gamla á Hól“), systur Sigurður í Beinateig og Bjarna í Arabæ í Pörtum. Jóhannes var stilltur maður, greindur vel og fróður um margt. Þorsteinn læknir var eftirlíking föður síns; ljós í hár og skegg (allmikið), munnvíður, með fremur stutt nef, nokkuð rauðleitt og söðulmyndað. Jóhannes var hærri vexti en þeir og virtist því eigi eins gildur, þótt hann væri það og bolvaxnari, en ekki eins herðabreiður. Aftur á móti var hann bæði leggja- og handleggjalengri en þeir.

Hversu mörg börn Jóhannes átti man ég ekki, en minnir þó að það hafi verið 17 eða 18 og hann því tekið þeim Aroni og Friðrik fram í þessu, sem og dugnaði. Hann var vandaður maður og virtur vel af öllum, en fátæktin hamlaði honum frá því að verða að því gagni fyrir sig og aðra sem hann vildi. Jón sonur hans er enn á lífi og á efnileg börn. Góðar gáfur hafa þau m.a. frá Jóhannesi afa sínum, en Jón er þó greindur vel og man margt frá fyrri tíð.

Jóhannes andaðist 1. febr. 1920, 88 ár að aldri. Með honum hefir áreiðanlega farið mikill fróðleikur, sem fáum nú lifandi mönnum er kunnur, því hann vissi margt og sagði vel frá ef vel var eftir leitað, en hann var fremur dulur í skapi og því ólíkur föður sínum og bróður, en báðir voru mestu fræðimenn en skraffinnar hinir mestu. Allir voru þeir meinhægðarmenn og góðgjarnir.

Ekki veit ég hversu lengi ég endist til þess að telja fleiri menn og lýsa þeim er ég kynntist og þekkti í æsku, en áður en ég skil við þessi æviágrip þeirra, þykist mér hlýða að minnast með fáum orðum á mann einn, sem þótt hann standi mér nærri, ég verð að telja svo merkan, að hann megi ekki gleymast og enn síður kona hans, en það er móðir mín og faðir.