You are currently viewing Ingvar Gíslason

Ingvar Gíslason

Ingvar Gíslason beykir og kona hans, Ágústa Jónsdóttir Þórhallssonar frá Hólmsbæ, bjuggu í húsi vestan við Garðbæ. Voru þau foreldrar Jóns Ingvarssonar verkstjóra við vegagerðir og e.t.v. fleiri barna sem ég þekkti ekki né man nöfn á. Ingvar var beykir við Lefoliiverslun og sá maðurinn þar, sem tók á móti öllum þeim laxi er þangað var sendur til útflutnings og hafði hann Sigga fjórða sér til aðstoðar við það og gæta þess að laxinn skemmdist eigi meðan bið var á því – 2-3 mánuði – að hægt væri að senda hann utan, en það var með síðasta haustskipi í lok ágústmánaðar.

Ingvar var léttur í umgengni, félagslyndur, stilltur og vandaður, en fremur var hann fáskiftinn. Ágústa kona hans, var, eins og hún átti kyn til, glöð í lund og góð kona. Ingvar var meðalmaður á hæð, liðlega vaxinn, ljós á hár og skegg og fríður sýnum, nefið beint og augun blágrá; hann var sívinnandi og vandaði öll sín verk. Hann hefir ávalt verið fáskiptinn um almenn mál og félaga, en reglusamur um allt og einkum vín.