You are currently viewing Gísli Gíslason Steinskoti

Gísli Gíslason Steinskoti

Gísli Gíslason bjó í Steinskoti; var hann blóðtökumaður og bólusetjari. Kona hans hét Gróa Eggertsdóttir og var hún yfirsetukona, vitanlega ólærð þó, því þær voru ærið fáar þá, sem lærðar voru. Það þótti takast vel hjá þeim hjónum að hjálpa mönnum og málleysingjum í veikindum þeirra. Læknis var þá eigi unnt að vitja, en austur í Móeiðarhvoli; var það Skúli Thoraensen.

Börn þeirra Gísla og Gróu í Steinskoti voru öll mannvænleg: Eggert bóndi á Kothúsum í Garði, Jóhann formaður og fiskimatsmaður hér í Reykjavík, er lengstum var aðalvigtarmaður við Lefoliiverslun, sjósóknari mikill og aflamaður. Davíð, er leng var á Vífilsstöðum og Guðbjörn, kona Jóns Jónssonar í Steinskoti.

Af síðara hjónabandi átti Gísli Þorgrím í Steinkoti. Eru börn þessi öll enn á lífi nema og háöldruð, um og yfir áttrætt.

Gísli í Steinskoti var ættaður undan Eyjafjöllum, en Gísli faðir hans mun hafa búið í Bjóluhjáleigu. Bróa, kona hans var ættuð frá Haga í Holtum.

Gísli í Steinskoti var myndarlegur maður, fríður sýnum, glaður í viðmóti og vel kynntur. Hann var bjartur á svip og hreinn í lund. Síðari kona Gísla var Þórný Guðmundsdóttir, systir Sæmundar Guðmundsonar í Nikuláshúsum í Fljótshlíð, föður Nínu Sæmundsson listakonu.