You are currently viewing Leiðólfsstaðir

Leiðólfsstaðir

Saga býlis

Leiðólfsstaðir eru kenndir við Leiðólf, er þar byggði fyrstur manna öndverðlega á 10. öld og var leysingi Atla Hásteinssonar í Traðarholti að sögn Landnámu og Flóamanna sögu ( Íslendinga sögur I, 220, sbr. XII, 7).[note] Sumar Landnámugerðir telja hann leysingja Ölvis, bróður Atla. [/note] Eftir það er jarðarinnar ekki getið fyrr en á síðari hluta 17. aldar (Þingb. Árn. 13. júní 1666). Leiðólfsstaðir voru eign Skálholtsdómkirkju á miðöldum og allt til þess, er stólsjarðirnar voru seldar undir lok 18. aldar. Á stólsjarðauppboðinu 9. ágúst 1788 keypti Jón bóndi Ingimundarson á Leiðólfsstöðum jörðina, sem var 17 hndr. 80 áln. að dýrleika, með 60 álna landskuld og 2 kúgildum, fyrir 114 ríkisd. 48 sk. Átti Jón síðan jörðina til dauðadags 1805. Sama ár giftist ekkja hans, Vilborg Jónsdóttir, Bjarna bónda Magnússyni á Leiðólfsstöðum, og keypti hann þá hluta samarfa konu sinnar í jörðinni. Eftir lát Bjarna 1825 eignaðist Vilborg alla jörðina. Hún giftist í þriðja sinn Sigurði Gottsvinssyni, er varð þá ásamt henni eigandi jarðarinnar. Eftir Kambsrán voru eigur Sigurðar sem annarra ránsmanna gerðar upptækar og seldar, þar á meðal eignarhluti sá úr Leiðólfsstöðum, sem honum bar að tiltölu við konu sína. Á uppboði 11. júní 1827 keypti Jón hreppstjóri Þórðarson í Vestri-Móhúsum eignarhluta þennan, 9 hndr. 95 áln. að dýrleika, fyrir 225 ríkisdali 56 skildinga, og fylgdi þar með lítill partur úr jörðinni, sem Magnús Bjarnason á Grjótlæk hafði eignazt og óskaði að selja. Hinn 29. maí 1830 keypti Jón hreppstjóri 2 hndr. 25 álnir úr jörðinni til viðbótar af síra Jakobi prófasti í Gaulverjabæ, sem án efa hefir keypt þennan part af Vilborgu Jónsdóttur. Ekki er nú unnt að rekja eigendur einstakra parta úr jörðinni, en þau 12 hndr., sem Jón hreppstjóri hafði keypt, gengu til dóttur hans og tengdasonar á Vestri-Loftsstöðum eftir hans dag.

Segir nú ekki af eigendum Leiðólfsstaða fyrr en 1910. Þá keypti Júlíus Gíslason hluta úr jörðinni af Hannesi bónda Magnússyni í Hólum og fleirum, en 1912 keypti Jón Magnússon í Gaulverjabæ hluta Júlíusar og tvo aðra parta úr jörðinni, en seldi aftur sama ár. Um þær mundir og á næstu árum gengu Leiðólfsstaðirnir ört kaupum og sölum, og er ekki ástæða til að greina nánara frá því hér. Árið 1916 keypti Guðjón Jónsson bóndi á Leiðólfsstöðum alla jörðina, en hann seldi hana aftur 1923 Árna Jóhannessyni bónda þar. Árið 1930 keypti útbú Landsbankans á Selfossi jörðina af Árna, en árið eftir seldi útbúið hana aftur Jarþrúði Einarsdóttur frá Tóftum. Loks seldi Jarþrúður jörðina 21. okt. 1944 bróður sínum, Sighvati bónda Einarssyni á Tóftum, sem hefir átt hana og nytjað síðan.

Landamerki

Landamerki Leiðólfsstaða eru þessi:

1. Milli Leiðólfsstaða og Hóla ræður sjónhending frá vörðunni í Blástragróf og fremst í Grjóttjörn.

2. Milli Leiðólfsstaða og Baugsstaða ræður sjónhending frá fremri enda Grjóttjarnar og í Leirvík.

3. Milli Leiðólfsstaða og Traðarholts ræður Hörpuhólslækur upp í Leiðólfsstaðavatn.

4. Milli Leiðólfsstaða og Tófta ræður Laskalækjarkelda upp á móts við Skyggnirana.

5. Milli Leiðólfsstaða og Holts ræður Laskalækurinn allt upp á Holtsnef.

6. Milli Leiðólfsstaða og Lölukots ræður sjónhending af ofanverðu Holtsnefi og í áðurnefnda vörðu í Blástragróf. (Landamerkjabók Árn.; gert í júní 1884, en þinglesið á manntalsþingi 1887).

Um landskosti á Leiðólfsstöðum segir svo í J arðab. ÁM.: ,,Fóðrast kann 4 kýr, 10 ær, 6 lömb, 1 hestur. – Torfrista og stunga lök. Elt er taði. Silungsveiði má ekki telja við Baugsstaði. Skógarhögg sem segir um Hóla. Engjunum grandar vatn, sem úr étur rótina vetur og vor. Landþröng er mikil, svo þessi liggur á landþröng nábúa sinna.“ (J arðab. ÁM. Il, 45).

Leave a Reply