Hraukhlaða var hjáleiga frá Traðarholti og er fyrst getið í Jarðabók ÁM. 1708. Þar segir, að hjáleiga þessi hafi verið byggð fyrir manna minni, en legið í auðn næstliðin 30 ár eða því nær. Hún hefir því farið í eyði fyrir eða um 1680. Verður byggðar þar ekki vart fyrr en heilli öld síðar, um 1780, og þá aðeins í fáein ár. Árið 1843 tók Bergur smiður Guðmundsson enn á ný upp byggð þar og fekk byggingu á hjáleigunni hjá þáverandi eiganda hálfs Traðarholts, síra Sigurði Thorarensen í Hraungerði {sbr. Bréfasafn Árn. 9. nóv. 1849). Var býlið þá um nokkurt skeið kennt við Berg og nefnt Bergsstaðir, en það festist þó ekki við til langframa. Eftir 1890 er farið að rita nafnið Hraunhlaða, en það er sem sjá má af því, sem að framan segir, ekki annað en ung afbökun.
Hraukhlaða fylgdi jafnan Traðarholtstorfunni. Þórður Pálsson í Brattsholti átti hálfa torfuna og þar með Hraukhlöðu. Árið 1910 er Kristján Hreinsson o. fl. taldir eigendur hennar, en því næst Gunnar Sigurðsson í Götu, dótturmaður Kristjáns. Árið 1922 seldi Gunnar hana Böðvari Tómassyni á Stokkseyri, en Böðvar aftur 1928 Friðriki Bjarnasyni tónskáldi í Hafnarfirði. Reisti Friðrik þar sumarhús, en dvaldist þar sjaldan. Árið 1939 seldi hann Hraukhlöðuna Jarðakaupasjóði ríkisins. Byggð hefir ekki verið þar síðan 1922, en ábúendur Grundar hafa leigt jarðarafnotin á seinni árum.