You are currently viewing Gata

Gata

Gata var hjáleiga frá Stokkseyri, og er hennar getið fyrst í manntali 1703. Fyrir þann tíma, sennilega löngu fyrr, var býli þessu skipt í tvennt og úr því byggt annað, sem nefnt var Litla-Gata (Minni-Gata), eða Roðgúll og á einum stað Vatnsdalur, sjá nánara um það við Roðgúl. Hér hefir því sams konar tvískipting hjáleigna átt sér stað sem um Íragerði, Móhús og Rauðarhól. Gata fylgdi Stokkseyrareigninni fram undir lok 18. aldar, en varð þá séreign. Hinn 12. marz 1793 seldi mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum Geirmundi Jónssyni Götuna fyrir 37 rd. 48 sk. Er þess þá getið, að erfingjar Þórdísar, þeir tengdasynir hennar, Helgi Sigurðsson í Brattsholti, Benedikt í Stokkseyrarseli og Jón Ingimundarson á Stokkseyri, hafi lofað að brigða ekki kaupin. Geirmundur seldi Götuna aftur 8. apríl 1806 Bjarna Magnússyni eldra á Baugsstöðum fyrir sama verð. Bjarni dó árið eftir. Áttu erfingjar hans þá Götuna, unz Magnús á Grjótlæk, sonur hans, seldi hana Jóni hreppstjóra Þórðarsyni í Móhúsum 11. júlí 1836 fyrir 120 rd. Eftir daga Jóns gekk Gatan til Adólfs Petersens á Stokkseyri, en eftir hann til Adólfs, sonar hans. Árið 1888 veðsetti Adólf Götu ásamt fleiri eignum, og árið eftir var þinglesið afsalsbréf hans fyrir jörðinni til Jóns Stefánssonar, síðar í Götu. Eftir hann varð bústýra hans, Guðrún Helgadóttir í Götu, eigandi hennar, og seldi hún hana 3. febr. 1913 Ólafi kaupmanni Árnasyni á Stokkseyri. Hinn 20. maí 1924 keypti Sigurður Sigurðsson bóndi á Stokkseyri Götuna af dánarbúi Ólafs Árnasonar. Ekkja Sigurðar, Katrín Kristinsdóttir á Stokkseyri, er nú eigandi jarðarinnar.

Leave a Reply