008-Frelsi – menning

Ungmennafélögin hafa alltaf barizt fyrir auknu frelsi og menningu alþjóðar. Öllum ætti því að vera ljóst, að ungmennafélagshreyfingin hefur haft mikla og heillaríka þýðingu fyrir íslenzka þjóðfélagið síðustu fimmtíu árin.

Ungmennafélögin voru stofnuð hér á landi á merkum tímamótum í félagsmálasögu Íslendinga.

Hreyfingin barst hingað sem ljúfur og hressandi blær, er leysti orku úr læðingi, jók trú á land og lýð, og efldi traust hvers á sjálfum sér, sem snortinn var áhrifum hennar.

Ýmsir hafa talið, að félagsstarfsemin væri ekki nógu raunsæ, þetta sé eintóm rómantík. Svo er jafnan viðhorf gagnvart hugsjónastefnum.

En ef við lítum kringum okkur á því herrans ári 1958, þá sjáum við skjótt, að hugsjónamál og stefnuskrá ungmennafélaganna, eru viðfangsefni fólksins í dag. Þá rætt er um atvinnu- og menningarmál nú, er brátt komið að ýmsum eða öllum þáttum samþykkta sambandsþinga ungmennafélagrunna. Lítum t. d. á 4. gr. í stefnuskrá ungmennafélaganna frá árinu 1936, er svo hljóðar: ,,Að vinna að því,að næg og lífvænleg atvinna bíði allra unglinga, er vaxa upp í landinu, þegar þeir hafa náð starfsaldri eða lokið námi.“

Ákvæði þessarar greinar sýnir berlega raunsæi félagsskaparins, því að nú eftir full tuttugu ár, er þetta eitthvert mest umrædda mál þings og þjóðar. í anda frelsis og menningar starfaði U. M. F. S.

Ég þekkti nokkuð til starfsemi þess árin 1920-1930. Mér er ljúft að minnast þessara ára, og þeirra kynna, sem ég hafði af félagsfólki þar. Þetta æskufólk var hraust og glæsilegt, dugmikið og framsækið, hispurslaust og góðir félagar. Starfsemi ungmennafélagsins var þá með miklum blóma, og áhugi mikill um málefni félagsins, svo sem íþróttir sjónleiki og málfundi. Öll þessi félagslega þjálfun og starfsemi var og er í innsta eðli sínu barátta fyrir auknu frelsi og menningu félaganna, því að þetta styður hvort annað á raunverulegan hátt.

Á fundum félagsins var oft rætt um framtíðarmál Stokkseyrar. Félagsmönnum var þá þegar ljóst, er ég þekkti bezt til, að frelsi einstaklingsins er mjög takmarkað ef ytri skilyrði eru óhagstæð. En menningin vex í skjóli frelsisins. Í dag vildi ég segja við ungmennafélaga Stokkseyrar: Helgið starfsemi félags ykkar þeim hugsjónum, sem þessi tvö orð, frelsi – menning, geyma. Haldið áfram göngu ykkar á braut félagsins við birtu þessara tveggja leiðarstjarna. Þá munið þið vinna ódauðlegt gagn, ykkur sjálfum og samtíð ykkar.

Skemmtanir U. M. F. Stokkseyrar voru mjög til fyrirmyndar og sýndu glögglega menningarstyrk fólksins og félagsanda, eins og ætíð er. Ég veit fyrir víst, að margir hinir eldri munu minnast þeirra með gleði, þó að gráni hár og hrukki kinn.

Starfsemi ungmennafélagsins var sólskinsblettur í lífi Stokkseyringa.

Ég vildi leyfa mér hér að bera fram þá heillaósk á þessum aldursmörkum félagsins, að svo megi verða um ókomna framtíð. Og félagið hafi mátt og djörfung til þess að vinna að auknu frelsi og menningu fólksins á þessum kyrrláta stað við hið opna haf.

Jónas Jósteinsson

Leave a Reply