Þar sem hraunið þrýtur úti fyrir ströndinni, myndast á mararbotni tangar og skagar og á milli þeirra vik og víkur, sem skerast inn í hraunbrúnina. Víkur þessar voru í daglegu tali nefndar holur, og þekktu sjómenn nákvæmlega legu þeirra. Í holunum er sléttur leirbotn, og þar var oft fiskisælt.[note]Sbr. Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 408. [/note] Þetta voru helztu fiskimið Stokkseyringa í tíð áraskipanna. Ekki var því langræði til trafala, þótt sjósókn væri að öðru leyti erfið. Yfirleitt var ekki róið lengra austur en í Baugsstaðabót, og var þangað um það bil þriggja stundarfjórðunga róður úr Stokkseyrarvör. En vestur á bóginn var að jafnaði ekki róið lengra en að Hraunsrifi, og var það um stundarfjórðungs róður, að því er gamlir menn verpa ætlun á. Hér skulu nú talin nokkur fiskimið frá tíð áraskipanna.
Hraunsrif var vestast. Mið á því er Gamla-Hraun í Hamarinn á Ingólfsfjalli, og djúpmiðið var Bakkabúðir í Hengilinn. Vestan undir því var mjög fiskisælt og inn í Litla-Hraunsholu, en mið á henni er Litla-Hraun í öxlina á Ingólfsfjalli. Hún nær inn að boðum. Austan við Hraunsrif er Bjarnavörðuhola með miðunum Bjarnavarða í Hamarinn á Ingólfsfjalli og Bakkabúðir í Skálafell. Austur af henni er Kalastaðarif frá Kalastöðum austur á Nielsenshús. Djúpmið á rifinu er Loftsstaðahóll í syðsta hnúkinn á Þríhyrningi. Þá tekur við Holukampur austur á Aðalstein og síðan Gerðahola austur að markagarðinum milli Gerða og Vestra-Íragerðis. Mið á Gerðaholunni eru Gerðar í Hamarinn á Ingólfsfjalli og Loftsstaðahóll í kvosina innan undir Eyjafjallajökli. Þá tekur við Olnbogahraun, frá því að markagarðurinn milli Íragerðanna ber í austuröxlina á Ingólfsfjalli, þar til Eiríksbakki ber í sama stað. Djúpmið er Loftsstaðahóll í Hafrafell. Þá kemur Kumbaravogshola, er Kumbaravogsbærinn ber í öxlina á Ingólfsfjalli. Djúpmið er hið sama sem á Gerðaholu. Annars er hraunbrúnin frá Sjónarhólum austur að Ýsukletti á Grunnbrún, sem kallað er, þ. e. Loftsstaðahóll í syðsta hnúkinn á Þríhyrningi. Ýsuklettur er hrauntangi. Mið á honum eru grjótvarða á sjávarbakkanum fram af Grjótlæk, og er breidd hans frá því varðan ber í Búrfell í Grímsnesi og þar til hún er komin í vestra gilið á Ingólfsfjalli, en djúpmiðið er mitt á milli Djúpbrúnar (þ. e. innsta hnúksins í Þríhyrningi) og Hafrafells. Annars er sama djúpmið austan við klettinn og vestan, unz kemur austur fyrir Baugsstaðarif, þ. e. þegar Fornu-Baugsstaðir bera í Hesteyru. Tekur þá við Loftsstaðahraun, og nær það austur að Laxgrjótum, sem eru suður undan Ragnheiðarstöðum. Djúpmið á Loftsstaðahrauni var talið Gerðabakki í Geitafell. Baugsstaðabót nefnist leirinn vestan frá Ýsukletti suður af Baugsstaðarifi og austur að Loftsstaðasundi; eru þar mikil ýsumið.
Venja var á áraskipunum að byrja að leggja inni í holunum og út fyrir hraunbrúnina, síðan austur og út í stefnu laust sunnan við Vestmannaeyjar. Þá náði útendinn fram á Hafrafell, Vatnafjöll og Heklu eftir ástæðum.
Nú á dögum eru þessi fiskimið mjög lítið notuð. Eftir að vélbátar komu til sögunnar, hefir löngum verið sótt á fjarlægari mið. Helztu fiskimið Stokkseyringa nú eru ýmist austur á Þjórsárhrauni, suður á Selvogsgrunni eða vestur um Krýsuvík og allt innan þeirra takmarka.
(Aðalheimildarmaður Guðjón Jónsson í Vestri-Móhúsum).