Bræðratunga var byggð fyrst árið 1910 og kennd við bræðurna Jón Sigurðsson í Starkaðarhúsum og Sigurð Sigurðsson bónda á Stokkseyri, er reistu býli þetta handa föður sínum, Sigurði Sigmundssyni, er áður hafði lengi verið þurrabúðarmaður í Grímsfjósum. Bjó Sigurður þar fyrst og svo Jón, sonur hans, og fleiri. Býlinu fylgdu þá 2 hektarar lands. Árið 1920 keypti Árni Tómasson húsið og réttinn á landinu, sem því fylgdi, og fluttist þá þangað, en nytjaði jafnframt Ásgautsstaði, sem hann svo keypti árið 1927. Er hann seldi þá jörð Ásgautsstaðafélaginu, hélt hann eftir 7,5 hekturum af heiðalandi jarðarinnar, því er næst lá Bræðratungu. Land þetta ræktaði hann þegar og gerði þar með Bræðratunguna að bújörð, en sjálf er hún byggð í Stokkseyrarlandi.