Hólahjáleiga var þurrabúð hjá Hólum, sem er aðeins nefnd í manntali 1703 og hefir verið í byggð fáein ár. Þar bjó Guðmundur Ormsson á elliárum sínum í skjóli sonar síns, Jóns bónda og smiðs í Hólum. Vera má, að býli þetta sé hið sama sem enn sér merki til í túninu í Hólum og kallað er Lokabær. Þurrabúð þessari má ekki blanda saman við samnefnda hjáleigu, sem lengi var í byggð. Í þessu sambandi má benda á það, að nokkur dæmi eru til þess, að þurrabúðir beri hjáleigu-nöfn (Hólahjáleiga, Hólshjáleiga, Keldnakotshjáleiga, Móhúsahjáleiga).