Félagshús nefndist vörugeymsluhús það hið mikla, er Grímur í Nesi reisti á Stokkseyri árið 1893. Það var 36 X 12 álnir að stærð, þrjár hæðir og sterklega viðað og þiljað í hólf og gólf. Austurhluta hússins seldi Grímur 1896 Birni Kristjánssyni og verzlunarfélögum hans, en þeir seldu aftur 1898 Edinhorgarverzlun í Reykjavík. Þegar Edinborg hætti að verzla á Stokkseyri 1903, keypti Ólafur kaupmaður Árnason húseignina, en seldi hana 1907 kaupfélaginu Ingólfi á Stokkseyri. Hinn hluta hússins, vesturhlutann, seldi Grímur 1895 Stokkseyrarfélaginu eða Zöllnersfélaginu, er svo var einnig nefnt, og fekk húsið af því nafnið Félagshús. Þá er Stokkseyrarfélagið hætti starfsemi sinni um 1914, mun kaupfélagið Ingólfur hafa tekið við húseign þessari. Félagshúsið brann í Stokkseyrarbrunanum mikla 9.-10. des. 1926, en á grunni þess stendur nú Hraðfrystihús Stokkseyrar.