You are currently viewing Beinateigur

Beinateigur

Beinateigur er nefndur fyrst í Jarðabók ÁM. 1708, og segir þar, að þurrabúð þessi hafi í eyði legið undir 60 ár, sé það þá aldeilis eyðilagt af sjávargangi og megi því ekki aftur byggja. Sennilegt er því, að Beinateig hafi tekið af í flóðinu mikla 2. jan. 1653. Beinateigur er elzta nafngreinda þurrabúðin í Stokkseyrarhverfi. Hann var síðan í eyði nokkuð á þriðju öld. Árið 1882 er hans fyrst getið á síðari tímum. Þar bjó þá í eitt ár Einar Ólafsson, síðar í Aftanköld, en talið er, að hann hafi búið þar í sjóbúð, en ekki reist þar bæ. En árið 1883 fluttist Sigurður Snæbjörnsson frá Brattsholtshjáleigu að Beinateig, og mun hann hafa reist þar fyrsta bæinn. Þar bjó hann síðan til æviloka 1930. Um 1945-46 var gamli Beinateigsbærinn byggður upp og fluttur lítið eitt úr stað og skírður Sætún, en þar er nú gripahús og hlaða frá Sætúni, sem bærinn stóð áður. Þegar fyrir aldamót risu upp margir bæir í Beinateig, sem höfðu lengi vel ekki sérstök nöfn, en sum hafa fengið þau síðar, svo sem Garðbær, Garðsstaðir, Hausthús og Traðarhús, sjá þau.

Leave a Reply