Grjótlækur var hjáleiga frá Traðarholti og er getið fyrst í byggingarbréfi fyrir Skipum 1591, enda segir í Jarðabók ÁM. 1708, að hjáleiga þessi sé byggði fyrir manna minni. Grjótlækur fylgdi áður fyrr jafnan Traðarholtstorfunni í kaupum og sölum.
Ekki höfum vér fundið heimildir fyrir því, hvenær hann varð séreign, en fyrir síðustu aldamót var Símon Símonarson á Gamla-Hrauni orðinn eigandi hans. Um 1920 seldi Símon Grjótlækinn Jóhanni Jónssyni bónda þar, en hann seldi aftur 1925 næsta ábúanda, Eiríki Ásmundssyni. Þegar Eiríkur fór þaðan 1932 seldi hann jörðina Sigurði Þorsteinssyni í Rvík, en hann aftur Hilmari Stefánssyni bankastjóra 1939. Síðan hefir Hilmar selt jörðina tvisvar og keypt jafnoft, síðast 25. febr. 1949, og er hann núverandi eigandi hennar.