Það var hjáleiga frá Stokkseyri og upphaflega sel þaðan, sjá nánara um það við Stokkseyrarsel. Býli þetta fylgdi austurparti Stokkseyrar og var sem hluti af henni, unz það varð séreign við skipti eftir þau Stokkseyrarhjón, Adólf Petersen og Sigríði Jónsdóttur frá Móhúsum, og kom þá í hlut sona þeirra, Jóns og Adólfs. Þeir bræður seldu það 4. nóv. 1899 Jóni Pálssyni, síðar bankagjaldkera í Reykjavík, og er það þá talið 8.14 hndr. að dýrleika. Átti Jón síðan EystraStokkseyrarselið í 40 ár, unz hann seldi það 11. maí 1939 Jarðakaupasjóði ríkisins. (Sbr. Syðra-Sel og Traðarholt). Á árunum 1848-1910 var tvíbýli í Eystra-Stokkseyrarseli, og verða ábúendur þar á því tímabili taldir í tvennu lagi.