Brattsholtshjáleigu höfum vér fyrst séð nefnda í Þingbók Árnessýslu 11. jan. 1702, en í Jarðabók Árna Magnússonar 1708 er hún talin gamalt býli af heimajörðinni Brattsholti. Það ár var hjáleigan í eyði að öðru en því, að í húsunum lá sjötugur maður karlægur, en afnot af slægjum hafði ábúandinn í Breiðamýrarholti, sem þá var Bergur Sturlaugsson. Ekki er kunnugt, hve mörg ár hjáleigan var í eyði að þessu sinni, en eftir það var byggð þar óslitin að kalla, unz hún lagðist alveg af árið 1937. Brattsholtshjáleiga fylgdi jafnan heimajörðinni allt fram um daga Þórðar Pálssonar í Brattsholti. Eftir hans dag erfði Katrín, dóttir hans, hjáleiguna, en hún bjó með Gísla Gíslasyni í Brattsholtshjáleigu. Á síðustu árum hafa slægjurnar verið nytjaðar af ýmsum.