Bæjarnafnið Tóftar er karlkynsorð í fleirtölu, en samnafnið tóft, flt. tóftir (tættur), sem er kvenkynsorð, hefir haft áhrif á meðferð nafnsins, og er það því ritað Tóftir í flestum heimildum. Í manntali 1703 er rétt með nafnið farið. Sumir hafa talið, að þetta sé sami bær sem Stjörnusteinar, er síðar nefndust Ölvisstaðir, en Flóamanna saga kallar Ölvistóftir. Sú getgáta fær þó ekki staðizt. Sjá nánara um það við Stjörnusteina. Tófta er fyrst getið í sambandi við jarðakaup 30. nóv. 1508. Þá keypti Páll Þórðarson jörðina Hróarsholt í Flóa af Stefáni biskupi Jónssyni og galt upp í andvirði þess jarðirnar Tófta fyrir 15 hndr. og Holt fyrir 10 hndr. með öllum þeim gögnum og gæðum, sem greindum jörðum fylgir og fylgja ber að fornu og nýju (Ísl. fornbrs. VIii, 253-55). Með jarðakaupum þessum verða Tóftar stólsjörð. Svo er þó að sjá sem síra Þórður í Hraungerði, sonur Páls Þórðarsonar í Hróarsholti, hafi eignazt Tóftana að nokkru eða öllu leyti, því að 15. des. 1546 lykur hann Gissuri biskupi Einarssyni 5 hndr. í jörðinni Tóft í Flóa upp í gjald það, er presti var gert að greiða biskupi fyrir mótþróa við hann ( Ísl. fornbrs. XI, 511, sbr. 456-58). Hvernig sem verið hefir um jörðina að öðru leyti, þá er víst, að Skálholtsdómkirkja eignaðist hana alla um þessar mundir og átti hana allt til þess, er stólsjarðir voru seldar undir lok 18. aldar.
Á stólsjarðauppboðinu 9. ágúst 1788 keypti Magnús Ingimundarson í Geirakoti Tóftana, 11 hndr. 40 áln. að dýrleika, með 40 álna landskuld og engu kúgildi fyrir 68 ríkisdali og 9 2/3 skildinga. Hafði jörðin þá verið í eyði um nokkur ár, en Magnús byggði hana upp aftur vorið eftir. Um þær mundir sem Magnús fluttist suður að Flekkuvík, seldi hann jörðina Marteini Vigfússyni í Óseyrarnesi, en Marteinn seldi hana aftur 14. des. 1807 Guðmundi bónda Bjarnasyni á Votamýri á Skeiðum. Næsti eigandi Tófta, sem heimildir eru um, var Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri, en óvíst er, hvenær hann keypti þá. Komu þeir í erfðahlut Málfríðar Þorleifsdóttur og svo í eigu seinni manns hennar, Jóns bónda Sveinbjörnssonar á Bíldsfelli. Snemma á búskaparárum sínum á Tóftum keypti Einar Sigurðsson jörðina af Jóni Sveinbjörnssyni, en núverandi eigandi hennar er dánarbú Einars.
Árið 1888 kom upp deila milli eigenda Tófta og Brattsholts út af slægjubletti á mörkum þessara jarða, svonefndri Tóftadæl. Eigendurnir, Jón Sveinbjörnsson og Þórður Pálsson í Brattsholti, sættust á það að taka tvo menn til gerðar hvor, en oddamaður skyldi vera Gissur söðlasmiður Bjarnason á Litla-Hrauni. Gerðarmenn komu saman á Stokkseyri hinn 7. júlí, eftir að þeir höfðu mörgum sinnum komið á þrætustaðinn og kynnt sér vandlega landsháttu og athugað vitnisburði þá, sem fram höfðu komið um landamerkin. Kvað þá meiri hluti þeirra upp svohl jóðandi gerð:
Landamerki
Landamerki milli Brattsholts og Tófta skulu vera hin sömu sem að fornu hafa verið, nefnilega:
Frá Brattsholtsvatni að austnorðanverðu ræður Neskeldan, sem er örstutt, upp í Hellisflóðið; svo frá því, sem Neskeldan fer úr flóðinu, beint yfir flóðið í aðalósinn, þar sem Borgarholtskelda rennur í flóðið. Ræður svonefnd Borgarholtskelda upp og austur, upp fyrir fremsta flóðkílinn, sem er í keldunni. Ber þá Í varshól um Brúnkollu eða Skæluskarð, og er þar hornmark við fyrir ofan flóðkílinn. Þaðan ræður sjónhending beina línu yfir Brúnkolluskarð upp í Í varshól í Breiðumýri, og liggur sú stefna nokkuð vestar en í hánorður. Frá flóðkílnum í Borgarholtskeldu gegnum Brúnkollu eða Skæluskarð og alla leið upp í Ívarshól eiga merkin að gerast glögg samkvæmt landamerkjalögum 17. marz 1882, 2. grein.
Til viðbótar þessu eru landamerki Tófta greind svo í Landamerkjabók Árnessýslu: Að vestanverðu eru mörkin eins og þau eru ákveðin í gerðardómi frá 7. júlí 1888, sem að framan greinir. En frá Ívarshól, sem er norðasta hornmark við Tóftaland, liggja mörkin til landsuðurs beina línu í Tóftaskyggni og sömu línu áfram í lítinn flóðkíl, sem þar er, í Leiðólfsstaðakeldu. Flóðkíllinn er hornmark, því úr því ræður Leiðólfsstaðakeldan mörkum fram í Leiðólfsstaðavatn; svo frá keldunni sjónhending yfir vatnið að Tóftahlöðum; frá Tóftahlöðum vestur að Brattsholtsvatni bein lína í Seigludrag, sem er hinum megin við vatnið. En úr Brattsholtsvatni ræður Neskeldan, eins og tilgreint er í áminnztri meðfylgjandi gerð frá 7. júlí 1888, og eru þar tilgreind landamerkin að vestanverðu, allt upp í fyrrnefndan Ívarshól. (Þinglesið á manntalsþingi á Eyrarbakka 16. júní 1890).
Um landskosti á Tóftum segir svo í Jarðabók ÁM. 1708 m. a.: ,,Torfrista og stunga næg, reiðingsrista lök. Elt er taði. Skógarhögg sem á öðrum stólsjörðum. Hætt er kvikfé fyrir lækjum á vetur, þá snjó og ís leggur yfir.“