Svanavatn er hálflenda hinnar fornu jarðar Kakkar, eftir að Kakkarhjáleiga hafði verið byggð úr jörðinni, sjá nánara um Kökk. Hálflenda þessi er fyrst nafngreind sem sérstakt býli í manntali 1703 og nefnist þá Efri-Kökkur. Á 18. öld festist smám saman við hana nafnið Mið-Kökkur, nefnd svo 1762 og jafnan síðan. Árið 1930 var jörðin skírð upp með stjórnarráðsleyfi og heitir síðan Svanavatn. Þetta er elzta býlið af þeim þremur, sem byggð voru úr Kekki. Kekkirnir ásamt Kakkarhjáleigu hafa jafnan verið bændaeign, og fram undir lok 18. aldar var sami eigandi að þeim öllum, og var það Stokkseyrarættin, svo lengi sem kunnugt er um eigendur. Hélzt svo allt þar til, er Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum seldi hvert býli fyrir sig um og eftir 1790. MiðKökk seldi mad. Þórdís Jóni skipasmið Snorrasyni hinn 15. júní 1792. Nokkrum árum síðar seldi Jón hann Ísólfi Þorkelssyni, síðar bónda í Gljákoti. Hinn 11. okt. 1802 seldi Ísólfur Mið-Kökkinn, þáverandi eignar- og ábýlisjörð sína, Bjarna Ormssyni í Sviðugörðum. Eftir það var jörðin í eigu hans og svo ekkju hans og seinni manns hennar, Þorvarðar hreppstjóra Jónssonar í Sviðugörðum, meðan þau lifðu. Verða eignaskipti á jörðinni ekki nánara rakin hér, unz Grímur Grímsson á Stokkseyri, síðar bóndi í Mið-Kekki, keypti hana 29. maí 1901 af Gunnlaugi Ólafssyni í Reykjavík. Hinn 23. maí 1919 seldi ekkja Gríms, Þuríður Sigurðardóttir, jörðina Jóni Jónssyni, þáverandi ábúanda þar. Jón seldi jörðina aftur Sigurði Grímssyni bónda þar, en Sigurður seldi hana aftur um það leyti, sem hann fór þaðan, Sigurði Björnssyni, núverandi eiganda og ábúanda á Svanavatni.