You are currently viewing Skipar

Skipar

Skipa er fyrst getið árið 1591 í byggingarbréfi Jóns Grímssonar fyrir jörðinni (Jarðaskjöl Árn. í Þjóðskjalasafni), en því næst árið 1605 í vitnisburði Kristínar Felixdóttur, konu Vopna-Teits, þar sem hún greinir frá dvalarstöðum sínum í æsku. Hún segist þá vera 74 ára gömul, hafa farið frá Hæringsstöðum að Skipum 11 vetra, en þaðan aftur að Ragnheiðarstöðum 17 vetra. Samkvæmt því hefir hún átt heima á Skipum á árunum 1542-1548, en þar bjó þá stjúpi hennar, Símon Gíslason, fyrsti Skipabóndinn, sem nafngreindur verður (Bréfab. Odds biskups Einarssonar). Um Skipa er það sennilegast, að þar hafi byggð risið upp þegar á söguöld, sumpart í sambandi við siglingu kaupskipa í Grímsárós (Knarrarsund), en sumpart í sambandi við útræði frá Traðarholti. Á fyrri öldum stóð bærinn á Skipum við sjó fram og hefir þá legið einkar vel við útræði úr Knarrarósi, en litlu eftir miðja 17. öld var hann fluttur undan ágangi sjávar, þangað sem hann er nú.

Nokkur ágreiningur er um nafn bæjarins, og er því rétt að fara um það nokkrum orðum. Menn hafa á síðari tímum ritað ýmist Skipar, Skip eða jafnvel Skipá. Upphaflega hefir bærinn vafalaust verið nefndur að Sleipum, þ. e. hjá skipunum eða við skipanaustin. Nafn þetta fór eftir sömu reglum sem fjölmörg önnur bæjanöfn, sem mynduð eru af hvorugkynsorðum, að þau fá endingarnar -ar eða -jar í fleirtölu og skipta jafnframt um kyn, verða ýmist karlkyns eða kvenkyns. Hin eina rétta mynd nafnsins er því Skipar, karlkynsorð, sbr. t. d. Húsar (af hús), Nesjar (af nes), Giljar (af gil) osfrv. Í elztu heimildunum, sem geyma nafnið í nefnifalli, svo sem bændatali 1681, manntali 1703 og Jarðabók ÁM. 1708, er líka alls staðar ritað Skipar, en ekki Skip. Nafnið Skipá, sem kemur meðal annars fyrir í bréfi frá lokum 18. aldar (sbr. Sögu Eyrarbakka I, 14), er ekki annað en alþýðuskýring, sem er byggð á misskilningi. Þar er staðreyndum snúið þannig við, að bærinn er nefndur eftir ánni (Skipaá), í stað þess að áin hefir verið kennd við bæinn, eftir að hið forna nafn hennar, Grímsá, hvarf úr notkun og gleymdist.

Á fyrri öldum voru Skipar eign Skálholtsstóls, en engar heimildir eru til um það, hvenær biskupsstóllinn eignaðist jörðina. Á stólsjarðauppboðinu 9. ágúst 1788 keypti Guðmundur bóndi Hafliðason Skipana, 23 hndr. 80 álnir að dýrleika, fyrir 162 ríkisd. 32 sk., en seldi þá aftur fyrir sama verð 8. jan. 1790 Hannesi lögréttumanni Jónssyni í Kaldað arnesi. Árið 1797 keypti Jón Símonarson á Ásgautsstöðum, síðar í Nesi og á Selfossi, Skipana af Hannesi í Kaldaðarnesi, og var jörðin síðan lengi í eigu hans og niðja hans. Annan helming jarðarinnar eignaðist Ingimundur, sonur Jóns, en hafði makaskipti á honum við Þorleif Kolbeinsson árið 1837 fyrir Mjóanes í Þingvallasveit. Árið 1844 gaf Þorleifur Ólöfu, laundóttur sinni, hluta sinn í Skipunum, en virðist hafa leyst hann að nokkru eða öllu til sín aftur, því að hann var meðal jarðeigna dánarbúsins eftir Þorleif, og kom hann í hlut Kolbeins, sonar hans. Þennan helming seldi Ólafur Árnason á Stokkseyri fyrir hönd Kolbeins árið 1896 Jóni Stefánssyni síðar í Götu. Hinn 24. febr. 1906 gaf Jón út byggingarbréf fyrir hálfum Skipum frá fardögum 1905 til handa þeim bræðrum Gísla og Ingvari Hannessonum, og segir hann þar svo: ,,Að mér látnum er þeim heimilt að fá jörðina keypta fyrir 1100 krónur, ef hún verður seld.“ Sama ár, hinn 22. júlí 1906, gera þeir kaupsamning, þar sem Jón selur þeim bræðrum hálfa jörðina fyrir áðurgreint verð. En þar segir svo, að „kaupendum eða erfingjum þeirra skal heimilt að heimta afsalsbréf fyrir jörðinni strax að seljanda látnum, en ekki fyrr.“ Jón Stefánsson dó árið 1907, en erfingjar hans voru tregir til að selja jarðarhelminginn fyrir tilgreint verð, og stóð í þófi um það, þar til er Guðrún Helgadóttir, bústýra Jóns og erfingi, veitti afsalið árið 1916. Hinn 23. des. sama ár veitti Margrét Jónsdóttir, ekkja Gísla Hannessonar, Ingvari bónda í Skipum afsal fyrir sinni eign í jörðinni.

Hinn helmingur Skipanna gekk lengur í ætt Jóns Símonarsonar, og varð tengdasonur hans, Símon Þorkelsson á Gamla-Hrauni, eigandi að honum og átti hann til dauðadags 1881. Eftir það eignaðist sonur hans, Símon Símonarson á Gamla-Hrauni, helming þennan og átti hann til dauðadags (1928), en síðan ekkja hans, Vilborg Sigurðardóttir á Gamla-Hrauni. Hinn 7. apríl 1931 seldi og afsalaði Vilborg þennan helming jarðarinnar Ingvari bónda á Skipum, og hafði hann þá náð kaupum á allri jörðinni. Árið 1951 seldi Ingvar syni sínum, Jóni bónda á Skipum, 3/4 hluta jarðarinnar, en ¼ á Ingvar nú sjálfur.

Hinn 6. des. 1591 gaf Oddur biskup Einarsson út byggingarbréf fyrir Skipum til handa Jóni Grímssyni. Lætur biskup þess getið, að Jón hafi óskað þess, að tilgreind yrðu í bréfinu landamerki jarðarinnar. Eru þau því skrásett þar samkvæmt því, sem gamlir menn telji rétt vera. Þetta er elzta landamerki alýsing úr Stokkseyrarhreppi, sem nú er kunn, og er hún þannig:

Landamerki

Jarðarinnar landamerki eru þessi:

1. Fyrst er klettur í fjörunni, er kallaður hefir verið Máfaklettur, milli Skipa og Baugsstaða, og sjónhending í hól, er stendur fyrir framan Skipavötn, er kallaður er Skyggnishóll;

2. síðan beint yfir um þvert í hól grænan, er stendur í öndverðri Barnanesheiði;

3. frá þeim hól í stein, er stendur mót norðri, og í lækjarvikið móts við Traðarholtsleir. Frá lækjarvikinu ræður lækurinn og sjónhending í tóttarmynd, er stendur fyrir vestan Barnanesvað;

4. frá tóttarmyndinni og í gráan stein, er stendur í heiðinni fyrir austan Helluvað kallað er; beint frá þeim steini í flóðkíl fyrir austan Grjótlækjartún;

5. rétt um þvert frá þessum flóðkíl í stein, er stendur á sjávarbakkanum á móti skeri í fjörunni.“ (Jarðaskjöl Árnessýslu).

Samkvæmt landamerkjaskjali frá 1884 eru landamerki Skipa talin þessi:

1.      Milli Skipa og Baugsstaða ræður bein stefna frá Hörpuholtslæk um Markaflóð og í gráan stein með þúfu á. Frá téðum steini er bein stefna og í Markaþúfu og aftur frá henni bein stefna og í Skruggudal, en frá honum bein stefna í Markaklett og frá honum bein stefna í Máfaklett, enda ræður sama stefna í sjó fram.

2.      Milli Skipa og Traðarholts ræður fyrst Hörpuholtslækur, þá Bjarnarneslækur (svo) allt að lækjarkjaftinum, en þaðan ræður bein stefna og í vörðu í Vaðhólum. Frá téðri vörðu ræður bein stefna og í gráan stein fyrir ofan Grímsdæl, en frá steininum ræður bein stefna í flóðkíl fyrir austan Grjótlækjartún. Þaðan ræður bein stefna í jarðfastan stein fram á sjávarbakka, og aftur frá steininum ræður bein stefna í Bollasker, sem er frammi í brimgarði (Landamerkjabók Árnessýslu, nr. 174).

Um landskosti á Skipum segir svo meðal annars í Jarðabók ÁM. 1708: ,,Fóðrast kann 3 kýr, 20 ær, 2 hestar. Allt hvað meira er framfærist á tilfengnum högum og heyjum, kaupir ábúandi fóður kvikfé sínu í ýmsum stöðum, en heyskap fær hann til af Holti, Hæringsstöðum og Traðarholti. –  Torfrista og stunga mjög lök og þrotin, svo nú þarf heytorf til að fá. Þangtekja til eldiviðar næg.“ Þvínæst segir, að silungsveiðivon, eggver og dúntekja, rekavon, fjörugrös, hrognkelsafjara og beit sé eins og á Baugsstöðum, sölvafjara sé nokkru betri en þar og skógarhögg sem á öðrum stólsjörðum. Síðan segir svo: ,,Túnum grandar sjór með því móti, að stórflóð, sem inn falla undir ís vatna þeirra, sem að ofan og austanverðu girða túnið, brjóta upp ísinn og hrinda honum á túnið, hvar hann gjörir stórskaða og færir með sér fyrst á flot jarðveginn og síðan í annan stað, svo skaðinn tvöfaldast, fyrst á því, er hann brýtur, og síðan hinu, er hann setur þessi jarðbrot upp á. Ekki er kvikfé óhætt fyrir flæðum. Vatnsból er láglendi, þar sem sjór fellur yfir í stórflóðum um vetur, og bregzt því stundum.“ (Jarðab. ÁM. Il, 45 -46).

Um ábúendur á Skipum er til gömul minnisgrein, sem er hin merkilegasta. Hún er varðveitt með þeim hætti, að Þorleifur ríki á Háeyri skrifaði hana upp eftir gömlum skjölum, sem hann fann á Skipum, en Brynjólfur frá Minna-Núpi hirti blaðið í skjalarusli eftir Þorleif látinn og skrifaði upp. ,,Það var allt rotið; þó var þetta blað læsilegt að mestu“, segir hann. Minnisgrein þessi er nú varðveitt í prestsþjónustubók Stokkseyrar hinni elztu í Þjóðskjalasafni og er á þessa leið: ,,Tómas er maður nefndur, er bjó vestur á …. , ógiftur og hélt bústýru og tók til upp(eldis) pilt og stúlku. Pilturinn dó vofe(iflega), en Tómasi varð svo mikið um, að hann se(ldi) eigur sínar allar og eirði hvergi þar um sveitir, fór svo sveit úr sveit, þar til hann komst að Hrauni í Ölfusi, var þar um lítinn tíma, fór þaðan að Skúmsstöðum á Eyrarbakka og var þar lítinn tíma, þaðan að Stóra-Hrauni, giftist þar og dó þar og átti einn son, er Hannes hét. En sá Hannes fór að Skipum í sömu sveit og átti dóttur Ingimundar, er Skipana flutti, og bjó þar allan sinn búskap. Eftir hann tók jörðina Jón, er átti dóttur Hannesar, og bjó þar sína tíð. Eftir hann tók jörðina son hans, Hafliði, og bjó þar sinn aldur, sem var 75 ár. Eftir hann tók jörðina son hans, Guðmundur, og var þar allan sinn aldur, sem var 79 ár, og eftir hann Magnús, hans sonur, tók jörðina og var á henni 66 ár og svo Guðmundur Magnússon um 11 ár. Nú er Guðrún Magnúsdóttir 1847.“ (Blanda VIii, 3, sbr. Sögu Eyrarbakka 1, 223).

Í minnisgrein þessari eru nokkur merkileg atriði, sem hvergi er annars staðar getið:

1) Sögnin um Tómas og búferli hans.

2)  Að Hannes, sonur hans, hafi búið á Skipum, en af því leiðir, að tekizt hefir að færa þá bræður, Kolbein í Holti og Brynjólf á Baugsstöðum, rétt til ættar.

3) Sögnin um Ingimund á Skipum og flutning bæjarins þar, og

4) upplýsingarnar um konur þeirra Skipabænda, Hannesar og Jóns.

Aðrar heimildir staðfesta fullkomlega, svo langt sem þær ná, ummæli minnisgreinarinnar, og höfum vér því fyrir satt, að hún sé einnig áreiðanleg og sannfróð um fyrrgreind atriði, enda þótt hún sé þar ein til frásagnar. Hennar vegna er því unnt að rekja ábúendur á Skipum óslitið frá því á fyrra hluta 17. aldar eða frá því áður en bærinn var fluttur. Það er og merkilegt til frásagnar, að allan þann tíma, sem liðinn er síðan, hafa aðeins tvær ættir búið á Skipum, hin fyrri frá því um 1630- 1883 eða í rúmlega 250 ár, en hin síðari frá 1883 til þessa eða í nærfellt 70 ár.

Leave a Reply