46-Barnaskólarnir á Bakkanum

Nokkru eftir að Guðmundur Thorgrímsen fluttist búferlum til Eyrarbakka, tók hann að vinna að því ásamt þeim séra Páli Ingimundarsyni í Gaulverjabæ og Þorleifi Kolbeinssyni á Stóru-Háeyri, að barnaskóla væri komið á stofn í sókninni, Tókst þeim það svo vel, að árið 1852 var skólinn settur að Stóru-Háeyri og í húsum Þorleifs Kolbeinssonar. Var það fyrsti barnaskólinn, sem á fót komst þar eystra. Fyrsti kennari skólans var Jón Bjarnason, síðar prestur, faðir Bjarna frá Vogi. Frá Háeyri var skólinn fluttur haustið 1877 vestur á Skúmsstaðalóð, og átti hann 25 ára afmæli þetta sama ár. Var það hátíðlegt haldið með fjölmennri veizlu.

Þennan vetur var ég um fjögurra mánaða skeið í skólanum og viðstaddur vígslu hans, en fáu man ég eftir, er þar fór fram, enda var ég þá ekki nema 12 ára að aldri. Hið eina, sem ég man betur en nokkuð annað, var það, að þar voru staddir þrír skipasmiðir frá Reykjavík, er voru að smíða skip fyrir Guðmund Ísleifsson á Háeyri. Voru menn þessir hrókar alls fagnaðar, sungu mikið og voru kátir. Einkum voru það skopvísur um einstaka menn og málefni hér í Reykjavík, sem ég heyrði þá í fyrsta sinn, þ. á. m. ,,Fríður er Björn á firði-Ísa“, ,,Komdu og skoðaðu í kistuna mína“ og margar fleiri.

Nú síðan 1913 er barnaskólahúsið austast á Bakkanum gagnvart Steinskoti og sunnan Steinskotshóps. Virðist það alllöng leið fyrir börn, sem heima eiga í Einarshöfn og Skúmsstöðum.

Gamla skólahúsið, sem byggt var 1877, er nú gistihús þeirra Eyrbekkinga.

Barnaskólinn á Stokkseyri

Barnaskólinn á Stokkseyri var stofnaður haustið 1879, og fór kennslan fram í stofu einni í Vesturbænum þar í þorpinu, en fluttist síðan í nýbyggt skólahús í Götu í Stokkseyrarhverfi, og varð Bjarni sál. Pálsson, bróðir minn, þar fyrstur kennari, en Ísleifur Vernharðsson frá Efra-Seli, þegar skólinn var vestur á Stokkseyri, einn eða tvo vetur. Átti ég þá heima á Stokkseyri og var í þeim skóla einnig um fjögurra mánaða skeið eins og á Eyrarbakka tveim vetrum áður. Nú var ég á 15. ári og fór vel fram, enda var ég þá „laus við kverið“.

Námsgreinarnar í báðum þessum skólum á Eyrarbakka og Stokkseyri voru þessar: lestur, kristindómsfræðsla, kverið og síðar biblíusögur, reikningur, skrift og danska. Auk þessa var kenndur söngur, leikfimi, landafræði, mannkynssaga og ýmislegt fleira, sem voru eigi taldar skyldunámsgreinar þá, en elztu börnin fengu að læra, ef þess var óskað.

Um skólaskyldualdur var þá ekki að ræða. Börnin voru flest á aldrinum 10-13 ára og fæst komin yfir tekt. Fann ég það þá og hef fundið það glöggt jafnan síðan, hversu börnum 12 ára að aldri notast kennslan miklu betur en á meðan yngri eru, enda þá fluglæs orðin, búin að „læra út“ kverið sitt og biblíusögurnar, gátu fleytt sér í fjórum fyrstu greinum reiknings og mörg þeirra sæmilega skrifandi. Allt þetta lærðu þau í heimahúsum, en nú – ekkert þar!

Skólatímarnir byrjuðu ávallt með söng og bænalestri, og svo var aginn góður, að kennarar þurftu aldrei að beita neinu valdi við börnin né refsingum. Er mér þetta vel kunnugt sem kennara þar eystra um 16 ára skeið.

Leave a Reply

Close Menu