20-Skemmtilegir menn og skrítnir náungar

Það væri ekki ólíklegt, að segja mætti ýmsar skemmtilegar og skrítnar sögur af ýmsu því, er fyrir augu og eyru bar meðal hinna mörgu manna, er viðskipti höfðu við hina víðfeðmu verzlun á Eyrarbakka, áttu þar heima og atvinnu sína stunduðu á þeim slóðum allan ársins hring. Til fróðleiks og skemmtunar vil ég aðeins minnast nokkurra atburða og einstakra manna í sambandi við þá.

Svo var háttað í aðalverzlunarhúsinu (búðinni eða réttara sagt krambúðinni), að syðst í suðurhorni hennar var upphækkaður pallur, og sat verzlunarstjórinn þar eða helzti bókhaldarinn á stóli sínum og sneri að almenningi, er vann að afgreiðslunni eða stóð utan við borðið og beið hennar, en bak við hann og í sjálfu horninu voru viðskiptabækurnar geymdar á daginn í skápi nokkrum með nál. 200 hólfum, því að í hverju knippi bókanna vorn 20 bækur og viðskiptamennirnir, sem þar áttu hvert sitt „númer“, voru nærri 4000 talsins, eins og fyrr er sagt.

Sérhver sá bókhaldari eða afgreiðslumaður, er byrja vildi afgreiðslu sína, gekk því að skápi þessum til þess að ná í bók viðkomandi viðskiptamanns; væri það verzlunarstjórinn eða sá, er sat í sæti hans, sem vildi ná í bók úr skápnum, varð hann að standa upp úr sæti sínu, ganga að skápnum og finna bókina.

Fyrir neðan upphækkaða pallinn stóð svo viðskiptamaðurinn og sagði til um það, hvað hann vildi fá út úr reikningi sínum, en bókhaldarinn ritaði það oft á blað nokkurt fyrir framan sig og oft án þess að gæta að því fyrirfram, hvernig reikningur viðskiptamannsins liti út eða hvort hann gæti borgað allt það, er um var beðið. Þegar bókinni hafði verið náð, sýndi það sig oft, að skuldin var orðin svo mikil, að eigi mátti þar miklu við bæta. Þó var það jafnan venja, að ef viðskiptamaðurinn var fallinn frá og taka þyrfti eitthvað til útfarar hans og erfisdrykkju, sem þá voru tíðkaðar mjög og enginn mátti án vera, sem gera vildi útför vinar síns eða ættmennis sæmilega úr garði, – þá var sjálfsagt, að hann fengi eigi aðeins „úrlausn“ nokkra, heldur og svo ríflega úti látna, að átölulaust væri, jafnvel þótt skuldin væri nokkuð há.

Nú var það eitt sinn, að Halldór í Klængsseli kom í Bakkabúðina, hitti Nielsen gamla í sæti sínu á upphækkaða pallinum og sagði: ,,Komið þér nú sælir, Nielsen minn!“ Nielsen tók kveðjunni vel og bjóst til að skrifa úttektina á blað, án þess að ná í viðskiptabók mannsins. Bar Halldór þá fram erindið á þessa leið: ,,Nú er hann pápi dauður; hann skildi við, karlsauðurinn um dagmálabilið í gærmorgun, og nú er ég kominn til þess að biðja yður, Nielsen minn, að hjálpa mér um ýmislegt og sitt af hverju, svo að hægt verði að koma honum í jörðina, blessuðum“.

,,Ja, sélsagt, Halldór mín. – Ja, saa, er pabba din död? – Ja, men han var nu skyldig, pabba din“. „Jæjha! – Ekki trúi ég nú því, að hann hafi ekki átt fyrir sáluhjálpinni sinni, hann pápi minn, þegar hann féll frá.

Nielsen varð var við mismæli Halldórs og brosti. Skrifaði hann svo á blað sitt það, sem Halldór bað um, en dró jafnan eitthvað úr því um leið, enda lét hann þá í ]jós, að þetta eða hitt væri of mikið og reikningur gamla mannsins mætti ekki við því, að það væri svona mikið af hverri tegund, sem Halldór bað um. Loks biður Halldór um 2 skeffur af grjónum.

„Nej, nej, Halldór, det er altfor meget, een Skeppe er nok!“ segir Nielsen.

„Nei, Nielsen minn; það verður ekki nóg, því að það á að verða í aðalmatinn og munnarnir verða margir, enda veit ég, að hann pápi sálugi mundi vilja hafa góðan grjónagraut helztan til matar, ef hann mætti ráða, því að honum þótti hann alltaf mata beztur, meðan hann lifði, og grjónagraut vildi hann pápi alltaf hafa um jólin og í túngjöldin, blessaður, og þá má ekki draga úr brennivínslögginni, Nielsen minn!“

„Ja, saa, kanske“, sagði Nielsen, um leið og hann stóð upp, til að ná bókinni úr skápnum og segir: ,,Ja, vi skal nu sjá!“

Varð Halldór þá gramur í geði og sagði: ,,Það þarf ekki að gá að því! Hann er dauður!“

Nielsen brosti að þessu, náði í bókina og sá, að karlinn hafði staðið sig vel; hann lét því Halldór hafa allt það, er hann hafði beðið um og grjónaskeffurnar líka. Vitanlega fékk hann einnig „brennivínslöggina“, sem hann bað um.

*

Öðru sinni kom unglingsmaður, Einar í Hallskoti, í búðina. Nielsen afgreiddi hann og sagði um leið og hann leit í viðskiptabók móður Einars, sem var ekkja: ,,Mamma din staar sig godt, siðen pabba din dó!“ „Ó-já“, sagði Einar hróðugur nokkuð, ,,hún mamma þarf ekki að sjá eftir því, að hann pápi dæi“.

*

Nielsen gamli fór utan og dvaldist þar nokkurn hluta vetrar. Þegar heim kom, spurði hann almæltra tíðinda, og var honum m. a. sagt, að Guðmundur á Háeyri hefði þá nýlega gengið í Goodtemplararegluna. Svo undrandi varð Nielsen við fregn þessa, að hann setti hljóðan um stund, unz hann segir: ,,Guðmundur paa Háeyri bleven Templar!“ Og sat hann nú hugsi enn um stund, en segir svo:

„Ja, saa faáer han jo des bedre Tid til at udföre sine mörke Planer!“

*

Jón í Koti var kenndur vel, lét illa og ólmaðist mjög. Hann var með frískustu og færustu mönnum á Bakkanum. Morgun einn voru allir að fara heim kl. 10 til miðdegisverðar og margir komnir út úr búðardyrunum, þar sem Jón í Koti er að kljást við menn og varna þeim útgöngu, því að hann vildi komast inn og fá meira brennivín. Kemur þá einn búðarþjónanna aftan að honum, án þess að hann varði, rekur tvo fingur sína í munn Jóni, en þó eigi svo langt, að þeir komist inn fyrir tennur hans, og snýr maðurinn Jón niður. Nielsen kemur þá út úr búðardyrunum í sömu svifum og sér viðureign þeirra Jóns og mannsins og segir við hann:

,,Er De gal, Menneske! – Pas paa! Jón í Koti har Havkarls-tænder !“

Guðmundur í T. átti laglega konu. Þeim kom fremur vel saman, þótt hann væri nokkuð þungur á bárunni, d honum líkaði ekki allt sem bezt. Nú fann hann bréf til konu sinnar frá ungum nágranna þeirra, og sýndi bréfið það, að vinátta mikil var að takast milli hans og konunnar, og fékkst Guðmundur lítt um það í bili, en hafði þó orð á því, að þau yrði að skilja, ef slíku færi fram.

Nú bar svo við, að Guðmundur kom í Bakkabúðina snemma dags með marga hesta fullklyfjaða verkuðum saltfiski. Hafði hann borið baggana inn og sat nú hjá þeim og beið afgreiðslu, þungur mjög á brún og brá, því að hann ætlaði heim aftur til að sækja meiri fisk um daginn. Brakandi þurrkur var og hætta á, að fiskurinn kynni að sólbrenna, ef hann væri eigi tekinn saman nógu fljótt.

Meðan Guðmundur situr þarna í þungum þönkum, ber vinnumann Nielsens þar að, og hét hann S. – Þeir voru gamalkunnugir, höfðu verið saman á skipi í Höfninni og komið verulega illa saman, því að S. var háðskur mjög, en Guðmundur annars sinnis.

Sennilega hefur Guðmundi fundizt, að nú væri hentugur tími til að sýna fornvini sínum S., hverjar mætur hann hefði á honum, og byrjar því samtalið á þessa leið:

,,Ert þú orðinn vinnumaður hérna hjá honum Nielsen?“ ,,Ó-já, svo á það að heita“.

,,Það væsir þá ekki um þig í þeirri stöðu“. ,,Nei, mér líður vel, og ég hef það gott“

„Já, því trúi ég: Þú getur gengið hér um allt, gramsað í öllu, eins og þú eigir það og hirt það, sem aðrir skilja eftir eða týna; þú hefur alltaf hirðumaður verið“

„Lítið lætur nú að því, Guðmundur minn, en ég hef eigi undan neinu að kvarta“.

„Og þú notar þér það vænti ég, ef ég þekki þig rétt. Ég held annars, að ég ætti að fara að hætta þessu andsk ….. búskaparbasli, koma krökkunum fyrir og verða vinnumaður hans Nielsen gamla“.

Glaðnaði þá mjög yfir S., og segir hann um leið og hinn sleppir orðinu:

,,Já, það ættirðu að gera, Guðmundur, hætta að búa, koma krökkunum þínum fyrir og verða vinnumaður hérna hjá honum Nielsen gamla, því að einhver verður til þess að hirða konuna þína!“

Guðmundur þagnaði; en S. leit til ham; hornauga og brosti lymskulega mjög.

*

Þá voru þeir einnig skrítnir nokkuð Bakkakarlarnir sumir, er voru utanbúðar við verzlunina. Gerðu sumir þeirra sér oft ferðir í tjöld ferðamanna og þágu að þeim góðgerðir, hangið kjöt, osta og smér án þess að láta fé koma fyrir, heldur góð orð um vöru þeirra, ef vera kynni, að hún hlyti betri dóma en vera bar, t. d. að ullin væri deig eða sandborin mjög.

Nú var það Hannes gamli á L., er gekk oft meðal tjaldanna, en er inn í verzlunarhúsin kom og verið var að meta og virða vöru ferðamanna, gekk Hannes gamli þar um, leit vandlega og vel eftir öllu, og að því athuguðu lagði hann leið sína til matsmanna og muldraði fyrir munni sér án þess að þeim, er til hans heyrðu, væri ætlað að leggja eyru við því, er hann sagði, sem oft var á þessa leið:

,,Sauðarull frá Árna á Reynifelli – fætlingar og gemlingshnokrar frá Teiti á Grjótá – svona skal það alltaf vera – ætli maður þekki það – og svo fá báðir jafnt fyrir vöru sína: Árni fyrir sandlausu ullina sína og Teitur á Grjótá fyrir þessa líka h ….. hnökra“.

Hannes gamli vissi, hvað hann söng, því að Árni á Reynifelli var ríkasti ullarinnleggjandinn, og hjá honum fékk hann ávallt beztu góðgerðirnar, en Teitur á Grjótá var fátækasti bóndinn í sömu sýslu, en hann gat ekkert gefið Hannesi gamla.

Vitanlega var þessu rausi Hannesar gamla lítið sinnt, en sami var tilgangurinn: að bæta fyrir öðrum, sem sízt þurfti þess við, en spilla fyrir hinum, sem minna hafði og jafnvel betri vöru.

Sjálfur var Hannes gamli vel efnaður, en vegna nízku sinnar tímdi hann ekki að éta og gekk ávallt í gulgrænu skothaldi, sem tjaran og lýsið huldi Loks kom að því, að Lefolii fyrirskipaði, að annað hvort skyldi Hannes gamli fara úr vinnunni eða losa við sig skothaldið, og kaus Hannes gamli síðari kostinn.

*

Margar fleiri sögur mætti af þessum körlum segja, en sumar þeirra eru þegar ritaðar á ýmsum öðrum stöðum, og vil ég því eigi endurtaka þær. Að lokum þó eitt dæmi af mörgum um viðureign Dana við íslenzkuna.

Álfur hét maður, Skíðason frá Bár. Þegar· Álfur kom í Bakkabúðina í verzlunarerindum, höfðu íslenzku verzlunarmennirnir gaman af því að láta hina dönsku félaga sína kalla upp nafn hans utan fyrir búðarborðið og láta hann vita, að nú væri komið að honum. Danirnir kölluðu nafn hans upp þannig:

„Alf Skídson fra Bor!“ – Á sömu lund fóru þeir með nafn Runólfs á Rauðalæk: ,,Rúnjolvug i Rá-di-lekug!“

Dani nokkur var mjög áhugasamur um að læra íslenzku.

Hann fékk íslenzkan félaga sinn til þess að kenna sér málið, og byrjaði kennarinn á því, að láta hann bera fram nafnið Rosmhvalaneshreppur.

Daninn reyndi að hafa það eftir á þessa leið: ,,Rosmvalanesreppuög!’“ – ,,Nei, þetta er rangt! Það á að vera h fyrir framan v og r“. Daninn reyndi aftur og aftur, unz hann þóttist hafa náð hinum rétta framburði og segir: ,,Rosmvalanesreppuög-há!“ Þar með var þeirri tilraun lokið. En að hann reyndi að þýða auðvelda, íslenzka setningu á danska tungu? Lærimeistarinn valdi til þess setningu, er hljóðaði svo: ,,Sólin er í hjálmaböndum, og mér virðist, að hann ætli að þræsa í öfugan klósigann enn um hríð“.

Þegar Daninn hafði heyrt setningu þessa margendurtekna, var honum öllum lokið og sagði: ,,Nej, Tak! – Nu ikke mere! Tak skal De ha“ Far vel!“

Þannig mætti taka ótal dæmi af ýmiss konar græskulausu gamni, er fram fór meðal Dana og Íslendinga, sem venjulega kom þó vel saman, enda hefði þeim eigi tjóað annað undir stjórn þeirri, er þeir voru, en hún var bæði ströng og réttlát.

Leave a Reply