Bakkinn og Bakkamenn
Niður við sjóinn og á strandlengjunni milli ánna, þ. e. Þjórsár að austan og Ölfusár að vestan, eru þorp tvö, Eyrarbakki og Stokkseyri, sem einu nafni hafa nefnd verið Bakkinn, enda eigi órétt, að öll strandlengjan væri áður fyrri nefnd þessu nafni. Þegar menn úr uppsveitum Árnessýslu og enda víðar að fóru hinar svonefndu slógferðir sínar á vetrum niður í verstöðvarnar, Loftsstaði, Tungu, Stokkseyri og Eyrarbakka, kölluðu þeir það að fara í slógferð niður á eða út á Bakka. Svo var og um þá, er stunduðu sjómennsku í veiðistöðvum þessum, að þeir sögðust ætla að róa á Bakkanum. Hann náði því, eins og áður er sagt, alla leið á milli ánna meðfram sjónum, þótt löng leið væri. Útræði á Bakkanum var að vísu ekki gott, en aflasælt var þar frekar en víða annars staðar, og sóttu menn þangað úr austursýslunum öllum, Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslu um margra alda skeið ærinn afla, og má svo segja, að þetta sé svo enn í dag.
Sem eitt dæmi þessa má geta þess, að Vopna-Teitur Gíslason hinn sterki (f. 1529, á lífi 1605), er heima átti í Auðsholti í Biskupstungum, var formaður á Stokkseyri um 40 ára skeið, þótt hann byggi annars búi sínu að Auðsholti.
Vopna-Teitur var fráafi, þ. e. langalangafi Bergs Sturlaugssonar í Brattsholti (sjá Bergsætt. Formáli IX). Teitur er sagður hafa borið síðastur manna vopn til mannfunda á Íslandi.
Vegalengdin milli Stokkseyrar og Eyrarbakka er rösklega einnar klukkustundar leið fyrir gangandi mann, en á milli ánna mun vera hér um bil sex tíma gangur. Liggur leiðin um beinharða valllendisbakka, grasi gróna víðasthvar, með sendinni malarrót og hvítgulum skeljasandi. Má enn sjá þar fyrir fornum götum og troðningum eftir hinn ótölulega fjölda ferðamanna, er lögðu leið sína um þessar slóðir. Eru troðningar þessir einna gleggstir vestan Baugsstaðaár, ofanvert við sjávarkampinn, og má sjá götur þessar liggja hlið við hlið um eða yfir eitt hundrað talsins á alfaravegi þessum, er fram undir síðustu aldamót má segja, að verið hafi einna fjölfarnasti vegur landsins, enda áttu menn ærin erindi út á Bakka einhvern tíma ársins vegna útræðisins þar og hinnar miklu verzlunar, sem þar var um margra alda skeið.
Þeir, sem þorp þessi byggja, voru oftast nefndir og eru jafnvel nefndir enn í dag Bakkamenn eða Bakkakarlar. En þeir áttu jafnframt annað og sameiginlegt heiti með þeim, er byggja sveitir þær, er ofar liggja neðan Merkurhrauns milli Ölfusár og Þjórsár: Þeir voru í lítilsvirðingar og niðrunarskyni nefndir einu nafni Flóafífl. Naumast getur nafnið veglegt kallazt og mun í fyrstu hafa verið til fundið sem heimskulegt hótfyndnisnafn. Það hefur því aldrei verið réttnefni og því síður, að þeir, sem það var ætlað, hafi átt það skilið. Því til sönnunar má benda á það, sem Eggert Ólafsson segir um Flóamenn í ferðabók hans og Bjarna Pálssonar landlæknis fyrir nærri 200 árum. Þar farast honum orð á þessa leið: ,,Þá hefur það ef til vill stutt að þessum orðrómi um Flóamenn, að þeir líkt og Skaftfellingar nota ýmis orð og talshætti, sem ekki tíðkast annars staðar, en er flest gamalt og gott mál, og eiga þeir hrós skilið fyrir það, að í engri sveit á Íslandi, sem liggur jafnnærri kaupstað og Flóinn, er málið talað jafnhreint og óbjagað og þar“. (Ferðabók II, 253).
Þessi orð eins hins mætasta og bezta Íslendings, sem uppi var á 18. öldinni, eru verðskulduð lofsyrði, er ætla má, að eigi við enn í dag.
Til frekari áréttingar orðum þessum vil ég geta þess, að ég hef um margra ára skeið leitað mjög eftir fágætum og sígildum orðum í íslenzku máli og hvergi fundið þau fleiri né frumlegri en einmitt í sveitunum þar eystra. Af handahófi tek ég aðeins fá orð til sannindamerkis og samanburðar sem sýnishorn: Grjúpán er almennt notað austur þar; hér í höfuðstaðnum og víðar er það nefnt ,,pulsa“, og virðist það hafa náð rótfestu í málinu. Þá eru orð sem þessi: at (nafnorð), snoðræna, bríssmér, súgur (nafn á smíðaáhaldi), los, lossabrigði (latmæli), skerjála, refilþá, súrn (sjósóttarmeðal hið bezta) o s. frv ., sem varðveitzt hafa þar eystra, eru þar enn á hvers manns vörum, en óvíða annars staðar í landinu, svo að neinn skilji þau eða þekki þýðingu þeirra, en þó svo merkileg, að þau mega eigi falla í gleymsku né fyrnast með öllu.
Þá hafa Flóamenn og íbúar Austursýslnanna allt til þessa fengið orð fyrir óvenjulegan dugnað til allrar vinnu, bæði á sjó og landi, enda er það áberandi og athugunarvert, hversu margir vorra vöskustu sjómanna eru þaðan ættaðir. Einkum hefur það og verið rómað, að þeir væri allra manna áreiðanlegastir í öllum viðskiptum. Orð þeirra og loforð voru jafnan gild, þótt engir samningar væri um þau gerðir. „Ég heyri, hvað þú segir“, var tíðum viðkvæði þeirra, er einhver beiddist hjálpar eða láns hjá þeim og þeir aftóku það eigi þá þegar að verða við beiðninni. Henni var fullnægt vonum bráðar án frekari skilmála en þeirra, að staðið væri í skilum á tilteknum tíma. Þá voru þeir engu síður en aðrir landsmenn gestrisnir og hjálpsamir og miðluðu oft af litlum efnum sínum nauðstöddum flökkulýði þeim, er á leitaði í harðindum og harðæri, enda bar þar oft nauðsyn til fyrr á tímum. Hins vegar voru þeir einkennilegir í háttum sínum og siðum og bundu eigi ávallt bagga sína sömu hnútum sem aðrir samferðamenn þeirra; mun þetta eigi sízt hafa átt sinn þátt í því, að þeim var valið áðurnefnt hnjóðsyrði í nafngift, sem ávallt verður talið óviðeigandi og að engu hafandi í þeirri merkingu, er því er ætlað að hafa. Þennan löst vorn Íslendinga, hefnigirni í orðum, má rekja fram í forneskju, og bera hin fjölda mörgu uppnefni, sem Íslendingar hafa gefið mönnum og stöðum hér á landi, þessa ljósastan vottinn[note]Sbr. Guðm. Finnbogason, Íslendingar, bls. 345-46. [/note]. Að þetta sé svo enn í dag, er alkunna, og þarf í því sambandi eigi annað en benda á hin harðvítugu og oft andstyggilegu skrif íslenzku blaðanna, að ógleymdum umræðum manna á stjórnmálafundum, sem oftast eru eigi annað en leiðinlegasti rógur og svívirðingar um menn og málefni.
Loks má geta þess, að héraðinu sjálfu, Flóanum, var einnig valið óvirðingarnafn. Hann var oft nefndur Svarti-Flói. Nafn þetta mun að minni hyggju vera svo til komið, að menn hafa stundum séð einkennilega dökkleitum litarblæ slá á hið víðlenda, iðjagræna flatlendi milli ánna, alla leið niður að sjó, þegar þeir síðla dags og að sumarlagi litu þangað úr mikilli fjarlægð, t. d. undan Ingólfsfjalli eða ofan af Kambabrún. Litarblæ þennan getur þó eigi að líta, nema sérstaklega standi á með veðráttuna á þessum slóðum, sem sé hornriða að sumarlagi eða með öðrum orðum biksvart þykkviðri til hafsins með austanfláa til fjalla og bjarmalýstri grábliku í kollheiðríku lofti. Einungis þá, er veðráttu er þannig háttað, er Flóinn svartur yfirlitum. Annars er hann, sem kunnugt er, iðjagrænt undirlendi og eitt hið fegursta og frjósamasta hérað landsins.
Þess mun óvíða getið í annálum eða öðrum fræðiritum, að í Flóanum eða á Suðurlandsundirlendinu hafi menn liðið hungurdauða fyrir harðréttis sakir eða langvarandi skorts á viðurværi.
Að vísu var þar oft þröngt í búi hjá almenningi, svo að Bakkamenn höfðu fátt annað sér til matar en harðasæjur og murur, en söl til smekkhætis eða jafnvel málsverðar með agnamjölvatni eða grasaystu. Þótt oft væri þetta einmælt, var það þó nægilegt til þess að firra menn hungurdauða. Sjaldan mun þó því líkt neyðarástand hafa staðið lengi í senn, og aldrei nema þá, er aflinn um aðalbjargræðistímann brást gjörsamlega, því að komið gat það fyrir, að eigi varð róið til fiskjar á vetrarvertíðinni frá febrúarbyrjun fram að lokum (11. maí). En á slíkum neyðartímum vildi stundum til það happ með óhappi, að sjávarflóð, eitt eða fleiri, gerði að vetrarlagi, sem skoluðu fiskinum á land upp, alla leið upp á tjarnirnar fyrir ofan Bakkann. Þegar svo ísa leysti upp á vorin, reru menn út á sölvabátum sínum eða óðu út í tjarnirnar og öfluðu mikils fiskjar á þessa lund. Varð fiskifengur þessi oft og einatt engu minni en á meðalfiskiárum, svo sem í hinu mikla Stóraflóði 9. janúar 1799, er skolaði ógrynni fiskjar upp í tjarnirnar, svo að eigi einungis Bakkamennirnir, heldur og uppsveitirnar nutu góðs af og fengu uppgripa-afla, enda voru slógferðirnar þá enn mjög tíðkaðar og lengi síðan. Þá var það enn almennt mjög, að menn lifðu á sölvum, enda gengu þau kaupum og sölum manna á milli, og mundi svo vera enn í dag, ef nokkur vegur væri til þess að afla þeirra. Ein vætt (80 pund) af sölvum jafngilti 20 fiskum á landsvísu eða hálfum fjórðungi hvors, smjörs og tólgar, en væri kjöt lagt á móti, var sölvafjórðungurinn metinn 3-5 fiska virði eftir gæðum.
Svo var sölvanotkunin mikil, að uppskera þeirra nægði oft eigi allt árið, og var í því efni sem öðrum oft og einatt um misæri að ræða. Yrkingin var svo mikil, að þau voru uppurin í öllum stórstraumsfjörum ár eftir ár nema þá, er mikil ísalög voru á lónum og skerjum, eins og t. d. veturinn 1881. Hinn 12. febr. það ár rak hafís mikinn að landi, og lá hann í hrönnum upp að allri suðurströndinni og skóf hvert tangur og tötur af skerjum öllum og lónum, en sumarið eftir var sölvasprettan óvenjulega góð. Síðan hætt var að yrkja fjörurnar, hafa sölin gengið svo mjög til þurrðar, að þar sést nú naumast nokkurt sölvablað nema á þörungum og þöngulhausum yzt við brimgarðinn.
Hrognkelsa- og silungsveiði er þarna nokkur, sela- og hnísuveiði mikil, ef stunduð væri. Nægtabúrið var því sjórinn. Reyndist hann oft happadrjúgur, þrátt fyrir það þótt aðstæður til sjósóknar væri allar erfiðar mjög og harla áhættusamar sökum hafnleysisins og annarra staðhátta. Þarna eru engar víkur né vogar eða önnur afdrep fyrir hinum himinháu, hvítfyssandi holskeflum úthafsins, hins ægilega stórveltubrims, sem hvergi mun eiga sinn líka hér· við strendur landsins eða þar, sem sjór er stundaður. Langtímum saman hamast brimið við ströndina austur þar, þótt sjór sé með öllu ládauður annars staðar. Er það sannarlega eigi heiglum hent að etja kappi við þvílíka forynju sem brimið er á þessum slóðum. Hefur margur ungur og efnilegur maður orðið því að bráð án þess nokkrum verulegum björgunartilraunum hafi verið hægt við að koma.
Hversu oft hafa foreldrar orðið að horfa á sonu sína berjast við dauðann úti í brimgarðinum í fárra faðma fjarlægð án þess að geta nokkuð aðhafzt þeim til bjargar. Á síðastliðnum hundrað árum hafa, að því er ég hef komizt næst, farizt nálægt 160 menn í veiðistöðvunum milli ánna og nær allir á brimsundi.
Hin stranga og stöðuga barátta þeirra Bakkamanna við brimið og sæinn hefur orðið til þess, að þeir hafa nú um langan aldur þótt skara fram úr í dugnaði og djörfung til sjávarverka allra, enda er það áberandi, eins og áður er sagt, hversu margir hinna vöskustu sjómanna vorra eru þaðan ættaðir og upprunnir.
Þess hefur stundum verið getið, að kvenfólk hafi stundað sjóróðra á vetrum austur þar. Vissi ég þess mörg dæmi í æsku minni, að svo var, en þó mun það hafa verið enn tíðara áður[note]Sbr. Brynjólfur Jónsson, Ritsafn I, bls. 4-5 nm. [/note]. Árið 1828, hinn 7. apríl og 5. maí farast 2 skip á Stokkseyri með 10 manna áhöfn hvort þeirra. Þar á meðal var ein kona, Kristín Brandsdóttir vinnukona á Stokkseyri, 42 ára að aldri, dóttir sægarpsins mikla, Brands Magnússonar í Roðgúli. Fram undir. 1870 eða jafnvel lengur gengu kvenmenn til sömu vinnu sem karlmenn, og var þá oft talað um, að þessi konan eða hin væri karlmannsígildi. Þótti konum sér síður en svo vansæmd nein eða verðung sýnd með þeim samjöfnuði, enda voru þær engu síður fisknar á færi sín en karlmenn né ódeigari til áræðis en þeir. Sumar þeirra, eins og t. d. Þuríður Einarsdóttir formaður, var um 40 ára skeið fyrir skipi í brimveiðistöðinni miklu, Stokkseyri, og einnig í Þorlákshöfn. Þótti hún með afbrigðum happasæll formaður og skipstjórnarmaður á brimsundi, og var það þó eigi heiglum hent að sitja undir stýri og halda hvorum stýristaumi í hendi sér, brugðnum yfir axlir, einkum þá er undan skar eða árar voru settar í kjöl og skipið látið hlaupa með brimsjónum alla leið inn úr sundinu. Þuríður formaður þótti standa svo vel í stöðu sinni, að til hennar völdust jafnan dugandi menn sem hásetar. Hún var fædd árið 1777 og andaðist í hárri elli hinn 13. nóv. 1863, 86 ára að aldri. – Á ég bréf eitt, er hún hefur skrifað ári áður en hún dó (dags. 20. nóv. 1862), og er það fágæt eign og merkileg.
Sennilega yrðu þær fremur fáar stúlkurnar nú á tímum, er gefa vildu sig við þvílíkum störfum sem nú var lýst, enda er uppeldi og hugsunarháttur alþýðu manna breyttur mjög frá því, sem áður var. Það var alls eigi fátítt áður fyrrum, að konur klæddust karlmannafötum, ef svo bar undir eða þætti betur henta við vinnuna, t. d. við fénaðarhirðingu á vetrum, í sölva- eða þangfjöruferðum, við að ferja yfir ár eða jafnvel skera torf. Þrátt fyrir þetta mikla strit voru þær engu kvellisamari né kveifarlegri en konur gerast nú, og náðu margar þeirra háum aldri.
Vafalaust munu margir, bæði karlar og konur, sem mesta árveknina sýndu og ötulleikann við óeigingjörn störf sín í þágu lands síns og þjóðar, en lögðu jafnframt traustan grundvöll undir efnahag sinn og sjálfstæði, minnast margra sælustunda frá þeim tímum og þeirra bezt, þegar um mestar mannraunirnar var að ræða og geigvænlegustu hætturnar. Fólki þessu er nú tekið að fækka, en finnast mun það enn. Æskulýði landsins verður. það aldrei nógsamlega leitt fyrir sjónir, hversu harða baráttu forfeður þeirra og mæður urðu að heyja til þess að öðlast hið andlega og efnahagslega sjálfstæði, er vér niðjar þeirra fáum nú að njóta. Óskandi væri, að hin uppvaxandi kynslóð vildi varðveita þennan arf forfeðra sinna sem sína mestu gersemi.