Til þess var eigi ætlazt af minni hálfu, að neitt það, er ég hef safnað, kæmi út á prenti, heldur geymdist það sem handrit fyrst um sinn, er svo síðar meir gæti orðið að einhverju leyti sem heimildarrit, ef út væri gefið, enda fjallar það um margvísleg efni, óskyld mjög og umfangsmikil. Það er hripað upp í frístundum mínum og flestum ókunnugt nema þeim, er heyrt hafa mig lesa það upp í ýmsum félögum hér í bænum og víðar, á skemmtisamkomum og við ýmiss konar tækifæri, og þá aðeins nokkrir kaflar úr því.
En þar eð góðvinir mínir margir hafa farið þess á leit við mig·, að ég leyfði þeim að sjá um útgáfu einhvers hluta safns þessa, og þeir fengið hr. Ragnar Jónsson til þess að kosta útgáfuna, hr. Guðna Jónsson magister til þess að sjá um hana, leiðrétta og lagfæra það, sem hann kann að finna athugavert, skýra það og auka við, sá ég enga ástæðu til að meina þeim það, enda er hér um ágætismenn, hvorn á sínu sviði, að ræða. Guðni magister Jónsson hefur ráðið nafni bókarinnar, og ég fengið einn hinn vinsælasta listmálara landsins, hr. Eyj. J. Eyfells, til þess að mála táknmynd um nafn bókarinnar, og birtist hún í eðlilegum litum framan á kápunni.
Þar eð ég er enginn „kæmeistari né konubróðir“ í íslenzkri málfræði, setningaskipun eða réttritun -, enda eigi „skólagenginn maður“ – býst ég við gagnrýni nokkurri á ritum þessum, og mælist ég eigi undan henni, síður en svo, enda get ég þá búizt við leiðréttingum og betri skýringum á því, er ég kann að hafa misskilið eða mér yfirsézt að athuga.
Læt ég svo þetta fljóta með í „Stóraflóði“ því, er nú flæðir yfir landið, og vona, að enginn ránbugur verði á leið þess, áður en það nemur land á ,,Löngufjörum“ bókaútgáfunnar í ár.
Tilgangur minn með greininni um „Veðurmerki og veðurspár“ er einkum sá, að benda mönnum á að líta til loftsins – ,,gá til veðurs“ – oftar en þeir gera, hvað sem svo hinum vísindalegu veðurspám líður; þær geta verið góðar út af fyrir sig, og athuganir mínar býst ég ekki við, að breyti neinu um gagnsemi þeirra, en verði aðeins til leiðbeiningar þeim, er þær vilja nota, þar sem þær eiga við og geta að haldi komið.
Reykjavík, í desember 1944.
JÓN PÁLSSON.