Sennilega er hvergi eins hægt að segja fyrir um væntanlegt veðurfar á Íslandi og á neðanverðu Suðurlandsundirlendinu. útsýnið í allar áttir er þar svo mikið, að óvíða er það eins víðfeðmt og vel til þess fallið að veita því athygli og ætlast á um, hverju viðra muni næsta dag, daga Og vikur. Sjómennirnir góðu og gömlu á þessum slóðum höfðu jafnan vakandi auka á öllu því, er að þessu laut. Það var lífsnauðsyn þeirra, enda sóttu þeir sjóinn af miklu kappi og meiri forsjá en segja mátti um stéttarbræður þeirra í öðrum veiðistöðum, þótt dugandi sjómenn væru.
Brim og beljandi hafrót eru daglegir viðburðir við strönd Suðurlandsundirlendisins, sem liggur fyrir svo opnu hafi, að hvergi er neinn vogur eða vík til af dreps eða skjóls, heldur gínandi útsær Atlantshafsins alla leið að suðurheimskauti. Hvergi er land né eyja á allri þeirri óraleið, sem dregið fær úr hinum háu haföldum, er þær steðja að ströndinni og falla með feikna afli á söndum eða skerjagarði Suðurlandsundirlendisins, allt austan frá Hornafirði vestur á Reykjanes. Þar er einskis afdreps eða skjóls að leita, nema við Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn í fremur norðlægri suðvestanátt. Sökum þess, að ég stundaði sjó um 24 ára skeið og oftast allt árið um kring á Stokkseyri, – aðeins tvær vetrarvertíðir í Þorlákshöfn, 1885 og 1886 – ætti mér að vera um það kunnugt, hversu þessu er háttað á milli ánna Þjórsár og Ölfusár, er athuganir mínar um veðráttuna verða miðaðar við. Eru þær byggðar á eigin reynslu og frásögnum fjölda manna, er ég kynntist í sambandi við mínar eigin sjóferðir.
Eins og síðar verður að vikið, ber margt til þess, að á þessum slóðum er, eins og áður segir, miklu auðveldara að segja fyrir um væntanlega veðráttu en annars staðar á landinu.