Oft er fundum okkar Árna Pálssonar prófessors hefur borið saman á undanförnum árum, hefur talið leiðzt að ýmsum mönnum og málefnum austan fjalls, er við þekktum báðir til. Meðal annars hefur Þorleif á Háeyri oft borið á góma, og varð ég þess var, að Árni kunni ýmislegt frá honum að segja, sem ég hef hvergi heyrt annars staðar og naumast mun nú orðið á annarra manna viti. Í tilefni af útgáfu þessa þáttar kom ég því að máli við Arna og bað hann að færa í letur nokkurar sagnir um Þorleif, sem ég vissi hann kunna um fram þær, sem í þættinum eru. Brást hann vel við þessu, og kann ég honum alúðarþakkir fyrir. Fer frásögn hans hér á eftir.
Nokkrar sagnir um Þorleif á Háeyri.
Skrásett hefur Árni Pálsson prófessor.
Í uppvexti mínum austur í Gaulverjabæ á árunum 1880- 1888 heyrði ég áreiðanlega ekki oftar talað um nokkra innanhéraðsmenn en séra Jakob Árnason í Gaulverjabæ, Jón í Móhúsum, Þuríði formann og Þorleif á Háeyri. Öll voru þau þá komin undir græna torfu, og hafði Þorleifur andazt þeirra síðast (1882), enda var hann þeirra yngstur. Brynjólfur frá Minna-Núpi, sem manna bezt hefur ritað um héraðssögu Árnesinga á 19. öld, minnist þeirra síra Jakobs, Jóns í Móhúsum og Þuríðar ágætlega í Kambsránssögu, en um Þorleif hefur hann lítið ritað. Er það mikill skaði, því að Brynjólfur hefði verið allra manna færastur um að halda minningu hans á lofti. Hann var 44 ára gamall, er Þorleifur lézt, og hlýtur að hafa verið gerfróður um æviferil hans og alla háttu. Hefur mér jafnan verið það ráðgáta, hvers vegna hann ritaði eigi myndarlega ævisögu Þorleifs.
Tvo menn heyrði ég einkum minnast Þorleifs af einstökum hlýleik og virðingu, en það voru þeir Páll prestur Sigurðsson, faðir minn, og Þórður sýslumaður Guðmundsson, afi minn. Þeir Þórður og Þorleifur höfðu verið aldavinir langa ævi. Man ég það einkum af tali hans, að hann kvaðst vart hafa þekkt nokkurn mann, sem skilmerkilegar hefði kunnað að lýsa skoðunum sínum á hverju því málefni, sem hann hafði kynnt sér. ,,Þorleifur lét aldrei aðra hugsa fyrir sig, hann hugsaði allt sjálfur.“ – Faðir minn mun og hafa kynnzt Þorleifi talsvert og taldi hann einn hinn merkilegasta mann, sem hann hefði mætt á lífsleiðinni. Hann var einn af prestum þeim, sem fluttu ræður yfir grefti Þorleifs, og hefur mér verið sagt, að öllum hinum dómbærustu mönnum hafi þótt tíðindum sæta, er prestur flutti slíka ræðu við slíkt tækifæri. Ræðan var ennþá til á skólaárum mínum, og las ég hana auðvitað. En síðan mun hún hafa glatazt í láni, og hefur mér reynzt ómögulegt að hafa uppi á henni. Það getur ekki komið til mála, að ég geri tilraun til þess að rekja efni hennar hér, því að til þess man ég allt of fátt úr henni. En það var eitt höfuðatriði hennar, að örbirgð Íslendinga, andlegri og líkamlegri, væri einni um að kenna, að eigi hefði orðið miklu meiri maður úr Þorleifi en raun bar vitni. Hann hefði að vísu hafizt af sjálfum sér úr vegalausri örbirgð og gerzt einn hinn auðugasti maður landsins. En vitsmunir hans og viljaþrek, andlegur þroski hans og framsóknarvilji hefðu verið á svo háu stigi, að öllum hefði mátt vera það ljóst, að hann var til miklu meiri hluta borinn.
Upphaf Þorleifs.
Þessa sögu heyrði ég marga segja um hinn fyrsta fjárafla Þorleifs. Árið eftir að hann var fermdur, kom húsbóndi hans honum fyrir hjá formanni einum á Stokkseyri eða Eyrarbakka. Skyldi hann vera beitudrengur og fá hálfan hlut, sem húsbóndi hans auðvitað hirti síðan. Svo sem lög gera ráð fyrir, hafði Þorleifur mötu með sér heiman að, smjör og kæfu. En er vertíð hófst, fiskaðist þegar vel, en það var forn og sjálfsagður siður í öllum veiðistöðum, að hásetar máttu éta blautfisk af hlut sínum, svo sem þá lysti, þótt þeir ættu eigi hlutinn sjálfir. Nú reyndist vertíðin ein hin aflasælasta allt til loka, Þorleifur litli át blautfisk, en opnaði aldrei mötuskrínu sína til þess að éta úr henni sjálfur. En margir búðunautar hans höfðu eigi þyrmt mötunni svo sem hann og komust í þrot löngu fyrir lok. Var þá leitað til Þorleifs, og veikst hann vel undir nauðsyn manna, en gerði það þó ekki ókeypis. Þorleifi var kunnugt, svo sem Jón Pálsson minnist á, að í Eyrarbakkaverzlun gekk jafnan upp tóbak og brennivín á útmánuðum. Nú varði hann þeim peningum öllum, sem hann fekk inn fyrir mötuna, til þess að kaupa tóbak og brennivín. – En er sá tími kom, að nauðsyn knúði á dyr, leituðu sjómenn enn til Þorleifs. Varð hann enn vel við, en smátt þótti hann skera tóbakið, og ekki var hann lofaður fyrir brennivínsútlátin, en alltaf krafðist hann sama endurgjalds: vænsta fisksins í hlutnum. Af Eyrarbakka gengu þá mörg skip – 30 eða fleiri – og var jafnan margróið, þrisvar-fjórum sinnum, ef sjóveður var gott. Á útmánuðum þetta .ár sást örlítill hnokki jafnan á reiki um sandinn. Hann hljóp að hverju skipi, sem kom að, otaði aldrei fram varningi sínum, en mörgum varð hughægra, er þeir sáu hann. Hann fór aldrei erindisleysu, eignaðist vænstu fiskana úr hlutnum, en viðskiptamenn hans fengu tóbak og brennivín, – örlitla lús. Í lokin bar Þorleifur miklu hærra hlut frá borði, heldur en nokkur maður annar, sem róið hafði þá vertíð á Eyrarbakka.
Þorleifur ræntur.
Svo bar við eitt sinn á efri árum Þorleifs, að maður einn ókenndur kom að Háeyri með 3 klyfjahesta í taumi. Var þá nokkuð áliðið dags. Tók hann baggana af hestunum og gekk síðan í búð Þorleifs og tók þar margt út, en baggar hans voru þá Enn óleystir. Nú bjó hann um þær vörur, sem hann hafði fengið hjá Þorleifi, og beiddi hann síðan leyfis, að hann mætti skreppa í Vesturbúðina, því að þá var komið að lokunartíma þar. Þorleifur taldi sér óhætt að verða við beiðni mannsins, enda biðu baggar hans óhreyfðir á Háeyrarhlaði. Nú leið og beið, og skilaði maðurinn sér ekki. Var þá spurzt fyrir um hann í Vesturbúðinni, og hafði hann aldrei þangað komið. Lét þá Þorleifur leysa baggana, og kom þá í ljós, að í þeim var lítið annað en mold. og sandur. Fannst þá á, að Þorleifi þótti miður. Þá buðust menn til að ríða eftir manninum, sem allir töldu, að væri fjarsveitamaður, með því að enginn hafði borið kennsl á hann. Sögðu, sem satt var, að hann gæti eigi hafa borið svo langt undan, að lausríðandi mönnum yrði skotaskuld úr að ríða hann uppi og hafa hönd á honum. En þá mælti Þorleifur: ,,Það vil ég ekki! Það er bezt að láta þetta kyrrt liggja, því að annars kemst upp, að hann hefur verið klókari en ég, og það er skömm fyrir mig.“ Þessa sögu sagði mér móðir mín, en hún var þá ung stúlka í foreldrahúsum á Litla-Hrauni, er þetta gerðist.
,,Þá er allt á þinni ábyrgð“.
Söguna, sem hér fer á eftir, sagði mér Bjarni, sem lengi var bóndi í Efstadal, en jafnan nefndur Bjarni í Bjarnabæ, eftir að hann fluttist til Reykjavíkur. – Hann var skiptavinur Þorleifs. Eitt sinn var hann í verzlunarerindum á Bakkanum, og var ungur bóndi úr Laugardalnum í för með honum. Þeir Bjarni fóru þegar til Þorleifs, og tók Þorleifur þeim vel og bauð þeim til sætis á kistu í skemmunni. Síðan kom hann með brennivínsflösku og skenkti Bjarna eitt staup, en förunaut hans ekki. Eftir nokkura stund spyr Bjarni: ,,Ætlarðu ekki að gefa manninum, sem með mér er, eitt staup?“ ,,Nei,“ segir Þorleifur, ,,þetta kann að vera fyrsta staupið, sem hann drekkur, og ég veit ekkert, hverjar afleiðingar það kann að hafa.“ ,,En þú selur mér þó eitt staup handa honum.“ ,,Það er annað mál, þá er allt á þinni ábyrgð.“
,,Ekkert nema innvolsið“.
Séra Stefán Thordersen var prestur í Skálholti á efri árum Þorleifs. Hann var annálaður gleðimaður og hrókur alls fagnaðar, hvar sem hann var staddur. Eitt sinn spurði hann Þorleif, er þeir voru báðir í brúðkaupsveizlu: ,,Geturðu kennt manni að verða ríkur, Þorleifur? Á maður að éta hrossaket?“ ,,Hrossaket! – ertu vitlaus? Ekkert nema innvolsið!“
Okrað á Þorleifi.
Jón Pálsson getur þess hér að framan, að Þorleifur hafi hneigzt talsvert til víns á yngri árum. Ég hef heyrt þessa sögu um iðrun og afturhvarf Þorleifs, er hann tók að minnka vín við sig til nokkurra muna. Hygg ég, að hann hafi átt heima á Stóra-Hrauni er það gerðist. Eitt sinn bar svo til, er Þorleifur var drukkinn og hafði verið það um nokkurn tíma, að hann þraut brennivín. Þótti honum þá vandast málið, enda hafði þetta sjaldan eða aldrei fyrir hann komið áður. Hann vissi, að einn af nágrönnum hans var brennivínsokrari, þótt minna kvæði að honum í því efni, heldur en Þorleifi sjálfum. Það varð nú fangaráð Þorleifs, að hann sneri sér til þessa manns og falaði af honum brennivín. En er okrarinn sá sjálfan Þorleif ganga í greipar sér, var sem hann hefði himin höndum tekið. Gerði hann Þorleifi kost á einni brennivínsflösku, ef hann greiddi sér dal fyrir hana. Þorleifur lét dalinn. En samstundis tók að renna nokkuð af honum. Það var oft um Þorleif, að hann talaði við sjálfan sig – tautaði lágt fyrir munni sér, svo að sjaldnast mátti nema orðaskil. Þá er Þorleifur kom út frá þessum nýja skiptavini sínum, voru þar fyrir nokkrir krakkar, og heyrðu þau, að Þorleifur tautaði mjög. Spígsporaði hann fram og aftur um stund, unz hann staðnæmdist, þreif flöskuna úr vasa sínum og grýtti henni á stein. Um leið mælti hann upphátt: ,,Ég skal ekki hafa þá bölvun af henni líka að drekka hana!“ – Ekki er þess getið, að Þorleifur hafi í annað sinn lent í okrara-klóm.
,,En bókstafurinn blífur”.
Soðkökur voru eitt af því, sem Þorleifur hafði á boðstólum í búð sinni, einkum á vertíðinni, því að sjómönnum þótti gott að fá eitthvað til þess að stinga upp í sig milli róðra. Auðvitað varð Þorleifur þá oft að „kríta á töfluna“ (sbr. bls. 54 hér að framan). En ýmsir urðu þá til að skjótast inn í búðina, ýmist til að þurrka út af töflunni eða bæta við á hana. Sagt var, að það brygðist ekki, að Þorleifur leiðrétti allar útþurrkanir. En hitt var talið óvissara, að hann þurrkaði út strik, sem bætt hafði verið við. Eitt sinn heyrðu krakkar hann tauta í búðinni: ,,Ellefu! Ellefu hjá Tómasi! Ekki hef ég skrifað það!“ – Stundarþögn. – ,,En bókstafurinn blífur !“
Vísa síra Guðmundar Torfasonar.
Síra Guðmundur gisti eitt sinn á Litla-Hrauni hjá Þórði sýslumanni Guðmundssyni. Um morguninn sagði sýslumaður honum, að Þorleifur ætti afmæli þann dag, og beiddi hann prest að yrkja vísu um gamla manninn. Síra Guðmundur var þá kominn í annan skinnsokkinn, en var að fara í hinn. Hann hreytti þegar fram stöku þessari:
Ég held þú verðir vega beint á milli !
Í helvíti færðu hvergi stað!
Í himnaríki? Minna um það!
Móðir mín var viðstödd, er síra Guðmundur kvað vísu þessa í bæjardyrunum á Litla-Hrauni.
Skáldskapur Þorleifs.
Oft heyrði ég það rætt, að Þorleifur hefði verið prýðilega hagmæltur, en aldrei heyrði ég farið nema með tvær vísur eftir hann. Er önnur prentuð hér að framan (,,Í Mundakoti mæna“). En við Sigríði, dóttur sína, kvað hann þessa indælu vísu:
Sigga góða, hættu að hljóða!
heyrðu ljóða svörin mín!
Hún er að sjóða í salnum hlóða
silkitróðan, móðir þín!
Hér lýkur frásögn Arna prófessors Pálssonar, og skal nú enn bætt við nokkurum atriðum. úr sögu Þorleifs, sem byggð eru á rituðum heimildum og verða mega til fróðleiks og athugunar.
Þorleifur rekinn á vergang.
Eins og getið er um í þættinum, réðst Þorleifur beitudrengur hjá Arnóri Erlendssyni í Lölukoti og fór fyrst á sjó með honum. Ekki verður nú séð, hversu lengi Þorleifur hefur verið hjá Arnóri, en í manntali í Gaulverjabæjarsókn l. des. 1818 er Þorleifur talinn vinnumaður hjá honum, 20 ára að aldri. En víst er um það, að viðskilnaður Arnórs við þennan umkomulitla ungling
varð allt annað en góður. Þennan vetur, sem nú er nefndur, er út á leið, vísaði Arnór Þorleifi úr vistinni til þess að losna við að fæða hann, og skipaði honum að leggjast í flakk, helzt út og suður með sjó. Þessu kunni Þorleifur illa, fór á fund hreppstjóra, er þá voru þeir Jón ríki í Móhúsum og Jón Einarsson á Baugsstöðum, og kærði fyrir þeim framferði Arnórs við löglega vistráðið hjú sitt. Þeir skrifuðu þegar sýslumanni um þetta. Brá hann skjótt við og skrifaði Arnóri bréf það, sem hér fer á eftir (Bréfabók Árnessýslu 13. marz 1819):
„Sé það satt, sem fyrir mér hefur angefið verið, að þér án nokkurra skjallegra orsaka hafið vísað í burtu hjúi yðar, Þorleifi Kolbeinssyni, og viljað láta sama flakka út með sjó, hvers vegna hann er hælislaus til næstu krossmessu, og þar þér hafið tekið hér í feil með breytni yðar við nefndan Þorleif, so skikkast yður hér með þann sama aftur að taka og forsorga til næstu krossmessu, annars megið þér vera viss um, að allur sá forsorgunar kostnaður, sem nefndur Þorleifur gæti hjá yður átt til krossmessu, verður í lagaleyfi af yður hafður samt tilbörleg múlkt fyrir ólöglega aðferð yðar í téðu efni, því ekki þurfið þér að reiða yður upp á, að lítilmennska Þorleifs til vinnu helgi yðar aðferð við hann.“
Samdægurs skrifar sýslumaður hreppstjórunum svofellt bréf til frekari áréttingar:
„Ef Arnór skyldi ekki hlýða minni skikkan, sem ég í bréfi undir dags dato skrifa honum, so tilsegist ykkur að ráðstafa Þorleifi á fátækra fé til næstu krossmessu, ef ómögulega getið hönum öðruvísi niður komið, þá forsorgunar kostnaður hans á af húsbóndanum Arnóri að greiðast síðar annaðhvort til sveitarinnar eður hvers annars, sem hönum forsorgun veitti til krossmessu, hvað ykkur þénar til eftirréttingar upp á ykkar í gær meðtekið tilskrif.“
Nærri má geta, að vist Þorleifs í Lölukoti hefur eigi orðið lengri, og því miður er meðferð Arnórs á Þorleifi ekkert einsdæmi um framkomu margra manna gagnvart fátæklingum og umkomuleysingjum á þeim tímum. Hefur þetta atvik vafalaust orðið Þorleifi minnistætt, og kann vera, að það hafi átt sinn þátt í því að gera hann að þeim manni, sem hann varð.
Austantórur – 5
III.
Gjöf Þorleifs til Stokkseyrarhrepps.
Eins og getið er um í þættinum, gaf Þorleifur eina eignarjörð sína, hálfa Hæringsstaði með hjáleigum, til eflingar búnaðarframförum í Stokkseyrarhreppi. Helzt þessi gjöf enn í eigu hreppsins, og hafði Gísli sál. Pálsson í Hoftúni fjárhald sjóðsins lengi á hendi og rækti með stakri reglusemi sem annað, er honum var falið. Svo að menn megi gerr sjá, hvað fyrir Þorleifi vakti með gjöf þessari, læt ég gjafabréfið birtast hér í heilu lagi. (Eftir uppskrift Skúla Helgasonar á Svínavatni, gerðri eftir frumbréfinu fyrir Sigurjón Gíslason, fyrrum bónda á Kringlu í Grímsnesi, nú í Móakoti í Garði, er lét mér uppskriftina í té):
Gjafabréf Þorleifs Kolbeinssonar, Háeyri.
Ég undirskrifaður Þorleifur Kolbeinsson hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi gjöri hér með kunnugt: að ég hef gefið og með bréfi þessu gef eftir minn dag Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu til jarðabóta samt til að bæta búnaðarháttu til sjós og lands í téðum hreppi eignarjörð mína, hálfa heimajörðina Hæringsstaði ásamt með helmingi allra undirliggjandi hjáleigna:
Hæringsstaðahjáleigu eða Norðurkots, Lölukots, Gljákots, Oddagarða og Brúar, – er helmingur téðra jarða nú talinn 15 hndr. 20 áln. að dýrleika með 5½ kúgildi, 1 hndr. 40 al. landskuld, – ásamt öllu því, er nefndri jarðartorfu að helmingi fylgt hefur og fylgja ber að engu undanskildu, með eftirfylgjandi skilmálum:
Afgjald jarðanna, sem nú leigur og landsskuld samanlagt er 2. hndr. 30 al., skal að mér frá föllnum setja árlega á vöxtu, að minnsta kosti 25 ríkisdali ríkismyntar, utanlands eður innan, eftir því sem bezt hagar. Sömuleiðis skal setja á vöxtu rentur allar og renturentur allt þangað til, að höfuðstóllinn er orðinn 30.000 ríkisdalir auk ofannefndra jarða, sem, ef vel er á haldið og óhöpp ekki vilja til, gæti orðið að hér um bil 100 ára fresti og því fyrri, ef meira en 25 ríkisdalir afgjaldsins væri árlega sett á vöxtu, sem vel má vera.
Það af afgjaldi jarðanna, sem er meira en 25 dalir árlega, skal að því leyti það ekki er sett á vöxtu, brúka sem greiða eða þóknun handa þeim, sem mestan dugnað sýna í hreppnum í því að bæta búnaðarháttu þeirra, annaðhvort með jarðabótum eða öðru, sem til góðs búnaðar heyrir. Þannig skal sá, sem hefur sléttað í túni sínu þá síðastliðið ár 450 ferfaðma eða aukið við tún sitt 225 ferföðmum (eða) hlaðið 100 faðma langan grjótgarð fyrir tún sitt, engi, sjó eða vatn, þar sem þörf krefur og í löggiltu standi, fá af afgjaldi Hæringsstaðatorfunnar 6-8 ríkisdali fyrir þennan dugnað sinn; eins sá, er sker fram mýrar og hleður vatnsvarnarstokka að líkum verkjöfnuði; einnig sá, sem sýnir framúrskarandi dugnað í garðyrkju, kvikfjárrækt og við fiskiveiðar, t. d. hákarla- eða selveiði, og öðru fleiru, sem lýsir framúrskarandi dugnaði og eykur búsæld manna í hreppnum við hér um bil jöfnum kostnaði við það, sem fyrst er talið í þessari grein, sem ætti að, hafa fyrir mælikvarða, þá er meta skal, hvað verkin kosta. Að svo miklu leyti, sem því verður við komið, má hér um sjöttungur til fjórðungs verkakostnaðarins borgast þeim, sem unnið hafa þau hér til teknu verk eða í öðru tilliti sýna mestan dugnað í hreppnum, að svo miklu leyti sá hluti afgjaldsins nær til, sem brúkast má árlega til þessarar greiðslu.
Nú vinna fleiri til launa á ári en sá í annarri grein tilnefndi hluti afgjaldsins nær til að launa. Fá þá þeir, sem ekkert gátu fengið það árið, þau þar ákveðnu laun af næsta árs afgjaldi. Þeim skal fyrst launa, sem fyrst vinna. Nú kemur eitt ár eða fleiri, sem enginn vinnur til launa. Skal þá setja allt afgjaldið á vöxtu samkvæmt 1. gr., unz höfuðstóllinn hefur náð þeirri þar greindu 30.000 dala upphæð.
Allir hreppsbúar hafa rétt til þessarar þóknunar. Því skal ekki koma að álitum, hvort þeir, sem unnið hafa, eru ríkir eða fátækir, hvort þeir búa á sjálfseign eða leigujörð. Þó skulu þeir ætíð vera í fyrirrúmi, sem þekktir eru að mestum dugnaði og búhyggindum, einkum þeir, sem sjálfir hafa keypt og sjálfir hafa aflað kaupverðs ábúðarjarða sinna eður annarra jarða eða sýnt líkan dugnað í öðru tilliti. Þar á móti á sá óframsýni og eyðslumaðurinn, svallarinn og letinginn og yfirhöfuð ónytjungar og óreglumenn ætíð að mæta afgangnum, þó að þeim kynni einhvern tíma koma sú mannræna að vinna eitthvert það verk, sem nefnt er í annarri gr., að launa eigi.
Peningahöfuðstóllinn, af þeim hluta afgjaldsins, sem árlega er settur á vöxtu og sem árlega eykst með allri rentu og renturentu, má öldungis ekki brúka né til hans taka allt svo lengi hann ekki er búinn að ná 30.000 dala upphæð samkvæmt 1. gr. Þegar höfuðstóllinn hefur náð téðri upphæð, má leigan öll brúkast til jarðabóta og annarra þarflegra fyrirtækja, sem miða til að bæta búnaðarháttu í Stokkseyrarhreppi einungis samkvæmt 6. gr, Má því ekki brúka peninga þessa sem fátækrafé, hvorki handa einstökum föstum hreppsómögum né fátækum bændum, sem þiggja af sveit eða fátækratillag, því reynslan hefur sýnt, að fátækt búandi manna í Stokkseyrarhreppi er oftar meðfram sprottin af óframsýni, óspilum og óreglu í búnaðarháttum, og vil ég ekkert af þessu né þvílíku ala með gjöf þessari.
Þegar höfuðstóllinn er orðinn 30.000 ríkisdalir, verður rentan með 4 af hundraði 1200 dalir á ári hverju. Þegar rentan hefur náð þessari upphæð, má brúka hana alla, ásamt afgjaldi jarðanna til jarðabóta og annarra þarflegra fyrirtækja í Stokkseyrarhreppi eftir því, sem fyrir er mælt í bréfi þessu. Skal kaupa menn árlega fyrir hér um 900 til 1000 ríkisdala til að vinna að jarðabótum samt öllu því, er ábótavant þykir í hreppnum í búnaðarlegu tilliti, t. d. að slétta öll þýfð tún í hreppnum, auka þau, girða með grjótgarði, þar sem því verður við komið, hlaða öflugan steinagarð við sjóinn, þar sem með þarf; skera fram það af Breiðumýri, sem hreppurinn á af henni, samt allt engi eftir þörf; hlaða landamerkjagarða, hvar þurfa þykir og gagn er að, auka kál- og jarðeplarækt, plægja jörð, kaupa grasfræ og sá því, samt allt annað, er til er nefnt í 2. gr., sérhvað, er horfir til búsælda og framfara sveit þessari fyrir alda og óborna. Virðist ekki af vegi að minnast á: að menn kynnu að vilja láta kenna ungum mönnum að höggva grjót til veggjahleðslu og húsabygginga, mætti og, þegar búið væri að bæta allar jarðir í hreppnum, eins og framast yrði, kaupa þilskip, eitt eða fleiri, til fiski- og hákarlaveiða eður haffært skip. Riði þá á, svo arðurinn gæti lent í hreppnum, að hreppsmenn væri sjálfir fyrir skipum þessum, hvar af leiddi, að kenna þyrfti efnilegum, ungum mönnum stýrimannafræði og sjómennsku, til hverra brúka mætti nokkuð af vöxtum sjóðs þessa.
Sveitarstjórnin í Stokkseyrarhreppi með 2 til 3 beztu og vitrustu bændum hreppsins, hverja hreppsbændur kjósa, skulu· ætíð hafa á hendi stjórn og umsjón þessa fjár, þó undir yfirumsjón Suðuramtsins bústjórnarfélags, svo lengi sem það félag er til. Þá undir yfirumsjón sýslumannsins í Árnessýslu og amtsins í suðurumdæmi Íslands eða þá þeirra embættismanna, er koma í þeirra stað, komist á annað stjórnarform en nú er. Skulu yfirumsjónarmennirnir sjá um, að sá hluti afgjaldsins, sem setjast á á vöxtu, gjörist að peningum, og peningarnir verði svo hvað eftir og án afdráttar árlega settir á óhulta rentustaði.
Aldrei má þessi helmingur Hæringsstaðatorfunnar seljast né makaskiptast, heldur skal hún um aldur og ævi vera eign Stokkseyrarhrepps til að bæta búnað allan. Þar á móti má kaupa góða jörð eða jarðir. Þegar peningahöfuðstóllinn er orðinn svo mikill, að hann nemur því, hefur sveitarstjórnin í Stokkseyrarhreppi ásamt þeim 2 til 3 bændum, sem tilnefndir eru í 7. gr., vald til að kaupa jarðir, þegar þeim þykir það hagur fyrir stiftun þessa. Þeir skulu og skoða og meta verk þeirra bænda, er launa skal, og ánafna svo hverjum og hvað mikið. Mega þeir fá greiða fyrir starf sitt, ef þeir óska þess, allt að sjöttungi þess, sem árlega má brúka af afgjaldinu. En þegar rentan hefur náð 1200 ríkisdala upphæð, mega þeir, sem stjórna verkunum, ákveða þau og meta og umsjónarmennirnir fá kaup fyrir verk sín eins og aðrir. Þó má þetta kaup eða laun ekki vera hærra árlega en 200 til 300 ríkisdalir. Skipti umsjónarmenn því sjálfir á milli sín eftir þeirri fyrirhöfn og starfa, sem hver þeirra hefur á hendi.
Til þess að framanskrifuðum reglum verði því betur fylgt, áskil ég erfingjum mínum rétt til þessa helmings Hæringsstaðatorfunnar með afgjaldinu og peningahöfuðstólnum sem annars arfs, svo framarlega að aukning höfuðstólsins er vanrækt, allt þangað til hann hefur náð 30.000 ríkisdala upphæðinni. Sama rétt hafa þeir og, sé rentan þar á eptir brúkuð til annars eða öðru vísi en áskilið er í bréfi þessu. Fæ ég erfingjum mínum afrit af bréfi þessu og áskil, að það fylgi ættlegg mínum eða niðjum, á meðan til eru, hreinskrifað með vottum þegar.
Skyldi þeir menn, er tilgreindir eru í 7. gr., ekki fást til að takast á hendur stjórn, umsjón og meðferð fjár þessa á þann hátt, sem áskilið er í bréfi þessu, leiðir af sjálfu sér, að þessi helmingur Hæringsstaðatorfunnar gengur til erfingja minna eins og annar arfur, þareð gjöf þessi er ekki þegin af þeim, sem hún var tilætluð og gefin.
Þessu gjafabréfi til staðfestu er mitt undirskrifað nafn og hjásett signet.
Stóru-Háeyri, 16. febrúarmán. 1861.
Th. Kolbeinsson.
Vitundarvottar:
B (jarni) Hannesson. Sigfús Guðmumdsson. snikkari.
Innfært í veðmálabók Árnessýslu og þinglesið 12. júlí 1889.
Auður Þorleifs,
Loks þykir mér hlýða, fyrst þess er kostur, að gera grein fyrir eignum Þorleifs. Bezta og órækasta heimildin um þær er skiptagerð í dánarbúi hans frá 2. maí 1882 og 6. marz 1883. (Skiptabækur Árnessýslu). Verð ég að biðja þá velvirðingar, sem þykir eftirfarandi upptalning þreytandi, en hjá henni verður ekki komizt, ef menn eiga að fá rétta hugmynd um hið mikla og óvenjulega auðsafn Þorleifs,
Jarðeignir Þorleifs voru þessar:
1) Stóra-Háeyri með öllum hjáleigum (8 talsins), 27 hndr. 96 al. að dýrleika, metin á kr. 6000.00. – 2) Stéttar í Hraunshverfi, 4 hndr. 17 al., kr. 550.00. – 3) Álfhólar í Landeyjum með hjáleigunni Sleif, 37 hndr. 58 al., kr. 3000.00. – 4) Vestra-Stokkseyrarsel hálft með hálfu Stokkseyrarselskoti, 4 hndr. 7 al., kr. 400.00. – 5) Skipar hálfir, 6 hndr. 72 al., kr. 1000.00. – 6) Arnarhóll í Gaulverjabæjarhreppi, 8 hndr. 84 al., kr. 1800.00. – 7) Smjördalir með hjáleigunum Haugakoti, Nýjabæ, Norðurkoti og Dísastöðum, 39 hndr. 84 al., kr. 4400.00. – 8) Langholtskot í Hrunamannahreppi, 11 hndr. 91 al., kr. 1300.00. – 9) Gröf hálf 12 hndr. 12 al., kr. 1000.00. – 10) Ásakot, 6 hndr. 35 al., kr. 400.00. – 11) Traðarholt hálft með hálfri Kotleysu, hálfum Grjótlæk, hálfu Ranakoti, hálfri Hraunhlöðu og hálfri Árnatóft, 18 hndr. 30 al., kr. 1500.00. – 12) Fjórðungur úr Stóru-Sandvík, 4 hndr. 111 1/2 al., kr. 650.00. – 13) Galtafell hálft, 13 hndr. 60 al., kr. 1100.00. – 14) Tóftir í Stokkseyrarhreppi, 11 hndr. 12 al., kr. 850.00. – 15) 3/5 úr Unnarholti, 16 hndr. 24 al., með Bolafæti, 4 hndr. 76 al., kr. 1600.00. – 16) Valdakot í Sandvíkurhreppi, 5 hndr. 76 al., kr. 500.00. – 17) Þriðjungur úr Hópi i Grindavík, 2 hndr. 80 al., kr. 450.00. – 18) Krókur í Ölfusi, 5 hndr. 20 al., kr. 525.00. – 19) Hólshús hálf í Gaulverjabæjarhreppi, 3 hndr. 18 al., kr. 525.00. – 20) 1/6 úr Stokkseyri, 5 hndr. 105 1/6 al., kr. 600.00. – 21) Þriðjungur úr Hvammi í Ölfusi, 5 hndr. 92 al., kr. 500.00. – 22) Kirkjuferjuhjáleiga í Ölfusi, 12 hndr. 17 al., kr. 1000.00. – 23) 3/4 úr Hvammi á Landi, 22 hndr. 51 al., kr. 1200.00. – 24) Kvíarholt hálft í Holtum, 8 hndr. 114 al., kr. 600.00. – 25) Holt í Stokkseyrarhreppi, 17 hndr. 48 al., kr. 1300.00. – 26) Þriðjungur úr Haga í Holtum, 8 hndr. 71 % al., kr. 550.00. – 27) 5/13 úr Súluholti heimajörð, 5 hndr. 43/13 al., kr. 400.00 – 28) Hellisholt hálf, 9 hndr. 108 al., kr. 700.00 – 29) Hafliðakot í Hraunshverfi, 4 hndr. 37 al., kr. 500.00. – Jarðeignir Þorleifs nema alls rúmlega 344 hundruðum, sem metin eru til peningaverðs þess tíma alls á 34.900 kr. En alls eru jarðir hans og jarðapartar 50 að tölu.
Peningar.
Peningar, sem fyrir hendi voru eftir Þorleif, voru 4.460 kr. í 10 og 20 kr. gullpeningum, eitt sterlingspund, 2.000 kr. í 1 og 2 kr. silfurpeningum og í smámynt silfurs 219.75 kr. Samtals átti hann því í handbærum peningum kr. 6.697.75.
Ríkisskuldabréf.
Dönsk ríkisskuldabréf átti Þorleifur sem hér segir : 15 skuldabréf á 2000 kr. hvert, 18 bréf á 1000 kr. hvert, eitt 400 króna skuldabréf og 9 á 200 kr. Verðbréfaeign þessi nam því alls kr. 50.200.00. – Samkvæmt því, sem segir í skiptagerðinni, hafði Guðmundur Thorgrímsen, verzlunarstjóri við Eyrarbakkaverzlun, í mörg ár haft þá venju, að fá 6000 kr. til láns um tíma hjá Þorleifi handa verzluninni. Lán þessi voru síðan greidd í konunglegum skuldabréfum ásamt 4 % í rentu, þar til skuldinni var lokið. Er hin mikla verðbréfaeign Þorleifs til komin með þessum hætti. Gat hann ávaxtað þannig fé sitt, sem var annars erfitt á þeim tímum, er engin bankastarfsemi var til í landinu.
Útistandandi skuldir.
Í útistandandi skuldum átti Þorleifur samtals 6300 kr. Voru þær hjá þessum mönnum: Einari kaupmanni Jónssyni (,,borgara“) og Guðmundi Thorgrímsen 2000 kr. hjá hvorum, Guðmundi Ísleifssyni, tengdasyni Þorleifs, 1200 kr., Grími Gíslasyni í Óseyrarnesi 600 kr., síra Jóni Björnssyni 300 kr. og Gizuri Bjarnasyni í Garðbæ 200 kr. Fyrir öllum þessum skuldum voru gefin út lögformleg skuldabréf. Er auðsætt, að Þorleifur hefur verið eins konar banki fyrir ýmsa þar eystra, sem hann bar traust til, en aldrei er þess getið, að hann hafi tekið neina okurvexti af slíkum lánum.
Ýmislegt lausafé.
Ýmislegt lausafé, þar á meðal búshlutir, rentuseðlar, hlutabréf o. fl. nam samtals kr. 2826.58.
Bú Þorleifs nam samanlagt kr. 100.924.33. Ýmis frádráttur, skuldir og kostnaður, nam kr. 6651.01. Varð því skuldlaus eign
búsins, er til skipta kom milli erfingja, barna hans fimm, kr. 94.273.32, og urðu það 18.854.66 2/5 kr. í hlut.
Menn geta nú gert sér til gamans að reikna út, hvað eignir Þorleifs, fasteignir, peningar og verðbréf, mundu verða að krónutali með núgildandi verðlagi. En hver sem útkoman yrði, hvort sem hún yrði innan við eða ofan við milljón, er það jafnundravert, hve langt Þorleifur komst í auðsöfnun sinni við þau skilyrði, sem þá voru hér á landi. Og sízt mun Arnór í Lölukoti hafa grunað það, að Þorleifur ætti eftir að verða einhver ríkasti maður landsins, er hann rak hann á vergang allslausan, tvítugan að aldri. – G. J.].