Stokkseyri nefndust einu nafni mörg hús, er risu smám saman upp hið næsta Stokkseyrarbæjunum gömlu. Hús þessi voru um 15-20 að tölu, og töldust íbúar þeirra eiga heima á Stokkseyri án frekari aðgreiningar. Nú er þó svo komið, að ýmist hafa hús þessi fengið sérstök nöfn eða þau hafa horfið úr sögunni, svo að eftir er aðeins eitt hús, sem kallað er Stokkseyri. Það er verzlunarhús og áður jafnframt íbúðarhús Ásgeirs kaupmanns Eiríkssonar, er stendur á sama stað sem gamli Stokkseyrarbærinn (austurbærinn). Þarna var íbúðarhús Pálmars bónda á Stokkseyri, en hann seldi það Sigurði Ingimundarsyni kaupmanni, er bjó þar og verzlaði þar fá ár. Síðan eignaðist Ásgeir Eiríksson húsið, en það brann í Stokkseyrarbrunanum mikla 1926. Hús það, er nú stendur þar, byggði Ásgeir aftur eftir brunann og hefir rekið þar verzlun síðan.