Eins og áður er sagt, keypti Kaupfélag Árnesinga á Selfossi verzlun Jóns Adólfssonar vorið 1942 ásamt verzlunarhúsi hans og hefir rekið þar útbú síðan. Breytti það húsinu og stækkaði það til muna. Kaupfélagið mun vera stærsta verzlunarfyrirtæki á Stokkseyri nú, og nam velta þess árið 1956, 1.8 millj. króna. Samhliða kaupfélaginu starfar einnig viðgerðarverkstæði fyrir bíla og búvélar síðan 1953, er enn verður getið. Þessir menn hafa verið hér útibússtjórar: Sigurður Eyjólfsson skólastjóri á Selfossi maí-sept. 1942, Jónas Ingvarsson deildarstjóri á Selfossi 1942-1946, Guðmundur Jónsson deildarstjóri í Reykjavík 1946-1948, Helgi Ólafsson verzlunarmaður í Reykjavík 1948-1953, Sæmundur Jónsson sölumaður í Reykjavík 1953- 1955, Sigursteinn Steindórsson bílstjóri á Selfossi sept.-des. 1955, Skúli Sigurgrímsson frá Holti 1956-1957, Erling Sigurðsson, nú á Skagaströnd, 1957 -1958, Hreinn Árnason frá Hvolsvelli 1958-1959, Sveinbjörn Guðmundsson, Merkigarði 1959-1960, en núverandi útibússtjóri er Jónas Larsson í Nýjakastala.