Sparisjóður Árnessýslu á Eyrarbakka var stofnaður 1888 og var um langt skeið einn af stærstu sparisjóðum landsins. Áttu Stokkseyringar að sjálfsögðu mikil viðskipti við hann. En árið 1917 var stofnaður sérstakur Sparisjóður Stokkseyrar, og hafði Þórður Jónsson bóksali stjórn hans á hendi, þar til er hann fluttist til Reykjavíkur. Sparisjóður Stokkseyrar tók örum vexti á fyrstu árunum og stóð í mestum blóma 1920-1923. Nam sjóðseignin þá um og yfir 200.000 kr., en innstæðueigendur voru yfir 400. Eftir það fór að halla undan hjá sjóðnum. Starfaði hann þó enn í nokkur ár, en mun hafa orðið að gefast upp 1929, og var útibúi Landsbankans á Selfossi falið að annast fjárreiður hans. Á sömu leið fór einnig fyrir hinum gamalgróna Sparisjóði Árnessýslu um líkt leyti. Þó að sérstök óhöpp ættu sinn þátt í óförum hans, þá sýnir saga beggja þessara sparisjóða, hve erfitt var að átta sig á fjármálum á þessum tíma, og verður þá skiljanlegra, hvernig fór fyrir flestum verzlununum á Stokkseyri á þeim árum.