102-Verzlun Ólafs Jóhannessonar

Árið 1926 fekk Ólafur Jóhannesson kaupmaður í Reykjavík verzlunarleyfi á Stokkseyri. Hann hafði árið áður keypt húsið Brávelli af Þórði Jónssyni bóksala og þar með verzlunarhúsnæði, sem þá var ónotað. Það varð svo úr, að Jón Jóhannsson frá Flatey fekk vörur í umboðssölu hjá Ólafi og fór að verzla á Brávöllum. Umboðsverzlun þessa rak Jón í þrjú ár, en varð þá að hætta vegna heilsubrests. Fluttist Ólafur þá til Stokkseyrar 1929 og tók sjálfur við verzluninni. Þeir Jón og Ólafur höfðu þann hátt á, að þeir seldu ekki aðeins útlendar vörur, heldur keyptu þeir líka ýmsar afurðir þorpsbúa, svo sem garðávexti, egg, kjöt o. fl., og líkaði mönnum vel sú nýbreytni. Ólafur fluttist suður aftur 1932, en hélt þó verzluninni áfram í eitt ár eftir það, og var Jósteinn Kristjánsson í Hausthúsum þá verzlunarstjóri fyrir hann. Eftir það keypti Jósteinn verzlunina. Ólafur Jóhannesson er duglegur og þekktur kaupmaður í Reykjavík. Hann er kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur verzlunarmanns á Stokkseyri Einarssonar.

Leave a Reply