You are currently viewing 101-Verzlun Ásgeirs Eiríkssonar
Ásgeirsbúð

101-Verzlun Ásgeirs Eiríkssonar

Þegar kaupfélagið Ingólfur hætti starfsemi sinni árið 1923, keypti Ásgeir Eiríksson verslunarmaður nokkuð af vörum Ingólfs og náði í nokkur verzlunarsambönd, sem Ingólfur hafði haft, og stofnaði eigin verzlun. Var Helgi Jónsson fyrrum verzlunarstjóri að nokkru leyti í félagi með Ásgeiri fyrstu árin, eða þar til er Helgi fluttist til Reykjavíkur 1926. Má því að nokkru líta á verzlun Ásgeirs Eiríkssonar sem framhald af kaupfélaginu Ingólfi. Verzlun sína hafði Ásgeir í Pálmarshúsi, þar sem Sigurður Ingimundarson hafði verzlað. Var Sparisjóður Árnessýslu þá orðinn eigandi hússins, og leigði Ásgeiri það. Hús þetta brann í Stokkseyrarbrunanum mikla 10. des. 1926, en árið eftir reisti Ásgeir nýtt hús á sama stað, og rak hann þar verzlun sína síðan, unz hann seldi hana Pöntunarfélagi verkamanna haustið 1958. Framan af hafði Ásgeir talsverða sveitaverzlun, keypti ull o. fl., en þau viðskipti hættu, þegar Kaupfélag Árnesinga á Selfossi kom til sögunnar. Einnig hafði hann ýmsar útgerðarvörur fyrstu árin. Á síðari árum hafði hann á boðstólum ýmsar algengar vörur. Hann vann nærri alltaf einn við verzlun sína þrátt fyrir margháttuð störf í þágu hrepps og félagsmála, en þar hefir hann komið mikið við sögu í marga áratugi.

Ásgeir Eiríksson er fæddur í Hlíðarhúsum við Djúpavog 27. apríl 1892, og voru foreldrar hans Eiríkur Eiríksson bóndi þar og kona hans, Katrín Björnsdóttir. Hann fluttist ásamt þeim til Stokkseyrar 1907 og vann þar fyrstu 7 árin við bakaraiðn hjá Eiríki, bróður sínum, en síðan 7erðist hann skrifstofumaður og bókari hjá Kaupfélaginu „Ingólfi“. Gegndi hann því starfi, þangað til „Ingólfur“ hætti, að undanskildum nokkrum árum, sem hann var fjarverandi, m. a. við nám í Flensborgarskóla. Ásgeir var einn af stofnendum Ungmennafélags Stokkseyrar, var lengi í stjórn þess og nú heiðursfélagi. Hann var mjög fær íþróttamaður á yngri árum, sundmaður og glímumaður og vann tvisvar fyrstu verðlaun fyrir fegurðarglímu á Skarphéðinsmótinu að Þjórsártúni (1913 og 1915). Hann hefir starfað mikið að hreppsmálum, verið lengi í hreppsnefnd og þrívegis oddviti hennar, samtals í 13 ár. Hann átti lengi sæti í skólanefnd og var formaður hennar í 10 ár (1929-39). Hann hefir verið sýslunefndarmaður fyrir Stokkseyrarhrepp síðan 1932 og jafnan ritari sýslunefndar og endurskoðandi sýslureikninga frá 1934, í yfirkjörstjórn Árnessýslu í mörg ár og skattanefndarmaður frá 1928. Póstafgreiðslumaður var hann í mörg ár, gjaldkeri og bókhaldari Hraðfrystihúss Stokkseyrar frá stofnun þess. Ásgeir er traustur maður, greindur og gætinn, ritfær vel og prýðilega máli farinn og því fyrir margra hluta sakir vel til forustu fallinn. Hann er maður vinsæll og vel metinn af sveitungum sínum og öðrum, sem við hann hafa átt að skipta. Hann er ókvæntur.

Leave a Reply