097-Verzlun Sigurðar Ingimundarsonar

Vorið 1914 opnaði Sigurður Ingimundarson frá Dvergasteinum nýja verzlun á Stokkseyri. Keypti hann hús Pálmars Pálssonar, byggði vestan við það og svo hæð yfir það allt. Innréttaði hann fyrir verzlunina á neðri hæðinni, en efri hæðin var íbúð. Verzlun Sigurðar stóð fyrstu árin í miklum blóma. Hann hafði á boðstólum kornvörur, nýlenduvörur, vefnaðarvörur, skófatnað o. fl. Hann keypti iðulega ull á vorin og hafði talsverða sveitaverzlun. En á árunum eftir stríðið dróst verzlun Sigurðar saman; hann varð fyrir tilfinnanlegu tapi á útgerð og fleiri óhöppum, og haustið 1923 varð hann að hætta verzlun sinni vegna fjárskorts. Tveimur árum síðar fluttist hann til Reykjavíkur með fjölskyldu sína.

Sigurður var fæddur í Dvergasteinum 27. ágúst 1891, og voru foreldrar hans Ingimundur Guðmundsson trésmiður, síðar í Sæborg, og kona hans, Ingunn Einarsdóttir í Dvergasteinum Einarssonar. Hann byrjaði verzlunarstörf hjá kaupfélaginu Ingólfi. Jafnframt verzlun sinni hafði hann með höndum útgerð um nokkurt skeið. Eftir að hann fluttist suður var hann veggfóðrari. Hann lézt í Reykjavík 9. júlí 1944. Sigurður var vel gefinn maður og fjölhæfur, en ráð hans þótti nokkuð á reiki, listfengur og söngmaður ágætur. Kona hans var Anna Helgadóttir frá Helgastöðum í Stokkseyrarhverfi Pálssonar. Þau áttu 5 börn.

Leave a Reply