095-Bókaverzlun Þórðar Jónssonar

Árið 1912 stofnaði Þórður Jónsson bókhaldari bóka- og ritfangaverzlun í húsi sínu, Brávöllum. Var hún í nokkur ár stærsta verzlun sinnar tegundar hér á landi utan kaupstaðanna. Verzlun þessa rak Þórður til ársins 1924, er hann fluttist til Reykjavíkur. Þórður var fæddur í Kolsholtshelli í Flóa 16. apríl 1886, og voru foreldrar hans Jón Þorsteinsson járnsmiður og kona hans, Kristín Þórðardóttir ríka á Mýrum í Flóa Eiríkssonar. Hann fluttist með foreldrum sínum til Stokkseyrar 1891 og ólst þar upp. Aðeins 13 ára gamall fór hann að vinna að verslunarstörfum, fyrst hjá Edinborgarverzlun, þá hjá Jóni Jónassyni og svo hjá kaupfélaginu Ingólfi og var snemma settur til skrifstofuog bókhaldsstarfa sökum góðrar reikningskunnáttu og hæfileika í þá átt. Jafnframt bókhaldi fyrir aðra og bókaverzlun sinni rak Þórður allmikla vélbátaútgerð. Hann gaf sig mikið að félagsmálum, var einn af stofnendum Ungmennafélags Stokkseyrar, formaður þess í 12 ár og síðar heiðursfélagi. Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur, vann hann lengstum sem bókhaldari og endurskoðandi. Hann átti sæti í stjórn Stokkseyringafélagsins og Árnesingafélagsins í Reykjavík um skeið og var heiðursfélagi hins fyrrnefnda. Þórður var fróðleiksmaður og áhugamaður mikill um söguleg efni. Hann var kvæntur Málfríði ( d. 1933) Halldórsdóttur frá Kumbaravogi Pálssonar, en uppeldisdóttur Sigurðar Magnússonar dbrm. á Skúmsstöðum. Þau áttu 5 börn. Þórður lézt í Reykjavík 28. sept. 1959, 73 ára að aldri.

Tveir menn hafa síðar haft á hendi bóksölu á Stokkseyri, Guðmundur Guðmundsson í Aðalsteini og Ásgeir P. Hraundal í Vinaminni.

Leave a Reply