091-Kaupmannaverzlanir eftir aldamótin

Um og eftir aldamótin tóku Stokkseyringar sjálfir að setja upp verzlanir. Margir höfðu þá fengið nokkur kynni af verzlunarstörfum og sumir nokkra reynslu í þeim efnum. Verzlanir þessar áttu að vonum misjöfnu gengi að fagna, stóðu sumar skammt, en aðrar náðu talsverðum blóma um nokkurt skeið. En allar áttu þær verslanir, sem stofnaðar voru fyrir fyrri heimsstyrjöldina, sammerkt í því að einni undanskilinni, að þær liðu undir lok á árunum 1923-24, urðu að leggja árar í bát vegna fjárhagserfiðleika og einnig af þeim sökum, að viðskiptin tóku þá sem óðast að færast frá þorpunum niður við sjóinn með breyttum samgöngum. Eftir þann tíma eru settar á fót nýjar verzlanir, sem byggja ekki lengur tilveru sína á sveitaviðskiptum, eins og áður var tíðast, heldur eru fyrst og fremst miðaðar við þarfir byggðarlagsins. Verður nú rakin í stuttu máli saga þessara verzlana.

Leave a Reply