015-Minningar

Það var íþróttarstarfsemin í U.M.F.S. sem vakti athygli mína á félaginu og dró mig að því, þegar á fermingaraldri. Einkum var það glíman.

Nú varð ég ekki hlutgengur íþróttamaður, en þetta segir samt sína sögu, að drengjum er mikil þörf á að eignast áhugamál, verkefni, og að komast í kynni við hollan félagsskap og njóta leiðbeiningar um leikreglur og drengilega framkomu í keppninni við félaga sína.

Drengir á aldrinum 10-20 ára eru einhverjir áhugasömustu starfsmenn sem fyrirfinnast, og meðal þeirra getur menntaður, ólatur og velviljaður leiðtogi náð undraverðum árangri.

Þetta virðist mér að forystumenn U.M. F. S., þau árin sem ég var þar virkur félagi, hafi skilið. Félagið var svo lánsamt að, njóta þessi ár hins ágæta íþróttaleiðbeinanda, Sæmundar Friðrikssonar. Enda var árangurinn sem náðist ótrúlega mikill, og vöktu Stokkseyringar þess tíma á sér athygli sem íþróttamenn – íslenzk-glíma – langt út fyrir heimabyggð sína. Og það voru ekki unglingarnir einir sem áhuga höfðu á þessum málum. Eldra fólkið, karlarnir, fylltust eldmóði, og varla held ég að áhugasamari áhorfendur gefist en þeir sem sóttu samkomur félagsins fyrir almenning – þær sem höfðu íþróttir sem lið í skemmtiskrá. Enda naut félagið á þessum árum velvilja og fyrirgreiðslu margra. Kom það meðal annars fram í sambandi við húsnæðismál félagsins, en um þau er mikil saga, sem ekki verður sögð af mér.

Annað, sem mig einkum rekur minni til frá þessum árum er fræðslustarfsemin með aðfengnum fyrirlesurum. Þar man ég bezt Guðmund Hjaltason.

Og svo eru það fundirnir og söngurinn og leikirnir og dansinn. í minningunni hugljúfar stundir með félagssystkinum. Stundir, sem voru okkar skóli til andlegs og líkamlegs þroska – aukins manngildis.

Formaðurinn, sem oftast var Þórður Jónsson var svo formfastur og röggsamur fundarstjóri að sómt hefði hvaða stofnun sem var. Undir hans stjórn mótaðist félagið og ég held að hann hafi átt mjög mikinn þátt í þeim leikreglum sem starfað var eftir. –

Ég tel mér það mikilsvert að hafa um nokkurt skeið verið virkur félagi í U. M. F. S., og fimmtugu óska ég félaginu alls góðs.

Sigurgrímur Jónsson

Leave a Reply