You are currently viewing 018-Þingstaðir og aftökustaðir

018-Þingstaðir og aftökustaðir

Fram til ársins 1811 var þingstaður hreppsins á Stokkseyri. Þar voru haldnar hinar föstu samkomur hreppsbúa, svo sem manntalsþingin, og þar voru dómþing háð. Fyrr á öldum fóru slík þingstörf fram undir beru lofti, og er talið, að þingstaðurinn hafi verið í svonefndum Þingdal, sem var dálítil lægð eða slakki norðan við húsið Bjarmaland í Stokkseyrarhverfi. Sjávarmegin við lægðina var hryggur nokkur, sem húsið var byggt á, en vegurinn gegnum þorpið liggur yfir norðurenda hennar. Þingdalurinn var smám saman fylltur upp og loks að fullu, er samkomuhúsið Gimli var byggt 1921. Sér hans nú hvergi stað. Eigi verður framar vitað, hvenær þinghús var fyrst byggt á Stokkseyri, en á manntalsþingi 20. maí 1783 býður sýslumaður hreppstjórum að sjá til, ,,að þinghúsið verði uppbyggt og í góðu standi“. Má af þessum orðum sjá, að þinghús hefir verið þar áður. Eldra en frá 18. öld hefir það þó naumast verið, þegar það er haft í huga, að árið 1690 var fyrst byggt hús yfir lögréttuna á alþingi, en áður var tjaldað yfir hana.

Algengt var, að aftökustaðir væru í nánd við þingstaði, og eru örnefni til vitnis um það víða um land. Í námunda við Stokkseyrarþingstað eru t. d. tvennir Gálgaklettar. Aðrir eru austarlega í Stokkseyrarfjöru fyrir framan Eystri-Rauðarhól. Um þá er sú munnmælasaga, að drengur nokkur hafi hengt sig þar, hafi hann verið að leika hengingu af óvitaskap, en snaran runnið að hálsi honum, svo að hann var dauður, er að var komið. Hinir Gálgaklettarnir eru í Hraunsfjöru í mörkum milli Gamla-Hrauns og Litla-Hrauns. Fylgir þeim sú saga, að þar hafi tveir menn verið hengdir einhvern tíma fyrr á öldum. Þar í grenndinni eru örnefnin Líkhella og Dysin, og kynni að vera samband þar á milli.[note]Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 402, sbr. 152-153. [/note] Annars eru engar heimildir til, það eg veit, um aftökur á Stokkseyrarþingi. Og eini dauðadómurinn, sem þar var upp kveðinn og mér er kunnugt um, var dómurinn yfir Barna-Arndísi 1771, en lögþingísrétturinn breytti honum í fjögra ára hegningarvinnu.[note]Sama rit, 351-353. [/note]

Á síðustu sýslumannsárum Steindórs kansellíráðs Finnssonar 1812 voru allir hinir fornu þingstaðir Flóahreppanna lagðir niður, þingsóknunum steypt saman og þeim valinn nýr, sameiginlegur þingstaður að Hróarsholti. Áður hafði hver hreppur haft sinn sérstaka þingstað: Villingaholtshreppur í Vælugerði, Hraungerðishreppur í Hraungerði, Sandvíkurhreppur í Stóru-Sandvík, Gaulverjabæjarhreppur í Gaulverjabæ og Stokkseyrarhreppur á Stokkseyri. Þinghús var reist í Hróarsholti og þingað þar samfleytt í tvo daga og um það bil helmingur þingsóknarmanna boðaður þangað hvorn daginn. Mun þessi tilhögun hafa verið upp tekin til hægðarauka fyrir sýslumann.[note] Sbr. sýslulýsingu Páls Melsteðs í ÍB 19, fol.[/note]

Árið 1850 var þingstaður Stokkseyrarhrepps fluttur til Eyrarbakka, og þar var hann síðan, unz hreppnum var skipt. Eftir það eða frá 1898 hefir þingstaður núveranda Stokkseyrarhrepps að sjálfsögðu verið á Stokkseyri, hinum forna þingstað hreppsins.

Leave a Reply