Hellukot var hjáleiga frá Stokkseyri, og er þess getið fyrst í manntali 1703. Undir lok 18. aldar var Hellukot selt úr Stokkseyrartorfunni. Seljandinn hefir vafalaust verið mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum, en kaupandinn var Jón bóndi Ingimundarson á Leiðólfsstöðum (sbr. Skiptab. Árn. 18. júní 1805). Við arfaskipti eftir Jón kom Hellukotið í hlut Bergs, sonar hans, en hann seldi það aftur 2. júní 1810 Jóni hreppstjóra Þórðarsyni í Vestri-Móhúsum. Er þá tekið fram, að kotinu fylgi 4 leiguhús: baðstofa, búr, eldhús og fjós. Eftir að Jón í Móhúsum keypti hálfa Stokkseyrartorfuna árið 1848, tengdist Hellukot henni á ný og fylgdi síðan. Er það nú ásamt henni eign ríkissjóðs. Árið 1939 skírðu núverandi ábúendur Hellukotið upp og nefndu það Brautarholt, en nafnið hefir ekki enn festst við það í daglegu tali.