Starkaðarhús voru hjáleiga frá Stokkseyri, og höfum vér fyrst séð þeirra getið í Þingb. Árn. 15. maí 1699. Nafnið er ritað með ýmsu móti fyrr á tímum: Starkadshús manntal 1703, Starkgardshús Þingb. Árn. 27. maí 1705. Starkardshús Jarðabók ÁM. 1708, Stargerðishús manntalsbók Árn. 1844, og jafnvel á fleiri vega. Í sumum þessum nafnmyndum gægjast fram misheppnaðar alþýðuskýringar. svo sem nafnið væri dregið af stargarði eða stargerði. Algengasti ritháttur og framburður nafnsins nú á dögum er Starkarhús, og kemur sú mynd einnig snemma fyrir. Vér teljum vafalaust, að fyrri liður orðsins sé mannsnafnið Starkaður. Það er upphaflega í eignarfalli Starkaðar og síðar, einkum í samsetningum Starkaðs, sbr. t. d. Starkaðssteinn og Starkaðsver (Þjóðs. Jóns Árnasonar I. 232). Segja má því, að rétt sé að rita hvort heldur sem er Starkaðarhús eða Starkaðshús, eins og gert er í manntali 1703. Þess má geta. að ein af Hraungerðishjáleigum í Flóa bar sama nafn, og er um það svipaða sögu að segja. Starkaðarhús fylgdu jafnan Stokkseyrartorfunni og eru nú ásamt henni eign ríkissjóðs síðan 1935.